28.11.1951
Sameinað þing: 18. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í D-deild Alþingistíðinda. (3154)

80. mál, tunnuverksmiðja ríkisins

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 293 viðaukatill. við brtt. n. í þessu máli. Í viðaukatill. þessari er gert ráð fyrir, að ríkisstj. verði falið að hlutast til um, að keypt verði efni til tunnugerðar, er tryggi, að hægt verði að smíða að minnsta kosti 200 þús. tunnur á næsta vetri í tunnuverksmiðjunum á Akureyri og Siglufirði. Till. mín felur í sér, að nú þegar verði hafnar aðgerðir til að kaupa efni fyrir veturinn 1952–53. Síldarútvegsnefnd, sem hefur haft með þetta að gera, hefur haft þann hátt á að leita ekki eftir efni fyrr en á vorin, og nú hefur svo farið, að hún hefur ekki getað tryggt efni nema í 40 þús. tunnur. Þetta stafar af því, að það þarf að fara á veturna, þegar verið er að höggva efnið í skógunum, að velja úr því, því að í þessar tunnur þarf valinn við.

Það er kunnugt, að þetta verk var falið þriggja manna nefnd, en skömmu eftir að stjórn hinna þriggja flokka var mynduð, 1947, var þessi nefnd lögð niður og verkið falið síldarútvegsnefnd. Ég benti á það þá, að ég teldi óheppilegt að fela þetta verk síldarútvegsnefnd, því að svo stendur á, að þegar hún þarf að vera að selja okkar afurðir, þá er það notað á hana til að þrýsta verði þeirra niður, að hún fái þá ódýrara efni í þessar tunnur.

Við höfum fulla ástæðu til að ætla, að það sé ekki of mikið, að keypt verði efni í 200 þús. tunnur, því þó að síldveiðin hafi brugðizt undanfarin ár, þá er það mikið saltað hér sunnanlands, að það hefur verið nóg með þær tunnur allar að gera, og auk þess má nota þessar tunnur undir aðrar afurðir. En ef ekki er þegar gerð að því gangskör að fá efni í þessar tunnur keypt strax, þá er það of seint. Viðurinn er höggvinn á veturna, og þá þarf að vera þar við og velja efnið í tunnurnar. Það þarf nú í vetur að velja allt það efni, sem nota á í tunnurnar næsta vetur. Þá er hægt að afla efnis til að framleiða 200 þús. tunnur. Og það væru full rök fyrir því að framleiða meira, af því að það geta orðið mikil áraskipti að því, hvað hægt er að salta mikla síld norðanlands. Nú er sú aðstaða á Siglufirði t. d., að þar er hægt að geyma tugi þúsunda af tunnum í ágætu húsi, þannig að þær eru eins og nýjar eftir margra ára geymslu. Að vísu er ekki ástæða til að geyma mjög mikinn lager. En þessi geymsluhús á Siglufirði tryggja, að tunnur liggja ekki undir neinum skemmdum, ef bíða þarf til næsta árs að nota þær. Hins vegar er ekki til slík birgðageymsla á Akureyri, og verður að geyma tunnurnar úti. Ég vil benda á, að það var gert ráð fyrir, að byggðar væru strax nokkru fullkomnari verksmiðjur á báðum stöðum, Siglufirði og Akureyri. Nú loksins er svo komið, að verksmiðjan á Siglufirði er nokkurn veginn í lagi, en á Akureyri er ekkert að gert. Og um tíma hugsaði síldarútvegsnefnd að leggja niður tunnusmíði á Akureyri. Finnst mér þetta benda til þess, að síldarútvegsnefnd sé ekki í alla staði vel til þess fallin að hafa þetta starf með höndum og þurfi að skipa sérstaka tunnuverksmiðjustjórn og séu í henni einn frá Siglufirði, einn frá Akureyri og einn annars staðar frá. Þá er ég viss um, að haldið verður betur á málum. Það er með fáum málum betur hægt að koma til hjálpar fólkinu í þessum bæjum en með því að láta þessi fyrirtæki veita vinnu. Það er með fáu móti hægt að koma til aðstoðar jafneðlilega og sjálfsagt fyrir þjóðarheildina, því að ávinningurinn er margfaldur. Það má nefna gjaldeyrissparnað og gæði tunnanna, því að það hefur sýnt sig, að þessar tunnur eru yfirleitt betri en þær, sem er verið að kaupa úti, því að við höfum ekki fengið nema úrgang, alls konar eftirleguparti, sem við höfum svo orðið að kosta miklu fé til að lagfæra. Þetta kemur að vísu ekki þessari till. við, en það er óhjákvæmilegt að benda á þetta, vegna þess að reynslan hefur sýnt miklu verri útkomu en til stóð fyrir það, að þeir, sem að þessu standa, hafa annaðhvort ekki tæki eða vilja til að fylgja málinu fram eins og íbúarnir á Akureyri og Siglufirði vilja og hafa gert hjá sér. En ég tel, að samþykkt þessarar till. verði mjög jákvæð og ýti undir, að þeir, sem þarna bera ábyrgð á, og ríkisstj. geri þær ráðstafanir, sem þarf, til þess að stöðugur rekstur sé á þessum verksmiðjum, eins og vera ber. Það er yfirlýsing Alþ. um það, að það vill ekki, að starfsemi þessara verksmiðja dragist saman eins og verið hefur að undanförnu.