16.01.1952
Sameinað þing: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í D-deild Alþingistíðinda. (3175)

81. mál, heildarendurskoðun á skattalögum o.fl.

Frsm. minni hl. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Eins og hv. þm. er kunnugt og hv. frsm. meiri hl. tók fram, þá gat ég ekki gengið inn á að fylgja till. óbreyttri, vegna þess að mér virtist hún ófullkomin og þyrfti að taka breyt., til þess að það yrði af henni það gagn, sem ætlazt er til, að hún leiði til heilbrigðrar og heppilegrar endurskoðunar skattalaganna.

Það er ekki deilumál, að það þurfi að endurskoða skattal. og gera á þeim breyt., enda er það ekki nema eðlilegt, því að það er mjög langt síðan skattal. voru tekin til verulegrar athugunar, en hins vegar hafa aðstæður allar í þjóðfélaginu breytzt ákaflega mikið hin síðari ár og s. l. áratug, sem veldur því, að skattalögin eru orðin mjög úrelt á þessum tímum. Þau skattal., sem við búum við nú, eru 20–30 ára gömul og hafa sennilega svarað vel þörfum þjóðfélagsins, þegar þau voru sett, hins vegar hafa verið gerðar á þeim ýmsar smærri breyt., án þess að heildarendurskoðun hafi farið fram.

Eitt er það, sem sérstaklega hefur orðið áberandi í sambandi við þær breyt., sem orðið hafa á öllu fjárhagslífi þjóðarinnar. Það eru hinir beinu skattar, sem miðaðir voru við það á sínum tíma, að hinir tiltölulega tekjulágu slyppu sæmilega vel við þungar skattaálögur. Þetta hefur breytzt þannig, að skattstiginn, sem settur var, þegar skattal. komu fyrst fram, hefur breytzt til ófarnaðar fyrir fólkið, þannig, að tekjur, sem áður voru taldar háar tekjur, eru nú ekki nema lágar þurftartekjur og jafnvel fyrir neðan það. Þess vegna er mikið ósamræmi í þessum skattgreiðslum og tekjustofnum ríkissjóðs, og þeim hefur verið fjölgað allmikið og verið bætt við ýmiss konar viðaukum, eins og t. d. tekjuskattsviðauka, sem hefur aldrei verið nema til eins árs í einu, en verið framlengdur á hverju þingi með l., sem eru óbreytt frá ári til árs.

Enn fremur vil ég benda á það, að í sambandi við aðra löggjöf hafa nefskattar ýmsir stórhækkað og margfaldazt, sérstaklega á það við um tryggingagjöldin, sem segja má að kunni að vera eðlilegt í sambandi við þá löggjöf. Hinu verður ekki neitað, að nefskattar allir eru óréttlátir og eru í rauninni úrelt skattafyrirkomulag í nútíma þjóðfélagi, og ég tel, að þeir eigi að hverfa fyrir öðru réttlátara fyrirkomulagi.

Allt skattakerfið er þannig orðið ákaflega flókið og margbrotið, svo að það má fullyrða, að það er ekki á færi almennings að átta sig á því, eftir hvaða leiðum skattheimtan fer fram, eftir hvaða leiðum hann greiðir þau gjöld, sem hann greiðir til ríkisins, og er óhætt að fullyrða, að fólkið hefur ekki hugmynd um, hvaða gjöld það greiðir til ríkisins samtals. Almenningur veit ekki, hvað hann greiðir mikið í óbeinum tollum og sköttum, sem ríkið fær nú tekjur sínar af.

Þetta vildi ég segja um skattaálögurnar og skattinnheimtuna almennt. En gagnvart till. vil ég taka það fram, að mér virðist, að till. sé ekki nærri nógu nákvæm um þetta atriði og taki ekki fram þau atriði, sem ég tel að ætti að taka tillit til við endurskoðun, þannig að ekki er mörkuð í henni sú stefna, sem ætti að vera í einstökum atriðum, og vantar í hana ákvæði og mikilsverð atriði, sem rétt er að Alþ. taki fram og ég álít að endurskoðun eigi að beinast að, svo framarlega sem það ætlar sér að ákveða að endurskoðun skattal. eigi fram að fara. Þess vegna hef ég klofið n. og skilað sérstöku nál. með brtt., og skal ég þá fara fáeinum orðum um hverja einstaka brtt.

Í fyrsta lagi tel ég rétt, ef Alþ. ætlar sér að fyrirskipa endurskoðun skattal., miðað við, að sú endurskoðun leiði til verulegs árangurs, að þingið kjósi n. til þess að annast þessa endurskoðun. Í .till., eins og hún er frá hendi flm., þá er aðeins gert ráð fyrir, að þingið skori á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að þessi endurskoðun fari fram. Ég tel réttara að þingið kjósi sjálft n., sem starfi milli þinga, og í sambandi við það tel ég sjálfsagt, að allir þeir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, fulltrúar þess almennings, sem hefur kosið þm. til þess að starfa á Alþ., eigi að velja þessa n. hér. Þetta er mikið starf, sem verður að vinna milli þinga, og er nauðsynlegt, að sem flest sjónarmið komi fram, ef á að vera tryggt, að þetta starf beri góðan árangur. Enn fremur er nauðsynlegt að skapa samstarf um lausn málsins milli þeirra aðila, sem koma til með að ráða endanlegum úrslitum, og það verður ekki gert betur en með því, að þingið skipi sérstaka mþn. til þess að annast þessa endurskoðun. Síðan leggi ríkisstj. fyrir þingið, t. d. fyrir næsta þing, niðurstöður byggðar á þessari endurskoðun.

Þá legg ég enn fremur til, að það verði ákveðið í till., að skattakerfi ríkisins sé gert einfaldara og óbrotnara en nú er með því að sameina hina beinu skatta og í samræmi við það að afnema að mestu eða öllu leyti hina ýmsu nefskatta, sem liggja nú mjög þungt á öllum almenningi, sérstaklega á tekjulágu fólki. Það þarf ekki að eyða orðum að því, hversu mikið er unnið í innheimtukostnaði við það að fækka þessum skattstofnum, sem hér er um að ræða. Öll skriffinnska mundi minnka að stórum mun, þar sem hverjum manni hefur þurft að ákveða sérstaklega tekjuskatt, tekjuskattsviðauka o. s. frv. Það hlýtur að vera hægt að gera skattakerfið einfaldara, skattstofnana færri og spara með því kostnað við innheimtuna. — Enn fremur vil ég taka fram í viðbót við það, sem ég sagði áðan, að það er í raun og veru óeðlilegt að láta alla aðila greiða til þeirra ákveðnu framkvæmda, sem þarna er um að ræða, án tillits til þess, hvort þeir hafa jafna aðstöðu til að inna gjöldin af hendi, og það er í raun og veru búið að viðurkenna með því að láta stighækkandi skattstiga gilda um greiðslu tekju- og eignarskattsins, að þetta kerfi um nefskatta er alveg óeðlilegt og óréttlátt. Þess vegna tel ég sjálfsagt, að í sambandi við þessa athugun verði gengið inn á þá braut að afnema nefskatta að mestu leyti, og mundi það líka hjálpa til þess að gera skattakerfið óbrotnara og einfaldara í vöfum og kostnaðarminni alla innheimtu.

Þá legg ég enn fremur til í 2. lið brtt., að gengið verði inn á þá braut að hafa skattfrjáls ákveðin þurftarlaun einstaklinga. Raunverulega er ekki hægt annað að segja heldur en að hér sé seilzt langt yfir skammt að vera að leggja á mjög tekjulágt fólk skatta, sem viðurkennt er að það geti raunverulega tæplega borgað. Því verður ekki neitað, að fyrsti réttur hvers einstaklings í siðuðu þjóðfélagi er sá, að hann hafi til framfæris sér nauðsynlegustu þurftarlaun, sem hann þarf á að halda, hafi þau laun fyrir vinnu sína, ef hann er vinnufær, og nauðsynlegasta framfæri eftir öðrum leiðum, ef hann er óvinnufær. Þess vegna er það eðlilegur hlutur að ákveða það í sambandi við breyt. á skattakerfinu, að nauðsynlegustu þurftartekjur séu algerlega skattfrjálsar. Mótmæli gegn þessu fyrirkomulagi geta ekki verið byggð á neinu öðru en þeirri skoðun, að það sé réttlátt, að menn verði að greiða skatt til ríkisins, þrátt fyrir það að þeir hafi ekki nema nauðsynlegustu þurftarlaun sér til lífsframfæris, og ég hygg, að þessi skoðun sé í rauninni alls ekki mjög útbreidd meðal þm. Það er þess vegna tvímælalaust eðlilegt að láta skattgreiðslu af tekjum byrja þegar tekjurnar eru komnar yfir þetta lágmark eða nauðsynlegustu þurftarlaun, en síðan stighækkandi úr því, eftir því sem tekjurnar hækka. Þess vegna legg ég til, að þetta sé tekið beint inn í till., svoleiðis að sú n., sem ég legg til að fái þetta til meðferðar, hafi ákveðinn vilja Alþ. að styðjast við. Hvar þetta lágmark yrði sett, yrði breytilegt á hverjum tíma, og væri eðlilegast, að það yrði miðað við ákveðna framfærsluvísitölu og verðlag, breytilegt í krónutölu eftir því, sem gildi peninga yrði, miðað við almennt verðlag í landinu.

Þá legg ég enn fremur til í 3. lið brtt., að ákvæðum um skattgreiðslu hjóna sé breytt í þá átt, að tekjur hvors um sig séu skattlagðar sérstaklega. Þetta hefur verið mikið deilumál í þinginu og mikið búið að ræða það, og sé ég því ekki ástæðu til að hafa mörg orð um það. En ég vil benda á þá staðreynd, að mörg hjón, sem hafa lágar tekjur hvort í sínu lagi, verða að greiða óeðlilega háa upphæð í skattgreiðslur, vegna þess að þeim er ekki leyft að telja fram hvort í sínu lagi, þannig að þau séu skattlögð hvort í sínu lagi.

Þá er í 2. lið till. flm., eins og hún er, minnzt á eftirlit með skattaframtölum og að tryggja rétt sveitarfélaga, en þó er fremur ónákvæmt minnzt á þetta. Um eftirlit með skattaframtölum þarf ég ekki að ræða mikið, því að það er viðurkennt, að þarna sé þörf stórra umbóta. Það er viðurkennt af flestum, að það eigi sér stað, þjóðfélaginu til mikils skaða, að skotið sé undan skatti skattskyldum tekjum, og það hefur sérstaklega verið rætt í þinginu um ýmsar aðferðir, sem notaðar hafi verið til þeirra hluta, eins og t. d. þegar eignum stórra fyrirtækja og tekjuhárra er skipt og stofnuð hlutafélög til þess að láta þær vera eign fleiri aðila og sleppa þannig við eðlilegan skatt. Það er vitað, að þetta er gert í stórum stíl, og er full þörf á að gera ráðstafanir í sambandi við nýja skattalöggjöf til þess að hindra, að þetta komi fyrir og verði praktiserað í framtíðinni. Í sambandi við það vil ég benda á, að einmitt lágtekjumenn hafa enga slíka möguleika til þess að skjóta undan skatti neinu af sínum tekjum, því að þær eru gefnar upp af öðrum aðilum en þeim sjálfum. Það er staðreynd, að þar sem um er að ræða skattsvik, þá er það fyrst og fremst hjá þeim, sem eru tekjuhæstir, því að hinir, sem eru tekjulágir, hafa enga möguleika til slíks undandráttar.

Þá legg ég enn fremur til, að það sé ákveðið skýrt í till., að tryggður skuli réttur sveitarfélaganna, þ. e. a. s. eðlileg skipting tekjustofna milli ríkisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar, þannig að sveitarfélögin geti haldið uppi eðlilegri starfsemi án þess að ofbjóða gjaldþoli skattþegna sinna. Þetta hefur mjög mikið verið rætt á þessu þingi, og má segja, að það væri að bera í bakkafullan lækinn að fara mörgum orðum um það í sambandi við þetta, en það er staðreynd, sem liggur ljóst fyrir, að ríkið er þegar búið að ganga mjög langt í því að leggja skatta á einstaklinga, ekki fyrst og fremst með beinum tekju- og eignarsköttum, heldur fyrst og fremst með óbeinum sköttum, sem lagðir eru á allar þær nauðsynjar, sem einstaklingarnir þurfa að kaupa og nota sér til lífsframfæris. Ég upplýsti það í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna, að slíkir tollar og óbeinir skattar nema ekki minna í núgildandi fjárl. en 8500 kr. á hverja 5 manna fjölskyldu. Af þessu leiðir, að erfitt er fyrir sveitarfélögin að leggja nægileg útsvör á sína skattþegna, vegna þess að greiðslugeta þeirra er þegar svo þorrin við að standa undir þeim greiðslum, sem þeir þurfa að greiða til ríkisins, að sveitarfélögin eru í vandræðum með sín fjármál út af þessu meðal annars. Það hafa verið fluttar hér till., sem gerðu ráð fyrir, að ríkið gæfi eftir hluta af einum af sínum tekjustofnum, söluskattinum, til sveitarfélaganna, og hefði verið samþ. þó ekki væri nema sú till., sem kom hér fram um það, að ¼ af söluskattinum gengi til sveitarfélaganna, þá er áreiðanlegt, að það hefði stórkostlega mikið bætt úr fjárhagserfiðleikum sveitarfélaganna. En allir hv. þm. muna, hvernig það mál fór, og nú er útlit fyrir, að ríkisstj. ætli sér að láta þetta þing fara heim án þess að rétta á minnsta hátt hlut sveitarfélaganna í þessum efnum. Mér sýnist horfa óvænlega, ef svo er gert, og er þá það minnsta, sem þingið getur gert, að ákveða nú með þessari till., að það væri beinlínis fyrir lagt, að sveitarfélögunum skuli séð fyrir sæmilegum möguleikum til þess að halda uppi sinni starfsemi án þess að ofbjóða gjaldþoli skattþegnanna eða eiga á hættu, að þeir gætu ekki greitt þau gjöld, sem á þá væru lögð til starfsemi í sveitarfélaginu.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta mál, en vil vænta þess, að þessar till. fái góðar undirtektir hjá hv. þm.