16.01.1952
Sameinað þing: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í D-deild Alþingistíðinda. (3176)

81. mál, heildarendurskoðun á skattalögum o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Eins og nál. bera með sér, hefur fjvn. klofnað um málið, og hefur hvor hluti um sig skilað sérstöku nál. Ég hef skrifað undir nál. á þskj. 608, sem meiri hl. stendur að, án fyrirvara, en ég vil gera grein fyrir mínu atkv. í sambandi við afgreiðslu málsins, og sérstaklega vegna þess, að það kom ekki fram í framsögu hjá hv. frsm. Þessi þáltill. er um það að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir heildarendurskoðun laga um skatta og útsvör, sem stefni að því, að lögfest verði heilsteypt kerfi skattamála, sem byggist á eðlilegri og samræmdri tekju- og verkaskiptingu ríkisins annars vegar og bæjar- og sveitarfélaga hins vegar. Enn fremur segir, að jafnframt skuli við það miðað að ofþyngja ekki einstaklingum, félögum og atvinnurekstri í opinberum gjöldum, tryggt samræmi og jafnrétti við álagningu gjaldanna, sem mundi auðvelda eftirlit með því, að framtöl séu rétt. Þegar þessi till. var til umr. í n., þá hreyfði ég því, að betur skyldi athugað, hvaða áhrif það hefði á fjárhagskerfi landsins almennt og afkomu ríkissjóðs, ef l. um tekju- og eignarskatt og stríðsgróðaskatt væru afnumin. Nefndarmönnum þótti ekki rétt að bæta þessu við till., vegna þess að meginágreiningur væri á Alþ. um það, hvort slíkt ætti að gera. Í mínum till. var ekkert sagt um það, hvort ætti að afnema þessi l. á þessu stigi, heldur voru þær aðeins um rannsókn þessa máls, svo að það kæmi fyrst til kasta Alþ., þegar það fengi þessi mál til meðferðar á ný, að athuga, hvort heppilegra þætti að fara inn á þá leið að halda þessum skattal. eða afnema þau að fullu og öllu. Ég vil taka fram, að ég vildi ekki með þessari till. torvelda framgang málsins í n. eða á Alþ., en vil taka það fram, að fylgi mitt við till. er bundið því skilyrði, að hæstv. ríkisstj. láti athuga, hvaða áhrif það hefur á hagkerfi landsins, rekstur fyrirtækja og afkomu ríkissjóðs, ef skattalögin eru afnumin. Ég veit ekki, hvort orðalagið bindur nokkur lagafyrirmæli, eins og ætlazt er til með till. Ég geri ráð fyrir, að hver þm. greiði atkvæði óbundið eftir því, hvort hann vill fylgja þessari stefnunni eða hinni, en mér finnst nauðsynlegt, að þessar upplýsingar liggi fyrir, þegar á að taka ákvörðun um, hvorri stefnunni á að fylgja. Það liggja nú fyrir þinginu allmargar og verulegar till. um breytingar á skattalögunum, m. a. frá mér um afnám þeirra. Þessi tillaga, sem ég bar fram í fyrra, hefur vakið athygli manna um allt land, ekki af því, að þeir vilji losna við að greiða skatt, því að allir vita, að það verður að taka skatt af þjóðinni, heldur af þeim upplýsingum, sem fylgdu, um, hvað það kostaði ríkissjóð að leggja skattinn á og framkvæma lögin og hve lítill hluti af tekjum ríkissjóðs fæst með þessum sköttum, sem á margan hátt torvelda fyrirtækjum rekstur og auðsöfnun. Það er því sjálfsögð skylda n. að afla allra upplýsinga um þessa hlið málsins. Greiði ég till. atkvæði í trausti þess, að þetta verði athugað.