21.11.1951
Sameinað þing: 16. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í D-deild Alþingistíðinda. (3183)

52. mál, rannsókn virkjunarskilyrða á Vestfjörðum

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Um það þarf ekki að fara mörgum orðum í sambandi við þessa till., að þörfin fyrir raforku vex óðfluga um land allt. Og horfur eru á því og má raunar segja með nokkurri vissu, að þar sem fólk á ekki kost á raforku til atvinnurekstrar og sköpunar margs háttar lífsþæginda, þar mun byggð verða strjálli eða jafnvel leggjast af í framtíðinni. Þetta er reynslan í þessu landi, að þar sem beztu skilyrðin eru til hagnýtingar raforku og fólkið hefur fyrst fengið hana, þar hefur atvinnulífið orðið fjölbreyttast og þar hefur fólkið einnig notið mestra lífsþæginda. Það er þess vegna engan veginn óeðlilegt, að fólkið flytji frá þeim stöðum, sem ekki búa að þessum glæsilegu lífsþægindum og fjölþættu atvinnumöguleikum, til hinna staðanna, sem njóta þeirra.

Sem betur fer, er það þannig nú, að yfir standa stórfelldar framkvæmdir í raforkumálum þjóðarinnar. Það eru fyrst og fremst tvær raforkuvirkjanir, sem unnið er að, á Suðurlandi við Sogið fyrir Reykjavík og mikinn hluta Suðurlands og á Norðurlandi við Laxá í Þingeyjarsýslu fyrir Akureyri og nálæg héruð norðanlands. Það er vitað, að því aðeins hafa þessar framkvæmdir orðið mögulegar nú á tímum mikillar dýrtíðar, að erlent lánsfé eða gjafafé hefur verið fengið til þeirra og þessir landshlutar, sem þessar tvær virkjanir eru í, hafa setið fyrir um þetta fé. Nú er það hins vegar þannig, að flestir aðrir landshlutar eru skemmra á veg komnir um hagnýtingu fossaaflsins hér á landi en þeir, sem nú eru að fá hinar glæsilegu viðbótarvirkjanir. Það er þess vegna engan veginn óeðlilegt, þó að þeir landshlutar, sem skemmra eru á veg komnir í þessum efnum, geri sér vonir um að verða innan skamms, þegar þessar stóru virkjanir eru vel á veg komnar, aðnjótandi þess fjármagns frá Efnahagssamvinnustofnuninni, sem ekki hefur verið ráðstafað til þessara stóru virkjana.

Þessi till., sem hér liggur fyrir til umr., miðar fyrst og fremst að því, að ýtarleg rannsókn verði látin fara fram á virkjunarskilyrðum á Vestfjörðum. Á Vestfjörðum er ekkert heildarraforkuver til fyrir þann landshluta. Segja má, að vatnsvirkjanir séu svo að segja engar. Það er aðeins í Skutulsfirði við Ísafjarðardjúp, sem allmyndarleg vatnsvirkjun hefur verið byggð fyrir Ísafjarðarkaupstað og einn hrepp í Norður-Ísafjarðarsýslu, en sú orka, sem það orkuver framleiðir, er algerlega ófullnægjandi fyrir Ísafjarðarkaupstað og það fólk annað, sem þaðan á að fá raforku. Hins vegar er nú verið að setja af stað vatnsaflsvirkjun fyrir Bolungavík í því byggðarlagi, og standa vonir til þess, að hægt verði að hefjast handa um þá virkjun á næsta sumri, a. m. k. er að því stefnt af hendi byggðarlagsins og forsvarsmanna þess, og ég vil leyfa mér einnig að vænta þess af þeim undirtektum, sem ég fékk á síðasta þingi hjá ríkisstj. undir það mál, að til mála komi ekki, að dragist lengur en til næsta sumars, að á þeirri virkjun verði byrjað.

Ég þarf ekki að lýsa því, við hverjar aðstæður Vestfirðir búa í raforkumálum. Sjávarþorpin búa við rándýra raforku, sem framleidd er með olíu. Þessi raforka er svo dýr, að ég hygg, að almenningur hér, sem á kost á ódýrari og nokkurn veginn nægri raforku, mundi undrast það mjög, hvernig fólk getur klifið þann hamar að nota slíka raforku, jafndýra, til ýmiss konar iðnaðarframleiðslu og enn fremur til heimilisþæginda. Það er greinilegur munur á því verði, sem þetta fólk verður að greiða fyrir raforkuna frá dieselrafstöðvum, og því, sem almenningur hér verður að greiða fyrir raforku frá hinum stóru vatnsaflsvirkjunum.

Vestfirðingum er fyrir löngu orðið ljóst, að til þess ber brýna nauðsyn, að fossaflið í þeim landshluta verði virkjað og heildarvirkjun hrundið í framkvæmd fyrir þennan landshluta. Þess vegna var fyrir 30 árum hafizt handa um mælingar á einu stærsta vatnsfalli þar, Dynjanda við Arnarfjörð. Seinustu niðurstöður af þeim mælingum, útreikningum og áætlunum eru þær, að talið er, að þar megi fá 7000 hestöfl, og miðað við verðlag árið 1930 er gert ráð fyrir, að slík virkjun kosti um 60 millj. kr. Að fenginni þessari niðurstöðu þótti ekki ráðlegt á því stigi að ráðast í virkjun Dynjanda. Hins vegar hefur ekki farið fram heildarathugun á því, hvernig unnt verði á annan hátt að leysa raforkuþörf Vestfjarða. Þess vegna er það, að þessi till. er flutt. Með henni er lagt til, að ríkisstj. láti fara fram ýtarlega rannsókn á því, hvaða fallvatn eða fallvötn séu vænlegust til raforkuframleiðslu fyrir Vestfirði. Skal rannsóknin miðuð við virkjun eða virkjanir í svo ríkum mæli, að fullnægt geti örugglega öllum raforkuþörfum þessa landshluta á komandi áratugum. Þá er einnig gert ráð fyrir því, að rannsókn þessari sé hraðað svo, að rökstuddar tillögur og áætlanir um slíka heildarvirkjun geti legið fyrir haustið 1952. Um þessa till. þarf í rauninni ekki að fara frekari orðum, hún skýrir sig sjálf. Vestfirðingar eru orðnir óþreyjufullir í þessum málum, og þeim verður stöðugt ljósari hin erfiða aðstaða, sem þeir búa við, og þeim er það einnig ljóst, að ef svo fer fram, að öllu því mikla fjármagni, sem þjóðin fær á grundvelli Marshallsamvinnunnar frá Efnahagssamvinnustofnuninni, verður varið til hinna þéttbýlu staða og stærri kaupstaða til bættra og aukinna lífsþæginda, þá sjá þessar byggðir, sem útundan verða, sína sæng upp reidda og þá sér þéttbýlið einnig sína sæng upp reidda. Það verður þá að búa sig undir það að byggja yfir alla þjóðina á tiltölulega takmörkuðu svæði af landinu, en það þýðir einnig mikil vandamál, og hæstv. Alþ. veit, hvaða vandamál t. d. Reykjavík á nú við að etja í byggingarmálum sínum, einmitt vegna þess gífurlega straums af fólki, sem stöðugt liggur hingað utan af landi frá framleiðslustöðunum, sem búa við lélegri aðstöðu en höfuðborgin og geta ekki veitt fólkinu það atvinnuöryggi og þau lífsþægindi, sem fólkið þráir og verður að eiga kost á. Leiðin til þess að skapa jafnvægi í þessum efnum er fyrst og fremst ein, sú að jafna metin um þessa aðstöðu fólksins til þess að lifa og starfa og njóta atvinnuöryggis og lífsþæginda. Þess vegna er það mjög þýðingarmikið, að hæstv. Alþ. geri sér þetta ljóst, áður en of langt um líður, áður en vonleysið grípur um sig í þeim landshlutum, sem við skarðan hlut búa og bíða eftir lífsþægindunum, meðan stöðugt er verið að bæta aðstöðuna á öðrum stöðum, þar sem þéttbýlið er mest og aðstaðan þegar bezt. Það hefur svo oft verið vakin athygli á þessu hér, að ég tel óþarft að gera það frekar, en vil leggja áherzlu á, að hæstv. ríkisstj. láti fara fram rannsókn þá, sem gert er ráð fyrir í þessari þáltill., sem við flytjum hér þingmenn Vestfjarða, og á grundvelli þeirrar rannsóknar verði síðan hafizt handa um að hraða framkvæmdum og það verði tryggt, að þessi landshluti fái fjármagn af því fé, sem þjóðinni nú gefst, til þess að koma í veg fyrir það, að framleiðslustörfin þar falli niður og það fólk, sem skapar nú verðmæti í þjóðarbúið og vinnur skapandi starf, gefist upp í þeirri baráttu og flytji þangað, sem byrðar kunna að skapast af því. Reynslan hefur sýnt, að byrðar hafa skapazt af flutningi fólks frá framleiðslunni til óarðbærra starfa, til umbúðastarfa í þjóðfélaginu, því að við vitum, að margt af því fólki, sem flytur frá sjávarþorpum og landbúnaðarhéruðum landsins til Reykjavíkur og stærri kaupstaða, flytur ekki til þess að halda áfram framleiðslustörfunum. Þess vegna tapar þjóðfélagið að sumu leyti starfskröftum þessa fólks í þágu framleiðslunnar, þegar þessi öfugþróun hefur átt sér stað.

Ég vil svo vænta þess, að þessari till, okkar Vestfjarðaþm. verði vel tekið, og vil ég óska þess við hæstv. forseta, að hann fresti umr. og till. verði vísað til hv. allshn.