22.11.1951
Neðri deild: 31. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

17. mál, varnarsamningur

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Því máli, sem hér liggur nú fyrir, var eins og kunnugt er vísað til sérstakrar nefndar, því að sérstök nefnd var kosin til þess að fjalla um þetta mál. Ég bjóst við því, þegar svo mikið var við haft að kjósa sérstaka nefnd í málið, — en það hefur ekki verið gert hér í hv. Nd. frá því undirbúningurinn undir lýðveldisstofnunina fór fram, — að slík nefnd væri kosin til þess að ræða mjög þýðingarmikið mál. En því miður fór það svo, að það var ekki boðað nema tvisvar sinnum til fundar í nefndinni. Í fyrra skiptið vantaði svo marga nefndarmenn, að ekki var fundarfært, og í síðara skiptið var nefndin ekki fullskipuð, og vantaði þá hv. 8. landsk. þm., sem framsögu hafði fyrir hönd n. Sá fundur stóð í einn klukkutíma, og það var ekki svo mikið haft við að lesa yfir hinar flóknu og margbrotnu greinar frv. og fara í gegnum það, ekki einu sinni þann hlutann, sem fjallar um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna á Íslandi. Hv. nefndarmenn kváðust þekkja þetta svo vel, að það þyrfti ekki að athuga neitt frekar í þessum málum. Þó minntumst við á eitt til tvö atriði í sambandi við þetta, og kom þá í ljós, að um þau atriði var ágreiningur og að nefndinni var ekki ljóst, hvort ákveðin íslenzk lög væru í gildi eða ekki. Mér þótti það mjög leitt um mál eins og þetta, að það skyldi ekki betur athugað.

Ég mun hafa þann hátt á að fara nokkrum orðum um einstök atriði í þessu fylgiskjali með frv. Ég ætla ekki að rekja ýtarlega það, sem ég fór í við 1. umr. þessa máls, sem sé aðalatriði þessa samnings, það, sem Bandaríkin höfðu heimtað af okkur 1945 og af ríkisstj. til þess að ná taki á okkar landi, og nú hefur gríman fallið af, án þess að komið sé fram með nokkuð af þeim lýðskrumsorðum, sem Hitler var frægastur fyrir að nota í baráttu sinni gegn komúnismanum. Þá kröfðust Bandaríkin herstöðva til 99 ára, og þá var því lýst yfir, að það gæti ekki samrýmzt að afhenda þessar herstöðvar og vera áfram sjálfstætt ríki. En ég ræði það ekki nú við 2. umr., ég ræddi það við 1. umr. En nú ætla ég að fara í einstök atriði þessa samnings frá því sjónarmiði, hvort hagsmuna Íslands hefur verið gætt við samningu þessa frv., án tillits til þess, hvort menn eru með eða móti efni þess.

Í þessum samningi er því lýst yfir, að þar sem Íslendingar geti ekki sjálfir varið land sitt, þá hafi Norður-Atlantshafsbandalagið farið þess á leit við Íslendinga, að þeir afhendi herstöðvar í landi sínu, þ.e.a.s., þetta eru þau rök, sem færð eru fram fyrir samningnum, að Íslendingar geti ekki sjálfir varið land sitt. — Það er rétt, að við Íslendingar getum ekki varið land okkar fyrir árásum. En þegar þetta er notað sem rök fyrir því, að við látum herstöðvar í té í landi okkar, þá er hægt að nota þessi rök hvenær sem er.

Önnur rök, sem komið hafa fram með frv., segja, að tvísýnið í alþjóðamálum sé svo mikið, að þess vegna sé sjálfsagt að gera þennan samning. En þetta tvisýni í alþjóðamálum hefur bara alltaf verið. Það hefur alltaf verið álíka tvísýnt í alþjóðamálum og það er í dag. Þrátt fyrir ýmsan ágreining í heiminum, þá verður maður að segja, miðað við reynslu 19. aldarinnar, að það sé ekki útlit fyrir, að það verði styrjöld, það sem eftir er af þessari öld, nema nota eigi Kóreustyrjöldina sem átyllu. En ef nota á Kóreustyrjöldina sem átyllu til þess að kalla erlendan her inn í landið, þá hefur sú ástæða verið álíka fyrir hendi allan þann tíma, sem af er þessari öld. En þetta hefur áður verið notað. Þegar Bretar fóru fram á það við Íslendinga, að þeir afhentu herstöðvar, þá var þetta notað. Þótt það væri heimsstyrjöld þegar Bretar hertóku landið í maímánuði 1940, var því mótmælt af þeim sömu flokkum sem nú styðja þennan hersamning. Mér þykir hafa orðið alger umskipti á röksemdafærslu þeirra í þessum málum. Þessir flokkar hafa gerbreytt um rökstuðning, og ríkisstjórn þessara flokka er bundin Bandaríkjum Norður-Ameríku og þarf fjárstyrk til þess að stjórna þessu landi. Ég vil vekja athygli á því, að með þessari sömu röksemdafærslu hefði hvenær sem er, það sem af er þessari öld, verið ástæða til að kalla erlendan her til landsins. Það, sem hér segir í inngangi þessa samnings, er því ekkert nema átylla til þess að láta undan kröfum Bandaríkjanna.

Þá er það tekið fram í 1. gr. þessa samnings, að Bandaríkin geri ráðstafanir til varnar Íslandi, og um það hefur mikið verið talað í áróðri fyrir þessum samningi, að Bandaríkin taki að sér að verja Ísland. En í samningnum sjálfum er ekkert einasta atriði, sem tryggir rétt Íslendinga sjálfra, svo framarlega sem Bandaríkin rjúfa þann tiltrúnað, sem meiri hluti Alþ. og ríkisstj. sýna Bandaríkjunum með þessum samningi.

Nú skal gengið út frá því, að svo og svo margir alþm. og jafnvel ráðherrar geri samning eins og þennan og samþykki lög eins og þessi í fullu trausti þess, að Bandaríkin meini það, sem þau segja, að nota Ísland fyrir varnarherstöðvar. Mundi nú ekki hæstv. ríkisstj. og hv. alþm., sem líta svo á, að tilætlunin sé að nota aðstöðu í okkar landi í varnarskyni, vilja setja inn í samninginn ákvæði um það, að svo framarlega sem Bandaríkin misnoti aðstöðu sína hér til árásar, þá væri samningur þessi þar með úr gildi fallinn? Ég veit ekki, hvort til eru hér þingmenn og ráðherrar, sem trúa því, að Bandaríkin fari ekki í árásarstríð. En ég efast um, að þeir menn séu til hér eftir þær umr., sem fram hafa farið í þessu máli, því þótt menn gangi út frá því að ætla Bandaríkjunum allt gott, þá býst ég samt við, að þeir gangi út frá því, að breytingar geti orðið á stjórn Bandaríkjanna til hins verra og að þau heyi þá árásarstríð eins og þau hafa gert öðru hverju í síðustu tvo mannsaldra. Það minnsta, sem hægt er því að gera, er að hafa sama hátt á þessu og forfeður okkar höfðu, þegar þeir gerðu Gamla sáttmála og settu inn þau ákvæði, að ef Noregskonungur ryfi trúnað við þá, þá væru þeir lausir allra mála við hann. Ég mun því undir þessari 2. umr. eða við 3. umr. leyfa mér að bera fram brtt. við þessi brbl., þótt ég leggi til, að málinu verði vísað frá, og freista slíkrar lagfæringar á frv., ef enn kynnu að vera þeir þingmenn innan stjórnarflokkanna, sem kynnu að vilja taka tillit til hagsmuna Íslands. Mín brtt. mundi verða þannig, að á eftir 1. gr. komi ný grein, sem hljóði þannig: „Nú hefja Bandaríki Norður-Ameríku árásarstríð, og skal þá þessi samningur samstundis úr gildi fallinn. Skulu Bandaríkin þá tafarlaust flytja allan her sinn burt af Íslandi.“ Ég býst við, að ég þurfi ekki að gera hv. alþm. ljóst, hvað þetta mundi þýða. Það mundi þýða það, að svo framarlega sem Bandaríkin misnotuðu aðstöðu sína hér til þess að heyja árásarstríð, þá mundu Íslendingar lýsa sig óbundna af þessum samningi. Þetta vildi ég taka fram í sambandi við 1. gr. þessa máls. Ég þykist sjá, að það eigi að kúska þennan samning gegnum þingið, og ég flyt mína brtt. í þeirri von, að mögulegt sé að koma vitinu fyrir nokkra af þeim hv. þingmönnum, sem ef til vill hafa gengið ófúsir til þess leiks, sem hér er leikinn, mundu kannske enn þá vilja tryggja rétt síns lands.

Þá vík ég að 2. gr., en hún er á þessa leið: „Ísland mun afla heimildar á landssvæðum og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að í té verði látin aðstaða sú, sem veitt er með samningi þessum, og ber Bandaríkjunum eigi skylda til að greiða Íslandi, íslenzkum þegnum eða öðrum mönnum gjald fyrir það.“ Með öðrum orðum á íslenzka ríkisstj. að kaupa og skaffa þau landssvæði, sem Bandaríkjastjórn eða fulltrúar hennar hér á Íslandi heimta að fá. Og vegna þessara hernaðarráðstafana á íslenzka ríkið að borga íslenzkum þegnum allan þann kostnað, sem af því hlýzt að tryggja þessi landssvæði. Þ.e.a.s., ef rífa þarf svo og svo marga sveitabæi á Íslandi til þess að búa út flugvelli fyrir her Bandaríkjanna og flytja í burtu hús til þess að stækka flugvelli eða ef flytja þyrfti burtu íbúa heilla fjarða vegna hernaðaraðgerða Bandaríkjanna, þá á íslenzka ríkisstj. að borga allar þær kröfur, sem íslenzkir þegnar hafa fram að færa vegna þessara ráðstafana. Með öðrum orðum, Ísland tekur að sér samkv. 2. gr. samningsins svo eða svo mikinn herkostnað vegna hernaðarráðstafana, sem Bandaríkin álita hér nauðsynlegar, eða allan þann kostnað, sem af því hlýzt að tryggja landssvæði undir hernaðarstöðvar á Íslandi. Í síðasta stríði, þegar samningar voru gerðir við Bandaríkin, þá áskildi íslenzka ríkisstj., að hún fengi greiðslur frá Bandaríkjunum fyrir allan þann kostnað, sem þannig hlytist, og bætur fyrir heimild á landssvæðum. Þá var það Bandaríkjastjórn, sem tók að sér að greiða þetta. Hvergi hefur verið haldið á hagsmunum Íslands hvað þessa 2. gr. samningsins snertir. Öllum er það ljóst, að Íslendingar hafa engin efni á því að bera svona herkostnað og íslenzka ríkisstj. hefur enga heimild til þess að taka svona kvaðir á íslenzka ríkið. Þeir hv. þingmenn, sem telja rétt að gera þennan samning, ættu þó að sjá, að ef þeir samþykkja þennan samning eins og hann er, þá samþykkja þeir um leið, að íslenzka ríkið greiði allar þær kröfur og skaðabótakröfur, sem af þessu mundi leiða. Hve mikið þetta kemur til með að kosta, veit enginn, hvorki ríkisstj. né alþingismenn. Ef Íslendingar ætlast til þess, að meta eigi landssvæði, sem tekin yrðu undir flugvelli, segjum tíu, tuttugu eða þrjátíu flugvelli, og ef meta ætti þessi landssvæði eitthvað svipað og gert var undir flugvöllinn á Egilsstöðum, þá fara menn að renna grun í, hvað íslenzka ríkið yrði að borga. Íslenzka ríkisstj. hefur gert kröfu til þess, eins og hv. 8, landsk. lýsti yfir, að hér yrðu fyrir sem allra sterkastar varnir. En það er ekki neitt smáræði, sem þessar aðgerðir gætu komið til með að kosta og íslenzka ríkið þyrfti að borga. Þetta vildi ég gera hv. þingmönnum stjórnarflokkanna ljóst.

Þá er það enn fremur tekið fram í þessu~n samningi og enn þá ljósar í viðbætinum við hann, þ.e. í 12. gr. viðbótarsamningsins, að íslenzka ríkisstj. muni ekki gera skaðabóta kröfur á hendur Bandaríkjunum fyrir tjón á íslenzkum eignum, og þar afsalar Ísland sér öllum kröfum til skaðabóta frá Bandaríkjunum fyrir allt það tjón, sem verða kann af hernaðaraðgerðum Bandaríkjanna á Íslandi. Ég vakti athygli hv. meðnefndarmanna minna á þessu. 1941 var það greinilega tekið fram, að Ísland ætti að fá greitt allt það tjón, sem hlytist af hernaðaraðgerðum hér á landi. Þá tryggðu Íslendingar sig gegn því að verða sjálfir að bera skaðann af hernaðarráðstöfunum hér á landi. Þetta var eðlileg og sjálfsögð krafa Íslendinga þá. En nú er hernaðaraðstaðan látin í té Bandaríkjum Norður-Ameríku á Íslandi, og það stafar ekki af því, að Bandaríkin hafi neina sérstaka ást á þeirri þjóð, sem byggir þetta land, heldur elnvörðungu af því, að Bandaríki NorðurAmeríku álíta sér það heppilegt vegna árásar, sem þau hafa í huga, og það er eingöngu vegna hagsmuna Bandaríkjanna sjálfra, að þau fara fram á herstöðvar hér. Það er því eðlilegt, að þau beri allan þann skaða, sem af þessum aðgerðum hlýzt, og bæti allt það tjón, sem Íslendingar verða fyrir vegna þess, að Bandaríkin hafa hér herstöðvar. Ég benti hv. meðnefndarmönnum mínum á þetta og að það eru ákveðin lög til, sem mæla fyrir um rétt íslenzkra borgara til að gera kröfur á hendur sinni ríkisstj. út af þeim skaða, sem verða kann af ófriði eða hernaðaraðgerðum Bandaríkjanna sjálfra. Þessi lög voru samþ. á Alþ. 1943 og heita: „Lög um ábyrgð ríkissjóðs á tjóni, sem hlýzt af veru herliðs Bandaríkja Norður-Ameríku hér á landi.“ 1. gr. þessara laga hljóðar svo: „Ríkissjóði skal skylt að bæta íslenzkum ríkisborgurum tjón, er þeir hafa beðið eða kunna að bíða vegna aðgerða hernaðaryfirvalda Bandaríkja Norður-Ameríku hér á landi eða af völdum manna úr herliði þeirra.“ Þessi lög eru 7 greinar, og í þeim eru greinileg ákvæði um skaðabótaskyldu út af hernaðaraðgerðum á Íslandi. Þessi lög taka það fram, að þau gildi um allar kröfur, sem verða til eftir 7. júní 1941. Þessi lög hafa ekki fallið úr gildi af sjálfu sér, vegna þess að þau eru sjálfstæð lög út af fyrir sig. Ég spurði hv. meðnefndarmenn mína, hvort þeim væri ljóst, að þessi lög væru enn í gildi. En þeir vildu meina, að þau væru úr gildi fallin. Ef þeirra skoðun væri rétt, þá þýddi það það, að hver íslenzkur ríkisborgari verður að bera sjálfur það tjón og þann skaða, sem hann verður fyrir vegna hernaðaraðgerða Bandaríkjanna hér á landi, og hann á enga skaðabótakröfu fyrir tjón sitt. En ef lögin frá 1943 eru enn í gildi, þá þýðir það, að Íslendingar hafa kröfu til íslenzka ríkisins, til ríkissjóðs, um skaðabætur vegna tjóns, sem þeir yrðu fyrir, þ.e.a.s. kröfu til sins ríkisvalds að bæta þetta tjón. Þó er í lögunum sett ákveðið hámark um skaðabótagreiðslur. Þetta þýðir það, að ef Íslendingar verða fyrir tjóni og gera skaðabótakröfu á hendur íslenzka ríkinu, þá hefur íslenzka ríkið afsalað sér öllum gagnkröfum á hendur Bandaríkjunum. En það þýðir aftur, að íslenzka ríkið mundi aldrei bæta allt það tjón úr eigin vasa, ef það gerir engar gagnkröfur á hendur Bandaríkjunum. Með öðrum orðum, því, sem þótti sjálfsagt 1941, er nú afsalað með þessum samningi, sem hér liggur fyrir. Því, sem þessum hv. stjórnarflokkum þótti sjálfsögð krafa 1943, þykir þessum sömu flokkum nú sjálfsagt að afsala. Þegar búið er að taka á móti 500 millj. kr. frá Bandaríkjunum, þá þykir sjálfsagt að afsala öllum rétti íslenzkra borgara til skaðabóta á hendur Bandaríkjunum, ef til ófriðar dregur. Ég vildi vekja greinilega athygli hv. þingmanna á þessu, að þeir geri sér ljóst, hvað hér er verið að gera. En ég vil meina, að lögin frá 1943 séu enn í fullu gildi og það sé hægt að gera kröfu á hendur ríkisstj. fyrir öllu því tjóni, sem ríkisstj. leiddi hér yfir Ísland og stafaði af samningsgerð þessari.

Þá ætla ég að koma nokkrum orðum að 7. gr. samningsins, en hún er eitt það lymskulegasta, sem í þessum samningi felst. Í 7. gr. er mælt fyrir um það, hvernig Íslendingar geti sagt þessum samningi upp, og það lítur einkar sakleysislega út á yfirborðinu. Við eigum að geta sagt honum upp með sex mánaða fyrirvara. En gerum ráð fyrir, að kosningar verði á Íslandi og breytingar verði á flokkum þeim, sem nú vilja samþykkja þennan samning, þá mundi það ástand geta skapazt hér, að rétt yrði talið að segja samningnum upp, og það getur skapazt það ástand við næstu kosningar, að við Íslendingar álitum rétt að segja þessum samningi upp. Og þegar hv. alþingismenn sjá, hvað samið er af sér með þessum samningi, verður honum sagt upp. Þá koma til framkvæmda tvær síðustu málsgreinar 7. gr., þó að búið sé að segja samningnum upp og hann sé genginn úr gildi. Þær hljóða svo, með leyfi hæstvirts forseta: „Hvenær sem atburðir þeir verða, sem:,. og 6. gr. Norður-Atlantshafssamningsins tekur til, skal aðstaða sú, sem veitt er með samningi þessum, látin í té á sama hátt.“ Enn fremur segir þar: „Meðan aðstaðan er eigi notuð til hernaðarþarfa, mun Ísland annaðhvort sjálft sjá um nauðsynlegt viðhald á mannvirkjum og útbúnaði eða heimila Bandaríkjunum að annast það.“ 5.–6. gr. Norður-Atlantshafssamningsins fjalla um það, að svo framarlega sem ráðizt er á eitt ríki, sem er aðill að samningnum, eru hin skyldug að gera þær ráðstafanir til varnar, sem þau telja nauðsynlegar. Þetta var eina hálmstráið, sem þeir skildu eftir til að bjarga Íslandi frá stríði. Norður-Atlantshafssamningurinn tekur því ekki gildi hvað Ísland snertir, ef eitthvert land, sem stendur að samningnum, hefur árásarstríð að dómi Íslands. Það er stjórn hvers ríkis, sem leggur dóm á það, hvort um árás sé að ræða eða ekki. Ef stjórn Íslands lítur svo á, þegar styrjöld hefst, að ekki sé ráðizt á neitt ríki innan Atlantshafsbandalagsins, er Ísland laust allra mála. Norður-Atlantshafssamningurinn bindur Ísland því ekki, ef ríkisstj. álítur, að viðkomandi aðili að sáttmálanum hafi gerzt sekur um árás. Þetta er sá eini veiki réttur, sem Íslandi er gefinn í 20 ár. Það er lífsspursmál fyrir okkur að halda í hann, því að í honum felst eini lagalegi réttur okkar til að standa utan við stríð og honum megum við ekki glata. Hvað segir svo í þessari málsgr., ef þeir atburðir gerast, sem 5. og 6. gr.

Norður-Atlantshafssamningsins taka til? Segjum, að þeir atburðir gerist á þann hátt, að sú ríkisstj., sem situr að völdum hér, líti svo á, að ekki sé um að ræða árás á ríki innan Atlantshafsbandalagsins, en Bandaríkin líti öðruvísi á það. Ég veit, að það þarf ekki nema uppþot í einu þeirra ríkja, þar sem Bandaríkin hafa herstöðvar, svo að stjórn þeirra líti á það sem árás á sitt ríki. Ef stjórn Bandaríkjanna lítur á þetta sem árás á ríki í bandalaginu, en stjórn Íslands telur, að svo sé ekki, er risinn upp ágreiningur milli þessara ríkja. Ríkisstj. Íslands getur sagt, að sér beri ekki að láta það í té, sem 5. og 6. gr. Atlantshafssáttmálans kveða á um, þar sem þær séu ekki í gildi, en ríkisstj. Bandaríkjanna segir, að okkur beri að láta þetta í té samkvæmt samningnum. Þó að Ísland standi fast á sínum rétti, þá standa Bandaríkin fast á sínum meinta rétti. En nú vil ég spyrja: Hefur það ekki komið áður fyrir Alþingi og eins fyrir suma hæstv. ráðh., að þeir hafi skilið þá samninga, sem gerðir hafa verið við Bandaríkin, öðruvísi en þau Jú, eins og ég rakti greinilega við 1. umr. þessa máls, var herverndarsamningurinn frá 1941 skilinn þannig af Bandaríkjunum, að þau væru ekki skyldug að hverfa á brott með herinn að stríðinu loknu. Hvernig stendur á því, að við skiljum þetta á annan veg en Bandaríkin? Bandaríkin sátu með her hér í trássi við okkar skilning á samningnum, og jafnvel Bjarni Benediktsson núverandi utanrrh. og Ólafur Thors þáverandi forsrh. lýstu því yfir, að þeir hefðu engin ráð til að láta Bandaríkin beygja sig undir skilning Íslands. Þarna er reynslan af því, að Bandaríkin skilja samninga öðruvísi en við. Sú reynsla kostaði Keflavíkursamninginn til niðurfellingar herverndarsáttmálans frá 1941, og rökin með honum voru þau, að með honum værum við að fá herinn burt úr landinu. En hvað gerist nú? Með þessum tveimur málsgr. er verið að gefa Bandaríkjunum sömu átyllu — og raunverulega skárri en áður — til hersetu hér. Þessari átyllu munu þau beita, og hvaða vald hefur íslenzka stjórnin svo til að fyrirbyggja, að Bandaríkin framfylgi sínum skilningi á samningnum eins og herverndarsamningnum frá 1941? M.ö.o. er verið að gefa Bandaríkjunum átyllu til að hernema Ísland með þessum síðustu málsgr. Með skírskotun til 7. gr. þessa samnings vil ég spyrja hæstv. ríkisstj., hvort hún geri sér þetta ljóst og hvort hún geri þetta vísvitandi með það fyrir augum, að Bandaríkin fengju þarna átyllu til að hernema Ísland. Er hún ekki minnug þess, hvernig Bandaríkin nota sína átyllu og hvað það hefur kostað okkur? Í þessum samningi eru skuldbindingar, samkv. þessum málsgr., sem eru átylla fyrir Bandaríkin og þau munu nota sér, hvaða skilning sem ríkisstj. hefur á þeim. Það er óþarfi að skapa þannig átyllu í samningum, þegar eitt smæsta ríki veraldar semur við eitt stærsta ríkið, að það geti gert kröfur til okkar, sem við álítum, að það geti ekki gert, vegna þess að það skilur samninginn öðruvísi en við. Ég vil benda á, þó að ég treysti núverandi stjórn Bandaríkjanna til að gera sig ekki oftar seka um að skilja samninga öðruvísi en við, þá getur hún farið frá og önnur stjórn tekið við, sem vafalaust notar sér þetta. Það nær ekki nokkurri átt, að smáríki, sem gerir samninga við stórveldi, gangi þannig frá þeim, að vafi leiki á því, hver sé réttur hvors aðila um sig. Síðustu málsgr. 7. gr. eru skuldbindingar viðvíkjandi mannvirkjunum, og þar eru okkur settir tveir kostír. Þó að samningurinn falli úr gildi, skuldbindum við okkur til að viðhalda þessum mannvirkjum, og það þýðir engan smákostnað að hafa þessi mannvirki til taks. Við mundum vafalaust hlíta forsögn Bandaríkjanna, hvernig ætti að viðhalda þessum mannvirkjum. Herkostnaðurinn yrði svo mikill, að menn mundu ekki treysta sér til að horfast í augu við hann, og mundi síðara atriðið því frekar koma til greina. Að heimila Bandaríkjunum að sjá um viðhald á mannvirkjunum þýddi það að heimila þeim að hafa áfram lið á Íslandi. Þó að samningurinn yrði afnuminn, mundi borgaralega klætt varalið Bandaríkjanna taka við viðhaldi mannvirkjanna, og þýddi það að hafa mikið af Bandaríkjamönnum hér á landi í óákveðinn tíma. M.ö.o., með þessum tveimur síðustu málsgr. er lætt inn tveimur ákvæðum, sem ganga út yfir gildistíma samningsins. Með þessu er stjórnin búin að binda sig gagnvart Bandaríkjunum. Svo segir hæstv. atvmrh., að það vanti ekki, að þegar setzt sé að samningaborðinu, þá séu þar menn, sem séu færir um að sjá aðstöðu Íslands borgið. Þegar samið er, er skaðinn svo allur saminn á Ísland. Svo er því bætt ofan á allt, að verið er að smeygja inn alls konar laumulegum ákvæðum. Þeir hv. þm., sem með mér voru í n., þóttust hafa skoðað samninginn gaumgæfilega. Þetta þýðir líka, að meiri hlutinn gerist sekur um að binda Ísland með ákveðnum réttindum, sem Bandaríkin álíta sig hafa hér á Íslandi. Ég vil vekja eftirtekt hv. þm. á þessu. Ég veitti því athygli, að frsm. n. hafði ekki fyrir því að minnast á eina grein samningsins, og er það í fullu samræmi við störf n. að lesa gr. ekki yfir. Þetta er langur og ýtarlegur samningur, 12 gr., 6 þéttprentaðar siður, og svo flókinn, að það þýðir ekki á svona fundi að ræða nema fá atriði hans. Með þessu afsalar Ísland sér æðsta rétti til lög- og dómsögu á Íslandi. Nú eru l. í gildi á Íslandi, sem gilda um alla þá, sem á Íslandi dvelja. En með 2. gr. (10. lið) er ákveðið, að aðrir dómstólar starfi hér en stjskr. segir til um. Það er ákveðið, að hér starfi herdómstóll, sem hafi yfir mönnum að segja, sem dvelja hér á Íslandi, svo sem Bandaríkjamönnum, hermönnum og skylduliði þeirra. Þetta þýðir, að Íslendingar afsala sér æðstu lögsögu og dómsögu yfir þeim mönnum, sem dvelja hér á landi. Ég vil taka það fram, að ég álit, að slík 1. séu breyt. á stjskr. og í beinni mótsögn við hana. Með þessu eru Íslendingar að afsala sér því valdi, sem íslenzkir dómstólar eiga að hafa yfir bandarískum mönnum á Íslandi, og gera þá undanþegna íslenzkum l. hvað snertir ákveðnar aðgerðir þeirra, þar sem þeir hlýða aðeins bandarískum l., þó að þeim að vísu sé hegnt fyrir ýmis brot á íslenzkum l. Á þessu vildi ég vekja athygli. Svo er reynt að dylja þetta brot á algeru dómsvaldi Íslands með því að reyna að tryggja á ýmsan hátt, að herdómstólar Bandaríkjanna hafi ekki lögsögu yfir öðrum en Bandaríkjamönnum.

Ég vil vekja athygli á, að það verður ein endalaus flækja, þegar á að framkvæma þessa 2. gr. eins og hún er, og ég vil enn fremur vekja athygli á því, að íslenzk yfirvöld eru gerð að undirlægju Bandaríkjavaldsins hér á Íslandi, enda er það eftirtektarvert, hver munur er gerður á réttarstöðu íslenzkra ríkisborgara og amerískra ríkisborgara hér á landi. Í 6. tölul. e-lið segir: „Nú er sökunautur, sem íslenzk stjórnvöld hafa lögsögu yfir, í gæzlu hjá stjórnvöldum Bandaríkjanna, og skal hann þá vera þar áfram, unz íslenzk stjórnvöld hefja saksókn gegn honum.“ M.ö.o., bandarísk 1ögregla getur tekið Íslendinga fasta og haft þá í haldi hjá sér þangað til íslenzk stjórnvöld hefja saksókn gegn þeim. Við getum hugsað okkur, hvaða öryggi er í þessu með núverandi réttarfari. Upphaf 9. tölul. hljóðar svo:

„Þegar maður í liði Bandaríkjanna eða maður úr skylduliði hans er sóttur til sakar og íslenzk stjórnvöld fara með lögsögu, á hann rétt á því:

a. að rannsókn og saksókn sé hraðað;

b. að fá vitneskju fyrir upphaf saksóknar um sakargiftir á hendur honum;

c. að hann og vitni, sem bera gegn honum, séu samspurð;

d. að vitnum, sem kunna að geta borið honum í hag og eru innan íslenzkrar lögsögu, sé gert skylt að bera vætti.“

Þá er einnig tekið frekar fram í 7. undirlið sömu gr., hvaða frekari rétt þessi maður hafi. Það er auðsætt, að það er haldið vel á málunum af hálfu Bandaríkjanna, en ekki hugsað mikið um þá Íslendinga, sem lenda í klónum á Bandaríkjamönnum. En um þá menn, sem bandarísk lögregla tekur fasta, segir í 7. undirlið, b-lið: „Nú fara Bandaríkin með lögsögu í máli, og skulu þá íslenzk stjórnvöld gera nauðsynlegar ráðstafanir til, að tryggð sé návist og fengnar skýrslur íslenzkra þegna og manna á Íslandi utan samningssvæðanna, annarra en manna úr liði Bandaríkjanna og skylduliði þeirra.“ M.ö.o., íslenzk stjórnvöld eiga að taka þá Íslendinga fasta, sem Bandaríkin gera kröfu til og vilja yfirheyra, og flytja til þeirra, svo að þau geti yfirheyrt þá. Íslenzk yfirvöld eru gerð að sporhundum fyrir bandaríska dómstóla. Er það nokkurt réttlæti, að íslenzk lögregla elti þá Íslendinga, sem Bandaríkin gera kröfu til, til að þóknast ósvífnum offiserum úr bandaríska hernum? Þetta hefði einhvern tíma þótt hart af dönskum yfirvöldum.

Ég vil minnast lítið eitt á þessi svonefndu samningssvæði. Í 10. undirlið 2. gr. segir m.a.: „Utan samningssvæðanna mega menn úr liði Bandaríkjanna hafa með höndum lögreglustörf, eftir því sem um semst við íslenzk stjórnvöld, í samvinnu við þau og einungis að svo miklu leyti, sem það er nauðsynlegt til að halda uppi aga og reglu meðal manna úr liði Bandaríkjanna og manna úr skylduliði þeirra.“ En hver eru svo þessi samningssvæði? Ég spurðist fyrir um þetta í n., en enginn nm. gat gefið mér upplýsingar um, hvernig þessum samningssvæðum væri háttað. Ríkisstj. hefur aldrei skýrt frá því, hver þessi samningssvæði séu, og í öllum samningnum finnst ekki ein gr., sem greini frá þeim. Hvernig er þessi samningur eiginlega gerður? Íslendingur getur verið kominn inn á samningssvæði að honum óvörum. M.ö.o., íslenzka ríkisstj. semur þannig, að hún ofurselur þegna sína bandarísku lögregluvaldi, án þess að þeir viti, hvort þeir séu á íslenzku eða bandarísku yfirráðasvæði. Það eru engin ákvæði sett í samninginn, sem gera Íslendingum mögulegt að þekkja þessi svæði, en það er hvað eftir annað tekið fram, hvað megi gera utan samningssvæðanna og hvað innan þeirra, en þetta er allt mjög óljóst. En nú vil ég spyrja: Er Kolviðarhóll utan samningssvæðanna eða innan þeirra, eða er íslenzk lögregla að seilast þar inn á bandarískt svæði? Það er ekki nóg með það, að þannig sé búið um þessi samningssvæði, heldur er alveg gengið frá því litla öryggi, sem við áttum. Í 10. undirlið 2. gr. segir, að „utan samningssvæðanna megi menn úr liði Bandaríkjanna hafa með höndum lögreglustörf“. M.ö.o., utan samningssvæðanna hafa Bandaríkin líka lögregluvald. Hvernig líta amerískir lögreglumenn á þetta, þar sem íslenzkar stúlkur og amerískir hermenn eru saman komin? Þetta er hið fyrirlitlegasta ákvæði, sem til er í íslenzkum l., og ríkisstj. gerir sér leik að því að svipta íslenzkar unglingsstúlkur þeirri lögvernd, sem þær áttu að hafa. Þetta er allt á sömu bókina lært. Það er verið að gera bandaríska starfsmenn og hermenn og skyldulið þeirra hér að sérréttindastétt á Íslandi. Það er verið að skapa hér tvíbýli í landinu, þar sem blandað er saman amerískri lögsögu og íslenzkri lögsögu og amerískum dómstólum og íslenzkum dómstólum. Ef þetta á að standa í 20 ár, eins og það verður ef meiri hl. samþ. þetta, þá er hætt við, að þetta verði í praksís líkt og Keflavíkursamningurinn. Það verður hætt að innheimta skatta og tolla, og verður þá farið að smygla og svíkja undan tolli. Ég get hugsað mér, hvernig þetta verður, ef framkvæma á þennan samning eins og Keflavíkursamninginn, og átti þó að heita, að hann væri undir íslenzkum yfirráðum.

Svo mætti halda áfram með allar 12. gr. samningsins. Ég skal ekki fara nánar út í þær hlægilegu ráðstafanir, sem gerðar eru og fjalla um smygl. Allir þegnar Bandaríkjanna eiga að vera skattfrjálsir. Mér er sem ég sjái, hvernig þetta verður framkvæmt. — 12. gr. fjallar um skaðabótagreiðslur og afsal á þeim. Á þessa gr. hef ég minnzt áður, og skal ég ekki ræða frekar um hana. Fyrir utan hinn stórhættulega tilgang með þessum samningi og að hann stofnar Íslendingum og íslenzku þjóðinni í hættu, er hann skammarlega gerður af hálfu þeirra manna, sem um hann hafa fjallað.

Svo framarlega sem einhverjir þeirra hv. þm., sem eru fylgjandi því að gera þennan samning, vilja sýna einhvern lit á því að gæta hagsmuna Íslands og tryggja aðstöðu þess, eiga þeir að fella samninginn. Þeir geta gert samning við Bandaríkin, en þeir ættu ekki að gera hann þannig að binda hendur kjósenda á Íslandi í náinni framtið, en þeir ættu að gera hann þannig, að hagsmunir Íslands séu tryggðir og réttur Íslands til lögsögu í sínu eigin landi.

Ég vil svo aðeins benda á, að ef friður helzt eins og nú er í heiminum, þá býst ég við, að þeir þm., sem nú væru með þessum samningi, hlytu að vera sömu skoðunar um næstu áratugi, þannig að hafi verið rétt að gera samninginn nú, þá sé það líka rétt um næstu áratugi. M.ö.o., haldist núverandi friðarástand í heiminum, þá er stofnað með þessu okkar þjóðerni og okkar þjóðfrelsi í yfirvofandi hættu. Í öðru lagi er yfirráðum okkar Íslendinga yfir þessu landi stofnað í sívaxandi hættu. Ef byrjað er með því að afsala okkur dómsvaldinu yfir mönnum, sem á Íslandi dvelja, þá er auðséð, hvar slíkt mun enda. Þetta eru þær hættur, sem vofa yfir manni fyrir það fyrsta eins og nú er. Ef til styrjaldar kæmi, hvað þýðir þetta þá? Bandaríkin munu tvímælalaust skoða það sem sitt verkefni að gera Ísland eitt af sterkustu vígjum, sem þau ráða yfir, og við skulum ekki vera svo óraunsæir að gera okkur ekki ljóst, að hinar svokölluðu hervarnir í slíku landi, það eru varnir, sem fyrst og fremst eru gerðar með það fyrir augum að geta barizt sem allra harðvítugast og geta út frá þeim sótt og varizt. Við skulum gera okkur ljóst, að ef til styrjaldar kæmi milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna og ef þannig færi, eins og sérfræðingar virðast ætla, að þess mundi skammt að bíða, að Evrópa væri þá annars vegar á valdi alþýðuherjanna og Bandaríkin hins vegar, þá væri vafalaust óhugsandi að sækja þau heim, þannig að að öllum líkindum yrðu herir þessara tveggja stórvelda sitt hvorum megin við Atlantshafið og Bandaríkin með sín hervirki hér á Íslandi. Við skulum gera okkur ljóst, að því sterkari og voldugri hervirki, flugvelli og annað sem Bandaríkin hafa, því harðvítugar yrði um landið barizt. Það væri ekki verið að berjast um það vegna íslenzku þjóðarinnar, heldur vegna þess, að þegar slík styrjöld er byrjuð, þá hefur það hernaðarlega þýðingu í því stríði, og þá erum við eða þeir, sem þennan samning samþykkja, búnir að leiða yfir Ísland þá hættu og þær ógnir, sem slíkri styrjöld ern samfara. Það er þá búið með þessum samningi að leiða það yfir Ísland, án þess að íslenzka þjóðin eigi kröfu á nokkrum bótum, vegna þess að það er þá sjálft skoðað sem hernaðaraðili, jafnvel þó að Bandaríkin byrjuðu árás. Ísland yrði skoðað sem bandamaður Bandaríkjanna, sem gefur þeim aðstöðu til þess árásarstríðs, sem það væri í. Það er gefið, að ef heimsstyrjöld er háð, þá er það allt of ægilegt fyrir Ísland. Ég vonast til þess, að enginn gangi með þær tálvonir, að Ísland gæti sloppið í slíkri heimsstyrjöld, eins og við höfum sloppið í tveimur síðustu heimsstyrjöldum. Það eina, sem okkur bæri að hugsa um, ef slík styrjöld skylli á, er að reyna að sjá um, að eitthvað af okkar þjóð yrði lifandi eftir slíka styrjöld. Það er ekki okkar að reyna að hafa áhrif á það, hvor sigruðu af þeim öflum, sem við eigast. Við skulum ekki taka á okkur þá ábyrgð. Við skulum reyna að sjá um — og það er nægilegt hlutverk fyrir hvaða íslenzka ríkisstj. sem er, — að bað verði eitthvað eftir lifandi af okkar þjóð eftir slíka styrjöld. Ef við förum að leggja í kostnað, þá skulum við leggja það fram í ráðstafanir til þess, að þann helming þjóðarinnar, sem nú býr við Faxaflóa og harðast mundi verða úti, væri hægt að flytja langt í burtu, þó að allt færi í eyðileggingu, sem við höfum verið að skapa síðustu áratugina, aðeins að okkar þjóð lifi. Hins vegar tek ég eftir því, og sást það hvað greinilegast í þeirri framsögu, sem hv. 8. landsk. hafði hér fyrir hönd meiri hl., að þessi mál hafa ekki verið rædd frá því sjónarmiði, hvorki af ríkisstj. né stjórnarflokkunum, hvort nokkur Íslendingur yrði lifandi eftir slíka styrjöld, heldur frá hinu sjónarmiðinu, að gefa ákveðnum aðila hernaðaraðstöðu á Íslandi án tillits til þess, sem af því kynni að leiða fyrir Ísland. M.ö.o., ákvörðun um að gera þennan samning hefur verið tekin frá alþjóðlegu, pólitísku sjónarmiði, frá því sjónarmiði að standa með Bandaríkjunum og þeirra fylgiríkjum í þeirri styrjöld, sem þau eru að undirbúa, lána þeim Ísland sem herstöð í slíkri styrjöld án tillits til afleiðinganna fyrir Íslendinga. Ég álít algerlega fráleitt og ábyrgðarlaust að leyfa sér slík sjónarmið og láta þau vera ráðandi um gerðir Alþingis Íslendinga í þessum efnum. Þar fyrir er ég ekki að neita þessum hv. þm. um þeirra rétt til að hafa samúð þeim megin, sem þeir vilja, í þeim átökum, sem að fara í heiminum. En ég vil biðja menn að aðgreina þetta tvennt. Menn geta haft samúð með einum eða öðrum þeirra aðila, sem nú berjast harðast, menn geta óskað, ef svo ægilega færi, að til styrjaldar kæmi, þessum eða hinum aðilanum sigurs. Menn geta staðið með sósíalistísku ríkjunum eða kapítalistísku ríkjunum, en sem fulltrúum fyrir íslenzku þjóðina, kjörnum af henni til að stjórna hennar málum, þá ber mönnum án tillits til þessara mismunandi skoðana að taka sína ákvörðun út frá því raunsæja, kalda hagsmunasjónarmiði fyrir íslenzku þjóðina, að hún bjargi sér, ef til styrjaldar kemur. Mér þykir leitt, að meiri hl. n. skuli hafa haft alla sína framsögu einvörðungu frá því sjónarmiði að skipta Íslandi í fylkingar, en ekki út frá því sjónarmiði að tryggja þess öryggi.

Ég hef ekki lagt það í vana minn, þegar umr. hafa verið hafnar hér um alþjóðamál, að leggja mikið til málanna í þeim málum sjálfur. Ég hef samt vissa tilhneigingu til, eftir að hafa haft framsögu fyrir hönd minni hl. í þessu máli og mælt sjálfur út frá beinu hagsmunasjónarmiði Íslands, að ræða líka nokkuð hið alþjóðlega sjónarmið vegna þess tilefnis, sem hv. frsm. meiri hl. gaf, það sjónarmið, sem hann kom fram með. Að einu leyti þykir mér leitt að þurfa að ræða slíkt. Það er að því leyti, að ég álít heppilegt, að sérstaklega við 2. umr. væri hægt að einbeita umr. að því, ef þess væri kostur, að lagfæra þá galla, sem á þessum samningi eru, líka frá sjónarmiði þeirra, sem með honum eru. Ég sé hins vegar ekki, eftir þá framsöguræðu, sem hér hefur verið haldin af hálfu 8. landsk., að það verði komizt hjá því að ræða nokkuð um alþjóðamál og það viðhorf, sem hann setti fram, vegna þess að það viðhorf var svo gersamlega í andstöðu við allar staðreyndir um ástandið í veröldinni og lýsti slíku þekkingarleysi í þróun sögunnar og alþjóðlegum aðstæðum nú, að óhjákvæmilegt er að leiðrétta það að nokkru leyti.

Hv. 8. landsk. sagði, að það væri uggur og kviði í brjóstum smáþjóðanna. Sagan síðustu 5 aldirnar hefur verið sagan af því, hvernig þjóðir Vestur-Evrópu hafa verið að hrjóta undir sig smáþjóðirnar og hinar veikari stórþjóðir í öllum álfum heims. Saga síðustu 5 alda er sagan af árásarstríði Englands, Frakklands, Portúgals, Spánar, Hollands og seinast Bandaríkja Norður-Ameríku, sem hafa farið með báli og brandi um ríki, sem áður voru sjálfstæð, um smáþjóðir, sem áður réðu sér sjálfar, og stórþjóðir, vegna þess að þær voru skemmra á veg komnar í hernaðartækni heldur en morðvargarnir frá vesturströnd Evrópu og urðu því að lúta í lægra haldi. Saga síðustu 5 alda segir frá því, hvernig enska og ameríska auðvaldið hefur lagt undir sig mikinn hluta Asíu, svo að segja alla Afríku, mestalla Suður-Ameríku og um tíma Norður-Ameríku. Ég býst við, að það þurfi ekki nema að rifja upp þessar staðreyndir úr sögu síðustu 5 alda og árásir hins hvíta kynstofns á þessa heimshluta, til þess að menn geri sér ljóst, hvað þarna hefur verið að gerast með smáþjóðirnar og stóru þjóðirnar líka, jafnvel hinar stærstu þjóðir eins og Indland og Kína hafa borið ugg og kvíða í brjósti fyrir árásum ræningjanna frá Vestur-Evrópu. Það voru afturhaldssamar stjórnir í þessum löndum, eins og í Kína 1840, en þó var það stjórn, sem reyndi að banna innflutning ópíums til sins lands. Af hverju fór England í árásarstríð við Kína 1840? Af því að England heimtaði, að Kína opnaði sitt land fyrir ópíum, svo að enskir kaupmenn gætu grætt á því að selja ópíum til Kína. Þetta er staðreynd, sem enginn hv. þm. rengir, en sú staðreynd er táknræn fyrir allar ránsferðir þessara evrópsku stórvelda, líka þeirra, sem nú eru meira og minna komin úr tölu stórvelda, eins og Þýzkaland og Holland, og Rússlands, meðan auðvaldsstjórnin var þar, o.fl. Þessar ránsherferðir setja sitt mark á alla söguna. Við Íslendingar höfðum andstyggð á þessum herferðum auðhringa og auðmannastétta Vestur-Evrópu allan þann tíma, sem þær fóru fram. Við vorum sjálfir ein af þeim nýlenduþjóðum. sem varð fyrir barðinu á þessum þjóðum Evrópu. Við vorum kúgaðir af Dönum og vissum, hvað það var að vera nýlenduþjóð. Þess vegna höfðum við fram á þessa öld og höfum enn samúð með þeim þjóðum, sem urðu fyrir þessum árásum. Ég þarf ekki nema að minna ykkur á það, sem Guðmundur á Sandi orti í aldarlokin til vinar sins. Hann spyr hann, hvort hann ætli að kasta í enskinn börnum sínum:

„Níðinginn, sem Búa bítur,

Búddha-lýð til heljar sveltir,

hundingjann, sem hausi veltir,

hvar sem bráð á jörðu lítur.“

Íslendingar hafa óttazt og fyrirlitið þetta brezka heimsveldi, jafnt fyrir ránsferðir þess á hendur öðrum eins og fyrir rán þess gagnvart okkur Íslendingum, eyðileggingu á landhelginni, 10% toll á vörum og allt það ógagn, sem það ránsríki hefur gert okkur. Ég veit, að hv. þm. þekkja lýsingarnar á aðförum þessara Vestur-Evrópuþjóða, þegar þær voru að leggja þessi lönd undir sig. Þeir muna eftir, þegar verið var af hálfu Portúgala að brenna Indiánana, eftir að búið var að brjóta niður þeirra þjóðfélag, brenna þá lifandi guði til dýrðar til að bjarga sálum þeirra, eins og komizt var að orði, þegar kaþólska kirkjan lét fara fram sínar bálfarir gagnvart þeim heiðnu þá. Þannig hefur það gengið frá því á 16. öld, að Vestur-Evrópuþjóðirnar byrjuðu sínar ránsherferðir á jörðinni, og þangað til í dag, og í dag eru menn brenndir á sama hátt og þá var gert. Það var í Tímanum fyrir nokkru talað um nýtt vopn lýðræðisins. Það er benzínsprengja, sem hefur þann kost, að þegar henni er kastað niður, þá brennir hún menn lifandi, sem verða fyrir henni. Það er fljótvirkara en bálköstur kaþólsku kirkjunnar í Ameríku og annars staðar á 16. öld. Það er vafalaust lýðræðinu til dýrðar, enda hefur Tíminn talið það vopn lýðræðisins, líklega til sáluhjálpar fyrir þá, sem verða brenndir. Þannig er búið með lúalegri árás Bandaríkja Norður-Ameríku á Norður-Kóreu að myrða um 5 milljónir manna í því landi með þessu vopni lýðræðisins og öðrum slíkum. Þar er búið að drepa fleira fólk en drepið var af nokkurri þjóð Evrópu, að Sovétþjóðinni einni undanskilinni, í síðustu heimsstyrjöld. Og þeir, sem kunna í dag að hafa andstyggð á kaþólsku ræningjunum á 16. öld, þegar verið var að brenna menn guði til dýrðar, skrifa í dag í sín blöð um, að benzínvopnið sé vopn lýðræðisins. Bandaríki Norður-Ameríku komust seint í tölu þeirra stórvelda, sem gátu tekið þátt í þessum ránsherferðum. Þau sættu líka sjálf því hlutverki að vera nýlenda og urðu sjálf að' rísa upp gegn Bretum í lok 18. aldar til að brjóta af sér það ok, og það skapaðist í Bandaríkjunum demókrati, virkilegt lýðræði bænda og borgara, sem hélzt þangað til í lok 19. aldar, að auðhringar Bandaríkjanna eyðileggja það gamla bændademókrati og framkvæma þá stórkostlegustu stjórnmálaspillingu, sem þekkist í veröldinni, og ræna auðlindum Bandaríkjanna. Það eru 4 auðhringasamsteypur í Bandaríkjunum, Rockefeller, Du Pont, Morgan og Mellon, sem eiga í dag 60% af öllum eignum Bandaríkjanna, og um leið er búið að berja niður bændademókratíið í Ameríku. Það kom fram, sem Lincoln óttaðist, hvernig lýðræðið mundi standast, sem hann byrjaði að mynda. Um leið og auðhringar Bandaríkjanna brjóta niður þetta vald, bændalýðræðið, þá eru hafnar árásarherferðir utan Bandaríkjanna og þau leggja undir sig hvert landið á fætur öðru. Ég ætla ekki að fara að rekja hér söguna af því, hvernig lítil eyríki eins og Haiti, Kúba, Filippseyjar og Hawaieyjar hafa orðið Bandaríkjunum að bráð, með því að þau hafa ráðizt á þessar eyjar og tekið þær herskildi eða með því að fyrst hafa auðmenn keypt upp auðlindirnar og síðan hefur verið kallað á Bandaríkjaher til hjálpar til að gæta hagsmuna þessara amerísku auðhringa. Þetta eru staðreyndir, sem ekki einu sinni Bandaríkin neita. Menn þurfa ekki annað en kynna sér skýrslu utanríkismálanefndar Bandaríkjanna í Foreign Relations, tímariti Bandaríkjaþings, til þess að geta rakið söguna af yfirgangi Bandaríkjanna gagnvart þessum smáþjóðum. Þannig er því komið, þegar 20. öldin hefst, að ríkin á vesturströnd Evrópu og Bandaríkin eru orðin þau ríki, sem skipta heiminum á milli sín og undiroka svo að segja allan hnöttinn og sölsa undir sig auðlindir landanna; þau ná t.d. tökum á stóriðju Kína og skipta svo að segja upp í nýlendur allri Afríku. Hvað hefur svo verið að gerast á 20. öldinni? Það, sem hefur verið að gerast, er það, að verkalýður þessara auðvaldsríkja hér í Evrópu og kúgaðar nýlenduþjóðir í Asíu og Afríku hafa verið að rísa upp á móti þessu ránsvaldi hinna voldugu auðhringa í Evrópu og Ameríku. Þetta hófst með rússnesku byltingunni. Það var þá í fyrsta skipti sem verkamenn undirokaðrar nýlenduþjóðar voru sigursælir í slíkum átökum, og öllum hv. þm. er kunnugt um, hvað gerðist þá strax á eftir. Hinni voldugu keisarastjórn var steypt, og verkamenn og bændur tóku völdin í því landi. 14 auðvaldsríki í heiminum réðust á Sovétríkin til þess að reyna að brjóta þau niður. Í 3 ár stóð ægileg árásarstyrjöld á þessi ríki, og með ægilegum fórnum tókst verkamönnum Sovétríkjanna að hrinda þessari árás og fá frið til þess að byggja upp sitt ríki. Hvað olli því, að þessi árásarstyrjöld var háð? Það, sem olli því, var, að það var verið að hrifsa undan auðhringunum auðlindir, sem þeir ætluðu að græða á. Hér var um að ræða m.a. allmiklar auðlindir í Bakú, sem voru eign þess manns, sem mest sá um að birgja þá aðila að fjármunum, sem lögðu út í árásarstyrjöld. Auðhringarnir í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum gátu ekki séð af þeim auðlindum, sem þeir höfðu klófest, þeir gátu ekki horft á, að alþýðan tæki að nota sér þessar auðlindir fyrir sig. Allar þessar árásir misheppnuðust, en auðmannastéttirnar voru ekki þar með af baki dottnar. Og nú vil ég mínna á eitt, hvort sem hv. þm. er það ljóst eða ekki, að þær tvær heimsstyrjaldir, sem háðar hafa verið á þessari öld, hafa frá sjónarmiði okkar Íslendinga verið styrjaldir, sem fyrst og fremst voru skelfingar og hörmungar fyrir mannkynið. En þessar styrjaldir eru ekki fyrst og fremst hörmungar; þessar tvær styrjaldir eru nokkurs konar gróðafyrirtæki fyrir þá auðhringa, sem borið hafa sigur úr býtum. Auðvald Englands var sterkasta auðvald heimsins 1914, en eftir það voru Bandaríkin sterkasta auðvald heimsins, af því að auðvald Bandaríkjanna græddi á því að lána ensku þjóðinni fé og selja hergögn; af því jókst stóriðja Bandaríkjanna, og af því hrúgaðist saman 1914–18 milljóna gróði hjá Standard olíuhringnum. Og þegar Bandaríkin fóru í styrjöldina 1917 eftir beinni fyrirskipun frá Morgan, þá var það gert sama mánuðinn og fyrsti víxill Englands féll, sem England treysti sér ekki til að borga.

Þegar auðvald Bandaríkjanna sá, að hætta var með lánsféð, þá og ekki fyrr notaði ameríska stjórnin sér átyllu til að fara inn í þá styrjöld. Siðasta styrjöld samsvaraði enn þá sterkara gróðafyrirtæki. Þá fengu amerískir auðhringar ekki minna en 50 milljarða dollara í gróða. Ég hef heldur ekki heyrt neinn þm. neita því, að á sama tíma sem siðasta heimsstyrjöld stóð, hafi Standard Oil lagt til hliðar til þýzkra auðhringa flesta af þeim hlutum, sem sá auðhringur átti í banka í Ameríku. Það er vitanlegt, að þegar styrjaldir hafa verið háðar milli þessara landa, hefur verið samstarf milli auðhringanna í þessum löndum. Og þess vegna vilja auðmenn í Bandaríkjunum, að auðvaldið í Þýzkalandi sé endurreist, vegna þess að stóreignir í Þýzkalandi eru sameign þýzka og ameríska auðvaldsins. Hlutabréf, sem auðmenn í Bandaríkjunum eiga í l. G. F., eru svo mörg, að þeir geta ekki horft upp á það, að þýzka auðvaldið sé strikað út. Stríð eru stórkostleg gróðafyrirtæki fyrir auðhringana í heiminum. Það sýnir það, að þegar ekki er stríð fer allt í vitleysu hjá þeim. Það eru þessir auðhringar, sem hafa skapað heimskreppu, svo að 12 millj. bænda hafa flosnað upp af jörðum sínum og tala atvinnulausra manna komst upp í 20 millj. — [Frh.]