15.11.1951
Sameinað þing: 15. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í D-deild Alþingistíðinda. (3204)

51. mál, mótvirðissjóður

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Hv. þm. Barð. talaði hér nokkur orð viðkomandi þessari till. okkar hv. þm. Borgf. Ég verð að segja, að ég varð hálfundrandi á meginatriðunum í ræðu hans. Hv. þm. Barð. lét sem hann væri að svara minni ræðu, en hann talaði um allt annað en ég gerði hér, þegar ég fylgdi þessari till. úr hlaði. Tileinkaði hann mér þær hugmyndir og hugsanir viðvíkjandi þessu máli, sem ég hef aldrei látið í ljós. Hvað sem mínu hugarfari kynni að líða í þessu efni, þá er það áreiðanlega ekki á færi hv. þm. Barð., með allri virðingu fyrir honum, að lesa þær hugsanir, sem í hug mínum kynnu að búa, ef ég hef ekki látið þær í ljós. — Mér þótti þetta leiðinlegt, en ég vil virða það á betri veg fyrir honum, þannig að honum hafi aðeins misheyrzt. Þykir mér honum þá hafa misheyrzt hrapallega. Það, sem hann sagði, að ég hefði haldið fram viðkomandi öðrum atvinnuvegum en landbúnaði, er náttúrlega fjarri öllum sanni. Að því litla leyti, sem ég vék að þeim málum, þóttist ég tala hlutlægt og algerlega áreitnislaust. Þvert á móti, og ekki sízt hvað sjávarútveg snertir, þá tók ég það skýrt fram, að það bæri að meta og vega, hvers virði sá atvinnuvegur hefði verið þjóðinni. Að skipakosti okkar vék ég ekki einu einasta orði. Því síður hefur mér dottið í hug, hvað þá heldur látið orð falla um það, að það ætti að selja skipastólinn úr landi. Þó að við hv. þm. Barð. kunnum að hafa eitthvað mismunandi skoðanir á ýmsum málum, ættum við ekki að vera að blanda því inn í jafnmikilsvert mál og þetta, og því síður að blanda því hér inn í, hvaða hugarfari og hugsunum við kunnum yfir að búa. En skoðanir okkar eru ekki ólíkar um þetta mál, því að hv. þm. Barð. játaði, að hann vildi láta styðja landbúnaðinn, svo að hér ættu þykkjur okkar að fara saman.

Ég ætlaði að tala mjög stutt og vil því ekki fara mörgum orðum um þetta. Ég met hv. þm. Barð. mikils, og þykir mér þess vegna leiðinlegt, að nokkuð af þessu tagi skyldi koma fram hjá honum. Mér þykir það enn þá leiðinlegra, að þetta skyldi henda mann, sem ég sé að býr yfir orku og dugnaði, og þá einkum þegar það snertir viðfangsefni, sem hann þarf að sinna.

Hv. þm. fannst það sýna skort á ábyrgðartilfinningu, að við skyldum bera fram þessa þáltill., þar sem við værum stjórnarstuðningsmenn. Ég hygg, að hv. þm. sjái, ef hann les till., að það er ekki ætlazt til þess, að stjórnin geri annað en að athuga og undirbúa málið, eftir því sem því verður við komið, og áætli landbúnaðinum þennan hluta af fé sjóðsins. Hv. þm. Barð. kann að líta öðrum augum á þetta atriði, og kom það raunar fram í ræðu hans, og er honum auðvitað frjálst að hafa sínar skoðanir á þessu. Það er einmitt hæstv. ríkisstj., sem hefur valdið í þessum efnum. Þessi till. okkar ætti því ekki að bera vott um neitt ábyrgðarleysi hjá okkur gagnvart hæstv. ríkisstjórn.

Í þeim ummælum mínum, sem hv. þm. Barð. fannst eitthvað vera sneitt að sjávarútveginum, vék ég að því, að það liti út fyrir, að nokkur þurrð væri að verða á fiskimiðum landsins. Væri óvarlegt af þjóðinni að treysta um of á þau í framtíðinni, því að óvíst væri, að þau yrðu nægilegt bjargræði fyrir þjóðina. Þess vegna teldi ég hyggilegra að skipta fólkinu meira niður á atvinnuvegina en láta alla hafa sitt lífsframfæri af sjávarútveginum. — Ég vék að því síðar í ræðu minni, að nú þegar væri ekki hægt að segja neitt um það, hve mikill bjargvættur iðnaðurinn ætti eftir að verða þjóðinni, þannig að hann yrði til útflutnings og gjaldeyrisöflunar. Taldi ég, að það kynni að vera óvarlegt að treysta því um of, að þjóðin gæti byggt afkomu sína á sjávarútvegi og iðnaði. Þetta mátti lesa út úr ræðu minni. Taldi ég enn fremur, að þess vegna væri heppilegast og æskilegast að tryggja landbúnaðinn sem bezt og fólkið ynni að honum. Væri það þjóðinni hollast í bráð og lengd. Mér var það fullljóst, að það eru ekki fyrst og fremst íslenzku fiskiskipin, sem hafa eyðilagt fiskimiðin við strendur Íslands, heldur miklu fremur hinn mikli fjöldi erlendra fiskiskipa, sem hér stundar veiðar. En þetta minntist ég að vísu ekki á. Og ekki datt mér í hug að leggja stein í götu sjávarútvegsins viðkomandi þeim tækjum, sem hann hefur nú fengið. Hygg ég, að ég sé ekki einn um þessa skoðun á fiskimiðunum og öryggi manna um atvinnu við sjávarútveg þá um leið. — Vil ég í þessu sambandi vitna til ummæla hæstv. atvmrh., sem hann viðhafði hér fyrir nokkru, þá er rætt var um lántökur handa Búnaðarbankanum, sem gengju í þarfir landbúnaðarins. Þá sagði hæstv. atvmrh., að brýna nauðsyn bæri til þess að auka landbúnaðinn og auka alla starfsemi í sambandi við hann, þar sem tekið væri að hrikta í öðrum stoðum íslenzks atvinnulífs. Þessi ummæli eru birt í Morgunblaðinu 19. okt. þessa árs. Og ég sá í Alþýðublaðinu í gær ályktun útvegsmanna um þessi mál. Ég ætla, að það sé á fiskimiðunum í grennd við Faxaflóa, sem þeir telja, að aflinn hafi nú þrjú ár í röð minnkað um 20% frá ári til árs. Held ég, að það sé rétt skilið hjá mér, að það beri ekki að skilja svo, að aflinn hafi minnkað um 60% alls, heldur séu það 20%, þegar miðað er við aflann frá ári til árs. Þá ætti aflinn nú, eftir þessi 3 ár, að vera um 51% af því, sem áður var. Einmitt þetta er alvarlegt mál og verulegt áhyggjuefni. Þó kann að vera, og það verðum við að vona, að þetta sé aðeins stundarfyrirbrigði og lagist eitthvað aftur. En allur er varinn góður, og tel ég því heppilegast, að við sinnum höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar, sem hefur verið landbúnaður. Ef aðrar atvinnugreinar bregðast og okkur ber upp á sker, er landbúnaðurinn þess megnugur að taka við fólkinu og sjá því farborða. Enn fremur finnst mér vera ástæða til þess, að þetta sé gert, þar sem það hefur komið í ljós á nokkrum útgerðarstöðum í landinu, að afkoma fólksins þar er ákaflega erfið. Stafar þetta af því, hve fiskveiðar eru lítilfjörlegar á þeim fiskimiðum, sem fólkið á þessum stöðum hefur áður byggt afkomu sína á og hafa verið bjargræði fyrir það og oft tryggt því góða afkomu.

Það, sem hv. þm. Barð. lét í ljós viðvíkjandi sjávarútveginum og annað þess konar, ætla ég alls ekki að gera að umræðuefni. Sé ég ekki neina ástæðu til þess, að við förum að deila um þetta.

Hv. þm. Barð. vék einnig að iðnaðinum. Kunni ég ekki við það, en mér skildist af orðum hv. þm., að hann vildi gefa til kynna, að ég hefði sýnt iðnaðinum óvild. Vildi hann meira að segja telja, að Framsfl. hefði sýnt iðnaðinum fullan fjandskap. Ég ætla, að hv. þm. Barð. hafi sagt þarna meira en hann meinti. Ég álít, að við höfum annað þarfara að vinna en að fara út í uppgjör um slíka hluti, en ég efast um, að hægt sé að gera upp á milli flokkanna hlutdrægnislaust í þessu efni. Ég er ekki viss um, að málefnum iðnaðarins, og meira að segja málefnum, sem iðnaðurinn í landinu byggist á, hafi verið meira sinnt af hálfu annarra flokka en af hálfu Framsfl. Ég minnist þess, að þegar við áttum við ákaflega mikla gjaldeyriserfiðleika að stríða og höfðum litlu úr að spila, þá voru þessi mál í höndum Framsfl.-ráðherra. Ég ætla að það hafi verið fundið að því við hann, hve mikið hann lagði fram af hinum litlu fjármunum ríkisins til kaupa á vélum til iðnaðarins. Hygg ég, að þetta hafi hann gert hyggilega, þar sem hann greiddi með þessu fyrir þeirri atvinnugrein. — Þess vegna kann ég ekki við það, að vanþakkað sé það, sem vel er gert.

Hvað snertir þessi málefni nú, þá held ég, að við hv. þm. Barð. stöndum nú hlið við hlið. Nú er verið að lyfta þeim Grettistökum, sem menn hafa sjálfsagt ekki látið sig dreyma um nú til skamms tíma og ég hygg að muni styðja verulega að iðnaðinum í landinu, en það eru rafmagnsveiturnar við Sogið og Laxá, áburðarverksmiðjan og sementsverksmiðjan, sem er í uppsiglingu. Þetta held ég, að flokkarnir standi saman um og muni ágreiningslaust reyna að koma giftusamlega í höfn. Þetta eru framkvæmdir, sem eru einstakar í okkar sögu, og vil ég því ekki, að við séum með ónot hver í annars garð út af þessum málum. Ég vildi heldur, að við gætum í fullri vinsemd rætt um það, sem við erum sammála um.