15.11.1951
Sameinað þing: 15. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í D-deild Alþingistíðinda. (3206)

51. mál, mótvirðissjóður

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mig langar til þess að fá upplýsingar viðkomandi þessari þáltill. og raunverulegu gildi hennar. Þessi þáltill. er um að skora á hæstv. ríkisstj., að hún geri vissar ráðstafanir varðandi ráðstöfun á mótvirðissjóði, þegar Marshallaðstoðinni er lokið. — Það er tvennt, sem ég vildi spyrja um og hvað hv. flm. hugsi sér í sambandi við það. Í fyrsta lagi: Hvaða bindandi gildi mundi þessi þáltill. hafa, ef hún væri samþ. hér á Alþ.? Samkv. l. nr. 47 frá 25. maí 1949 segir í 3. gr., með leyfi forseta:

„Jafnvirði framlags án endurgjalds í íslenzkum gjaldeyri, að frádregnum 5%, má ekki ráðstafa nema með samþykki Alþingis.“

Nú hefur það verið vani hingað til, að ráðstafanir úr mótvirðissjóði hafa eingöngu verið gerðar samkvæmt lögum, þ. e., að til þess að ráðstafa einhverju úr mótvirðissjóði hefur þurft lagalegt samþykki Alþ., samþykki Alþingis með lögum. Þannig var á síðasta þingi ráðstafað fé úr mótvirðissjóði viðkomandi framlagi til Sogs- og Laxárvirkjananna og áburðarverksmiðjunnar og viðkomandi því, sem átti að nota til að borga skuld ríkissjóðs við Landsbankann. — Ég þykist muna það rétt, að þetta var allt gert með lögum. — Nú liggur hér fyrir þáltill. um að skora á hæstv. ríkisstj. að ráðstafa fé úr þessum sjóði. Það væri hægt að skilja þessa till. á þann veg, að hér væri verið að skora á hæstv. ríkisstj. að gera þann vissa undirbúning, sem vafalaust er gerður af hálfu ríkisstj. í hvert sinn, sem einhverju fé er ráðstafað úr mótvirðissjóði, — sem sé að hún reyni að semja við viðkomandi stofnanir erlendis um, að slíkt fáist í gegn og það verði samþykkt hjá efnahagsstofnuninni, þannig að ekki verði nein vandræði, eftir að Alþ. hefur samþ. l. um, að þetta verði notað eins og lög mæla fyrir. Það mætti vel skilja þáltill. á þá leið, að hæstv. ríkisstj. ætli einmitt að gera slíkan undirbúning og athuganir. Fyrir mitt leyti vil ég aðeins ganga úr skugga um, að hv. flm. skoði ekki þessa ályktun sem neina fyrir fram samþykkt Alþ., heldur gangi þeir út frá því, að það þurfi lagasamþykkt á eftir. Slík lagasamþykkt yrði þá eitthvað meira en orðin tám. Það gæti kannske dregizt fram yfir næstu kosningar að gera slíkar ráðstafanir og næsta Alþ. væri ekki bundið af yfirlýsingum í ályktunarformi frá fyrra þingi. Það þarf að setja lög, til þess að hægt sé að ráðstafa þessu.

Ef þetta er nú rétt skilið hjá mér, að þessi þáltill. sé aðeins ósk og hafi ekkert bindandi gildi samkv. l. frá 25. maí 1949, þá er auðvitað rétt, a. m. k. fyrir hv. flm. og þá, sem þessu eru samþykkir, að athuga annað atriði í þessu sambandi. Í till. segir, að æskilegt sé, að Alþ. láti þegar í ljós vilja sinn varðandi þetta mál, svo að ekki verði gerðar aðrar ráðstafanir, sem kæmu í bága við það, sem í till. felst. M. ö. o., allar þær ráðstafanir, sem gerðar yrðu með samþykkt laga frá Alþ. um ráðstöfun á fé úr mótvirðissjóði, gilda jafnóðum og slík lög eru samþ. Þannig hefðu slík lög auðvitað gildi, áður en þessi þáltill. fengi lagagildi, þrátt fyrir þessa þál. Sem sé yrði e. t. v. búið að ráðstafa öllum mótvirðissjóði með lögum frá Alþ. þrátt fyrir þessa þál. og þó að till. þessi yrði samþykkt.

Ég hef ekki hlustað á allar umr., og má vel vera, að þetta hafi komið fram í þeim, hver skilningur hv. flm. er á þessu atriði. En ef svo er ekki, finnst mér rétt, að þetta komi þegar greinilega fram, áður en málið fer til hv. fjvn. Það þarf að vera alveg skýrt, að hér sé ekki verið að breyta allt í einu um form á því, sem lagafyrirmæli eru um, né reiknað með því sem alveg fastri ráðstöfun, þó að þessi þáltill. yrði samþ. Ég held það sé óhjákvæmilegt, að upplýstur sé algerlega skilningur á þessu atriði, því að það er gefið, ef flm. hafa hugsað þetta þannig, að með þessari samþykkt sé settur fastur helmingurinn af mótvirðissjóði, að gera má ráð fyrir, að þeir vildu þá heldur fara þá leið, að sett yrðu lög viðvíkjandi því. Með þessu móti tek ég ekki neina afstöðu gagnvart þessari till., en geng út frá því, að við umr. um ráðstöfun á fé mótvirðissjóðs komi fram allmargar uppástungur, sem rétt sé að athuga mjög rækilega, áður en ákvörðun er tekin.

Ég vildi þá út af því, sem hv. 1. þm. Árn. (JörB) sagði, vara við einu, sem ég held sé misskilningur hjá honum, þar sem hann talaði um, að lánsfjárþörf landbúnaðarins væri svo sérstaklega mikil vegna þess, að ef t. d. íslenzkir bankar fengjust ekki til þess að lána sjávarútveginum, væri heppilegt að veita leyfi til að taka lán erlendis til þess á þann hátt að skapa vinnu hér innanlands. — Ég vil aðeins benda á, að þrátt fyrir þá erfiðleika, sem útlendir togarar valda landi okkar með rányrkju sinni, er engin ástæða til að láta koma upp víl um það, að sjávarútvegurinn geti ekki staðið undir þeim mannfjölda, sem vinnur við hann nú. Hitt er svo annað mál, hvernig eigi að mæta fjölguninni í landinu á næstu árum hvað þetta snertir. Ég hef áður látið í ljós, að í sambandi við ráðstöfun mótvirðissjóðs, þegar þar að kæmi, mætti taka til athugunar, hvort við gætum ekki ráðizt í meiri stóriðju í krafti fossa okkar, beinlínis miðað við útflutning, en við höfum gert, þar eð hið gífurlega afl, sem við eigum í fossum okkar, er stærsta auðlindin, sem ónotuð er. Ég held þess vegna, að þegar að því kemur að ráðstafa fé mótvirðissjóðs, beri að hafa það mjög í huga, hvort ekki eigi að ráðast í miklu stærri virkjanir en gert hefur verið fram að þessu. Þess ber að gæta, að Sogsvirkjunin núna er minna fyrirtæki en Sogsvirkjunin var 1936, miðað við okkar getu. Það er engin ástæða til að básúna sem einhver ósköp, að lagt hefur verið út í þessa Sogsvirkjun núna, áður unnu við hana um 200 verkamenn, en núna eru þeir líklega á annað hundrað, því að við höfum núna svo miklu stærri tæki til þess að vinna með, svo að það yrði fjárhagslegur ávinningur að því, beinlínis hvað vinnuaflið snertir, að hafa fyrirtækin miklu stærri. Ef við því viljum skapa því fólki, sem bætist við í landinu á næstu áratugum, jafnmikla og jafngóða möguleika og þessu fólki, sem nú lifir á landbúnaði og sjávarútvegi, eigum við að stíla upp á stóriðju, eins og t. d. í sambandi við Þjórsá, og það er mál, sem ég álít, að við eigum að ræða mjög ýtarlega í sambandi við endanlega ráðstöfun mótvirðissjóðs. Ég álít, að slík stóriðja gæti verið meiri gjaldeyrisöflun en sjávarútvegurinn er nú eða hefur verið á sínum beztu árum, og samt án þess að draga nokkurt afl frá landbúnaðinum og sjávarútveginum.

Ég ætla hins vegar ekki að fara neitt frekar út í þetta nú, en fannst aðeins rétt, úr því að hv. 2. flm. þessa máls kom inn á þetta, að láta þessar aths. í ljós, áður en málið fer til fjvn. En viðvíkjandi því, sem ég minntist á í upphafi máls míns, hvað flm. álita um gildi þessarar samþykktar, þætti mér ákaflega vænt um að fá að heyra skoðun þeirra á því, því að raunverulega er ekki hægt að taka afstöðu til málsins, fyrr en það hefur komið fram.