15.11.1951
Sameinað þing: 15. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í D-deild Alþingistíðinda. (3207)

51. mál, mótvirðissjóður

Flm. (Pétur Ottesen):

Það eru aðeins nokkur orð út af ræðu hv. 2. þm. Reykv., um það, hvaða skilning við flm. legðum í þessa till. eins og hún er flutt hér á Alþ. og við leggjum til að fá hana afgreidda. — Við leggjum þann skilning í þessa till., að hún sé viljayfirlýsing Alþ. um þetta efni og það sterk viljayfirlýsing Alþ. í þessu efni, — að þegar farið verður að ákveða með l., eins og sjálfsagt verður gert. ráðstöfun mótvirðissjóðs, þá verði ekki með þeirri ráðstöfun gengið í berhögg við þessa viljayfirlýsingu. Þetta er sá skilningur, sem við leggjum í till.

Ég gerði grein fyrir því í gær, hvaða þýðingu við álitum, að þetta hefði í sambandi við þau straumhvörf, sem orðið hafa með þjóð okkar, þ. e., að unga fólkið, sem áður stefndi úr sveitinni til sjávarins, hefur nú breytt um stefnu og stefnir nú frá sjónum upp til sveitanna. Þess vegna gæti yfirlýsing í þessa átt haft verulega þýðingu í því skyni að ýta undir þennan straum, sem við teljum að sé heppilegur og æskilegur og hafi þjóðhagslega þýðingu fyrir okkur.

Ég vil svo aftur láta það koma hér fram, að ég er mjög á andstæðri skoðun við það, sem fram kom hjá hv. 2. þm. Reykv., að það væri ekki starfsgrundvöllur fyrir öllu fleira fólk í sveitum þessa lands en nú er. Þetta er reginmisskilningur, sem ástæða er til að vekja athygli á, úr því að hann kemur hér fram. Landið er að mjög miklu leyti ónumið, — ég gerði nokkra grein fyrir því í gær, ég veit ekki, hvort hv. þm. hefur hlustað á það, — landið er ekki nema að örlitlu leyti numið, og við það að nema það land, sem enn er ónumið, skapast starfsgrundvöllur, ekki aðeins fyrir alla þá íbúa, sem byggja þetta land, heldur fyrir miklu fleira fólk. Vil ég í þessu sambandi benda á það, að einmitt hin nýja tækni í ræktun og búskap stefnir að því að byggja búpeningsframleiðsluna miklu meira en nú er á ræktuðu landi. Í stað þess, að nú er ræktunin aðeins notuð til vetrarfóðurs fyrir búpeninginn, þá verður það svo í framtíðinni, að búpeningnum verður einnig að sumarlagi beitt á rækta land. Við eigum mikil og góð heiðalönd, sem að sjálfsögðu ber að nota til hlítar til sumar beitar, en þar, sem þau skilyrði eru ekki fyrir hendi, kemur beit á ræktuðu landi í stað þess að láta gripina og féð ganga á lélegu beitilandi og í örtröð eins og víða á sér nú stað. Framtíðin ber það áreiðanlega í skauti sínu, að mikill hluti búpeningsins verður mikinn part af árinu í kring fóðraður á ræktuðu landi, við höfum það mikið landrými, og með þessum hætti og þessu fyrirkomulagi er hægt að skapa grundvöll undir starf og góða afkomu fyrir mikinn fjölda manna í sveitum þessa lands.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál, en vil alveg sérstaklega þakka hæstv. forseta fyrir það, að hann hefur tekið þetta mál út úr mörgum till., sem bíða afgreiðslu, og tekið það fyrir á þessum fundi til þess að greiða götu þess. Og fyrir mér stendur það þannig, að það spái góðu um afgreiðslu þessarar till., og við flm. efumst ekki um, að með samþykkt hennar sé stefnt að stórum auknu öryggi í afkomuháttum landsmanna.