14.11.1951
Sameinað þing: 14. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í D-deild Alþingistíðinda. (3209)

51. mál, mótvirðissjóður

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Það eru ummæli í fyrri ræðu hv. 2. þm. Reykv., sem ég vildi leiðrétta. — Hann lét orð falla í þá átt, að nýja Sogsvirkjunin væri ekki meira, eða jafnvel minna mannvirki en Ljósafossvirkjunin 1936–37, miðað við okkar getu. Þetta er misskilningur, og byggist hann á því, að það eru færri verkamenn nú en unnu við Ljósafossvirkjunina. Þá voru fyrir stríðið á þriðja hundrað verkamenn, en nú eru þeir á annað hundrað, og liggur það í því, að nú eru notuð stórvirkari tæki og vélar við framkvæmdirnar en áður, og því hefur tala verkamannanna minnkað mjög mikið. En ef gengið er út frá öðru sjónarmiði og maður ber saman stærð og orku virkjananna, gömlu Ljósafossvirkjunarinnar og nýju Sogsvirkjunarinnar. þá er munurinn auðsær. Gamla Ljósafossvirkjunin var byggð fyrir 14150 kw., en nýja Sogsvirkjunin er byggð fyrir 31000 kw., eða meira en tvöföld. — Kostnaðurinn við virkjunina 1936–37 var 7 millj. kr. á þeim árum, en nú verður hann 160–170 millj. kr. Þó að 7 millj. kr. frá árunum 1936–37 verði breytt samkvæmt núverandi gildi peninga, þá er það augljóst, að þessi nýja virkjun er miklu meira mannvirki. Vildi ég láta þetta koma fram núna, því að menn mega ekki dæma stærð mannvirkis eftir tölu þeirra verkamanna, sem við það vinna. En það, sem gerir það að verkum, að erfitt er að bera þetta saman, er aukin tækni og breytt verðgildi peninga. Við þessa virkjun verður að nota miklu stærri tæki og vélar, vegna þess að sprengja verður stór jarðgöng. Hér er sem sagt miðað bæði við kostnaðarverð og orku, og er þá um miklu stærra mannvirki að ræða en Ljósafoss var fyrir stríð.

Um þessa till. skal ég ekki dæma að svo stöddu, en það eru sjálfsagt fleiri atvinnuvegir en landbúnaðurinn, sem vilja verða aðnjótandi framlags. T. d. var nú nýlega gerð ályktun af hálfu iðnrekenda, þar sem þeir setja fram þá kröfu, að 1/3 af framlagi mótvirðissjóðs verði varið til lána handa iðnaðinum. Skal ég ekki leggja neinn dóm á það, að hve miklu leyti hægt er að verða við kröfum þeirra.

Þegar rætt er um aðstoð mótvirðissjóðs til ýmissa framkvæmda, þá er alltaf gengið út frá því, hvernig skipta eigi upp sjóðnum eins og hann verður, þegar Marshallaðstoð lýkur. En það verður að athuga það, að með því er hlutverki sjóðsins ekki lokið, því að sjóðurinn lánar aðeins, en veitir ekki óafturkræfa styrki, þar sem meginhluti lánanna kemur aftur í sjóðinn. Nú eru ákveðin þau lánskjör, sem Laxár- og Sogsvirkjanirnar verða aðnjótandi. Þau verða til 20 ára með 5½% vöxtum. Nú hefur komið fram gagnrýni frá stjórnum virkjananna. Telja þær, að lánstíminn sé of skammur og hann hefði átt að vera bundinn við 40 ár. En hvað sem þessum ágreiningi milli ríkisstj. og þessara tveggja aðila líður, þá er það meginatriðið, að þessar framkvæmdir fá fé úr sjóðnum að láni. Ef miðað er við, að lánað verði úr sjóðnum 200 millj. kr. til 20 ára með 5½% vöxtum, kemur þegar á fyrsta ári 21 millj. kr. Það er því ljóst, að eftir að ráðstafað hefur verið lánum úr sjóðnum eftir að Marshallhjálp lýkur, þá skapast nýir möguleikar til lánveitinga eftir það, vegna þess að gert er ráð fyrir því, að innborganir verði örar. Menn mega ekki eingöngu blína á það, hvernig skipta eigi upp stofnfé sjóðsins, heldur og hvernig eigi að nota það fé, sem kemur inn í hann aftur við endurgreiðslu lánanna.