14.11.1951
Sameinað þing: 14. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í D-deild Alþingistíðinda. (3215)

51. mál, mótvirðissjóður

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Mér heyrðist á hv. þm., sem talaði hér síðast og öðrum, sem talað hafa hér, að þessi þáltill. þýði eiginlega ekki neitt, svona eins og samþykktir á sumum pólitískum fundum, þar sem samþ. er eitt og annað, án þess að það sé eiginlega meint. Ég segi fyrir mig, að ef þessi þáltill. verður samþ., mun ég líta á það sem ákveðna viljayfirlýsingu Alþ. og gera þá kröfu sem landbrh., að leitazt verði við að ná samningum í þá átt, sem Alþ. hefur lýst yfir, að sé vilji þess. Ég álít, að viljayfirlýsing Alþ. hafi enga þýðingu nema eftir henni sé farið. Annað get ég ekki fallizt á.

Um leið og þetta verður samþ. hér, mundi ég krefjast þess, að leitað yrði samkomulags við Marshallstofnunina og síðan verði samin lög í samræmi við þetta og þau lögð fyrir Alþ. Öðruvísi get ég ekki skilið þetta, og skal ég svo ekki fara um það fleiri orðum.