16.01.1952
Sameinað þing: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í D-deild Alþingistíðinda. (3223)

51. mál, mótvirðissjóður

Frsm,. meiri hl. (Pétur Ottesen):

Það hefur orðið nokkur dráttur á afgreiðslu þessarar till. hjá fjvn. En athugun málsins bæði í n, og hjá hæstv. ríkisstj. hefur leitt til þess, að mjög hefur verið greidd gata þess, að þetta merkilega mál fengi afgreiðslu á Alþ.

Fjvn. þótti rétt, þar sem hér var um stórmál að ræða, að senda það hæstv. ríkisstj. til umsagnar, og sendi hún það til hæstv. forsrh. með ósk um, að stj. athugaði það og gerði sínar till. Með bréfi, dags. 12. jan., fékk n. álit hæstv. ríkisstj. um málið, en bréfið hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðuneytið hefur tekið við bréfi háttvirtrar fjárveitinganefndar, dags. 17. des. s. l., þar sem leitað er umsagnar um till. til þál. á þskj. 73 í Sþ., um lán úr mótvirðissjóði til landbúnaðarframkvæmda.

Ríkisstjórnin er fyrir sitt leyti samþykk tillögunni og vill mæla með, að Alþingi samþykki hana, þó þannig, að mótvirðissjóði verði að hálfu varið til lánastarfsemi í þágu landbúnaðarins, en að hálfu til lánastarfsemi til eflingar framleiðslu og framkvæmda fyrir kaupstaði og kauptún.“

Meiri hl. fjvn. hefur fallizt á, að sú tilhögun, sem hæstv. ríkisstj. leggur til að höfð verði á afgreiðslu þessarar till., sé eðlilegust, og hefur því fært till. í það form, sem hæstv. ríkisstj. vill á henni hafa. Meiri hl. n. er í rauninni öll n., því að þótt einn maður í n. hafi gert nokkurn ágreining, þá skilur ekki milli hans og meiri hl. n. um heildarafgreiðslu þessa máls; um það er hann sammála meiri hl., og má segja, að n. standi öll saman um það. Það er aðeins um aukaatriði í sambandi við framkvæmd þessa máls, sem ágreiningurinn stendur. Fjvn. er sammála um það, að með þeirri ákvörðun, sem gerð er með þessari þáltill. um ráðstöfun á fé mótvirðissjóðs, sé stigið hagkvæmt og farsælt spor, — spor, sem muni marka og hafa mikla þýðingu, þegar fram liða stundir og að því kemur, að þetta fé verður tiltækilegt til þeirra ráðstafana, sem till. gerir ráð fyrir, en eins og kunnugt er, er svo háttað með mótvirðissjóð, að nú þegar hefur honum verið ráðstafað — öllum að ég ætla — þannig, að hann hefur verið veittur sem lán til Laxárvirkjunarinnar og Sogsvirkjunarinnar og til þess að byggja fyrir áburðarverksmiðju. Með þessum hætti hefur sjóðnum öllum verið ráðstafað og með því lagður öruggur grundvöllur að því, að þessum stóru, þýðingarmiklu fyrirtækjum sé fjárhagslega séð farborða. Samningar um lán til þessara fyrirtækja eru byggðir á því, að þessi lán verði endurgreidd á 20 árum, og það er þá fyrst, þegar til þessarar endurgreiðslu kemur, sem hægt verður að fara að ráðstafa sjóðnum samkv. því, sem markað er í þessari þáltill. Svo var þessu einnig varið í upprunatill.

Eftir þeim upplýsingum, sem fjvn. fékk um heildarupphæðina, sem hér um ræðir, nemur hún hátt í 300 millj. kr. Það liggur ekki alveg fyrir um það nákvæmlega, hvað upphæðin verður há, en þetta mun láta mjög nærri lagi. Auk þess vex þessi upphæð vitanlega og þróast af þeim vöxtum, sem þessi fyrirtæki greiða af höfuðstólnum, en að sjálfsögðu er notkun þessa fjár bundin af þeirri ráðstöfun, sem gerð hefur verið um sjóðinn í þágu þessara stóru fyrirtækja.

Meiri hl. fjvn. mælir því eindregið með því, að þessi till. verði samþ. með þeirri breyt., sem ríkisstj. leggur til, að á henni verði gerð, og er flutt sem brtt. í niðurlagi nál. í því formi, sem n. óskar eftir að till. verði afgreidd.

Ég vil svo taka það fram, að með þessari þáltill. er mörkuð sú stefna, sem fram kemur í því, hvernig eigi að verja þessu fé. Hæstv. ríkisstj. mun ganga frá nánari lagasetningu um fyrirkomulag á ráðstöfun fjárins og sennilega gera það fyrir næsta þing, þannig að frv. um þetta efni verði lagt fyrir af hálfu ríkisstj. á því þingi, sem saman kemur á næsta hausti.

Ég skal ekki fara langt út í að ræð.a þá brtt. hér, sem minni hl. n., hv. 5. landsk., hefur gert, enda hefur hann ekki reifað sína till. En ég vil aðeins benda á, að mér virðist vera ástæðulaus ótti hans við það,, að haft sé áfram það form á mótvirðissjóði, sem nú er, þrátt fyrir það að meðferð fjárins verði ákveðin samkvæmt því, sem í þáltill. felst. Í því efni er Alþ. einrátt og á ekki undir neinn aðila að sækja um það, hvaða ráðstöfun það gerir um þetta fé, og þarf þess vegna ekki að vera að gera ráðstafanir til þess nú með þeim hætti, sem hv. 5. landsk. gerir eða leggur til að gert verði, að leggja þetta fé í framkvæmdasjóð ríkisins. Á því er enginn munur, hvort það verður áfram í mótvirðissjóði og ávaxtað í Landsbankanum eða annarri peningastofnun hér á landi eða á því verður það form, sem hann leggur til það er enginn munur á ráðstöfunar- eða umráðarétti Alþ. og ríkisstj. á þessu fé, hvor leiðin sem farin er.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál, en láta í ljós ánægju mína yfir því góða samkomulagi, sem orðið hefur um þetta mál í meðförum n., a. m. k. við ríkisstj. og innan n., sem spáir mjög góðu um það, að gott samkomulag verði um afgreiðslu þessa máls frá Alþ. Það er ekki minnsta vafa bundið, að með þessari ráðstöfun á þessu fé er stigið heillavænlegt spor fyrir framtíð þessa lands.