16.01.1952
Sameinað þing: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í D-deild Alþingistíðinda. (3224)

51. mál, mótvirðissjóður

Frsm. minni hl. (Ásmundur Sigurðsson):

Eins og hv. frsm. meiri hl. sagði, hafði ég nokkra sérstöðu í n., þó að sú sérstaða væri ekki um meginstefnu þá, sem till. markar um notkun þessa fjár, en þessa sérstöðu vildi ég þó staðfesta í sérstöku nál.

Þegar fyrri hluti þessarar umr. fór fram á öndverðu þingi, þá var það, að landbrh. tók til máls og gat þess, að þurfa mundi sérstök ákvæði til þess, að gild væru ákvæðin um ráðstöfun þessa fjár framvegis. Í ræðu sinni komst hann m. a. svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og hv. Alþ. er kunnugt, er mótvirðissjóði ráðstafað þannig, að það þurfa að vera tveir aðilar, sem um það fjalla. Það þarf að fá samþykki Marshallstofnunarinnar til þess að ráðstafa fé úr sjóðnum. Ef samningar hafa tekizt um ráðstöfun fjárins, þarf að setja um það lög. Þessi ályktun, sem hér er gerð, mundi leiða til þess að mínum dómi, — og ég mundi krefjast þess, — að ríkisstj. leitaði eftir samkomulagi við Marshallstofnunina um að ráðstafa fé á þennan hátt, þar sem fyrir lægi ákveðin viljayfirlýsing þingsins, þar sem þessa er óskað, og síðan verði sett lög í samræmi við það.“

Þetta kom til umr. aftur í fjvn. einmitt nú, þegar málið var tekið til endanlegrar afgreiðslu þar. Ég óskaði þá eftir því — ég hafði þá ekki við höndina þessi ummæli ráðherrans — að fá alveg úr því skorið, hvort öruggt væri, að þessu fé yrði ekki ráðstafað framvegis, þegar það kæmi inn aftur, nema með leyfi Marshallstofnunarinnar. Form. fjvn. talaði við ríkisstj. eða fjmrh. um þetta og sagði seinna á fundi í n., að þau boð hefðu borizt til n. frá ráðh., að þess mundi ekki þurfa, hér hefði verið um misskilning að ræða frá hendi landbrh., þegar málið var til umræðu í Sþ. En þó að þetta atriði hafi ekki haft áhrif á afstöðu mína varðandi það form, sem ég legg til, að haft verði á innheimtu fjárins samkv. brtt. minni við þáltill., þá vildi ég samt beina þeirri spurningu til landbrh., hvort þessu sé í raun og veru þannig farið, að ríkisstj. sé þeirrar skoðunar, að ekki þurfi að fá leyfi hjá Marshallstofnuninni til þess að ráðstafa fénu í annað sinn, — að ráðstafa vöxtum og afborgunum af því fé, sem farið hefur í mótvirðissjóð, þegar þau fyrirtæki, sem fengu það að láni, greiða það. — Ég vil, að skýr yfirlýsing liggi fyrir um þetta atriði.

Þetta er það, sem ég vildi segja um það atriði málsins. En þrátt fyrir það, þó að ríkisstj. telji sig geta gefið skýra yfirlýsingu um það, að Alþ. heimili ríkisstj. að ráðstafa fé þessu framvegis án sérstaks leyfis Marshallstofnunarinnar, tel ég þó a. m. k. fulla ástæðu til þess að breyta forminu frá því, sem gert er ráð fyrir í þáltill. þeirri, sem hér er til umr., og í það horf, sem ég legg til í minni brtt. Það er kunnugt þm., og raunar öllum, að samkvæmt Marshallsamningnum er eðli mótvirðissjóðs sérstakt. Í þeim samningi, sem er samningur á milli íslenzku ríkisstj. og erlends aðila, er kveðið svo á, að jafnvirði þess fjár, sem við fáum að gjöf samkv. samningnum, skuli leggja í sérstakan sjóð, sem sé geymdur og ávaxtaður í Landsbanka Íslands og ekki heimilt að ráðstafa nema með leyfl efnahagssamvinnustofnunarinnar. Nú sýnist mér, að þessi stofnun sé að vísu úr sögunni, þ. e. a. s., það mun vera ákveðið, að hún hætti störfum, en þá mun önnur stofnun koma í hennar stað, sem þegar hefur verið gefið ákveðið nafn og á fyrst og fremst að hafa það hlutverk með höndum að hafa vissa þætti hernaðarmála í Evrópu til athugunar. Það mun ekki vera ákveðið, hvort hún leggi eitthvert fé hingað til landsins, en ekki tel ég ólíklegt, að svo geti orðið. En samkvæmt því, að Marshallstofnunin sem slík, í því formi sem hún hefur verið starfrækt, er lögð niður, er líka eðlilegt að leggja niður það form á ráðstöfun þess fjár, sem ákveðið er með þessum Marshallsamningi. Mótvirðissjóður hlýtur að breyta um eðli, verða ekki samkvæmt eðli sínu lengur mótvirðissjóður í því formi, sem hann hefur haft hingað til, og tel ég því eðlilegt, að hann hverfi úr sögunni, þegar búið er að veita þetta fé út til íslenzks atvinnulífs, en vextir og afborganir, sem koma inn af þessu fé á 20 árum, sé lagt í sérstakan sjóð, sem ekki sé á neinn hátt hægt að benda á að sé öðruvísi en alíslenzkur sjóður og starfi alveg eftir íslenzkum l. Ég hafði fyrst hugsað mér að leggja til, að stofnaður yrði sérstakur sjóður með nýju nafni. En þegar ég athugaði málið betur, kom mér í hug, að til er sjóður, sem ætti samkvæmt öllum eðlilegum rökum að taka við þessu fé og verða þar með sú stofnun, sem veitti þetta fé út aftur til íslenzks atvinnulífs, og þessi sjóður er Framkvæmdasjóður ríkisins, sem stofnaður var með l. nr. 55 4. júlí 1942, og hljóðar 1. gr. þeirra svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Stofna skal sjóð, er heitir: Framkvæmdasjóður ríkisins. Hlutverk sjóðs þessa er að veita fé til nauðsynlegra framkvæmda í þarfir atvinnuveganna, að styrjöldinni lokinni, og skal þá fé sjóðsins sérstaklega varið til stofnunar nýrra framleiðslugreina, svo sem framleiðslu tilbúins áburðar og steinlíms, ræktunar og býlafjölgunar í sveitum landsins, byggingar verkamannabústaða, skipasmíða, byggingar verksmiðju til herzlu síldarlýsis o. fl., sem nauðsynlegt er til að auka öryggi atvinnulífsins og fullnægja þörfum landsmanna.“

Nú liggur raunar fyrir, að breyta þarf l. um þennan sjóð í sambandi við þá fyrirhuguðu notkun þessa fjár, ef Alþ. gengur inn á till. mínar, og væri þá eðlilegast, að sú breyt. yrði undirbúin af ríkisstj. fyrir næsta þing og lægi þá fyrir því Alþingi til endanlegrar samþykktar.

Ég vil benda á, að það liggur ljóst fyrir, að mynda á nýja stofnun, sem að nokkru leyti á að taka við af Marshallstofnuninni, að vísu með eitthvað breyttum ákvæðum um starfsemina. Og það liggur líka fyrir, að hér á Íslandi eru þegar hafnar vissar hernaðarframkvæmdir, sem mætti fyllilega búast við að fengju að einhverju leyti fé frá þessum sjóði, í samræmi við ýmislegt annað. sem gerzt hefur undanfarið, og ég tel, að engin vissa sé fyrir því, nema þess verði krafizt, að mótvirðissjóður haldi áfram að vera til í þessari mynd og kynni að starfa eitthvað í sambandi við þessa nýju stofnun, og þá sýnist mér að væri enn þá óheppilegra, ef þetta fé er óumdeilanlega orðið eign Íslendinga, að rugla því í sömu peningastofnun, sem kynni e. t. v. að verða greitt inn í með vissum skilyrðum, ef sú starfsemi, sem þar um ræðir, næði hingað til Íslands. Ég get ekki skilið annað en að meginþorri alþm. geti fallizt á þetta sjónarmið, svo framarlega sem það er alveg óumdeilanlegt og full vissa fyrir því, að þetta fé, sem nú er búíð að lána úr mótvirðissjóði, sé óumdeilanlega eign Íslendinga, með þeirra fulla ráðstöfunarrétti. Ef hv. Alþ. getur ekki fallizt á að greiða þetta fé aftur, vexti og afborganir af því, í framkvæmdasjóð, þá fyndist mér það benda til þess, að vissan um það, að við höfum óumdeilanlega einir ráðstöfunarrétt á því, sé ekki alveg örugg. Þess vegna er það, að ég skilaði sérstöku nál. og legg til, að till. verði breytt í það horf, sem brtt. hér á þskj. 624 segir til um.