16.01.1952
Sameinað þing: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í D-deild Alþingistíðinda. (3229)

51. mál, mótvirðissjóður

Frsm. meiri hl. (Pétur Ottesen):

Aðeins örfá orð nú að þessu sinni, enda er fundartíma senn að verða lokið.

Mér kemur ákaflega einkennilega fyrir sjónir það tiltæki hv. 2. þm. Reykv. (EOl) að reyna að snúa út úr í því máli, sem hér var flutt, og þeirri skoðun, er hér var lýst. Þessi útúrsnúningur byggist ekki á því að gera grein fyrir, hvað í þessari till., sem hér liggur fyrir, felst, heldur er hann aðeins að reisa sig upp á móti henni, og fæ ég ekki skilið, hvað getur legið á bak við það, þar sem hann hefur lýst yfir samþykki sínu við þær ráðstafanir, sem hér er um að ræða. Þetta er óheil framkoma í þessu máli. Ég vil fullvissa hann um, að það er ekki minnsti fótur fyrir því, að till., eins og hún var upphaflega flutt, marki ekki skýrt og ákveðið, hvað í henni felst, sem sé, að eigi minna en helmingi mótvirðissjóðsins skuli varið til lánastarfsemi í þágu landbúnaðarins. En þar sem fyrir liggja upplýsingar um heildarupphæð þá, sem hér um ræðir, þá er nú hægt að gera sér betri grein fyrir, hver upphæðin er, heldur en þegar till. var flutt fyrst. Hv. þm. mun því, ef hann athugar þetta, komast að raun um og finna, að hann stendur hér á hálum ís. Og upphaflega till. var alveg skýr, hvað þetta atriði snertir, því að hún tók til helming af öllu fé Marshallaðstoðarinnar, sem var í mótvirðissjóði, þegar Marshallaðstoðinni lauk. Munurinn á till., eins og hún er nú, er aðeins sá, að í upphaflegu till. var gert ráð fyrir ráðstöfun á helmingi mótvirðissjóðsins í ákveðnu skyni, en hér í þessari síðari till. er lagt til, að öllu fénu skuli ráðstafað þannig, að til helminga komi á milli landbúnaðarins annars vegar og kaupstaða og kauptúna hins vegar. En þetta virðist hv. þm. ekki vilja skilja. Það hljóta að vera eitthvað einkennileg öfl, sem verka á heilann í honum og valda því, að hann er með þessa útúrsnúninga, sem ekki eiga neina stoð í raunveruleikanum. Og að standa hér og vera með endalausar málalengingar, eins og hann gerði, það er ekki til neins gagns, heldur aðeins til þess, að menn fyrst og fremst hætta að svara honum og enginn tekur mark á því, sem hann segir. Ég vil þess vegna upplýsa hv. þm. um það, að það er dálítið hættulegur hlutur að vera með endalausar málalengingar og útúrsnúninga, eins og hann hefur gert hér í þessu máli, og raunar á þessu þingi, svo sem raun ber vitni um.

Sama er að segja um það að vera með miklar málalengingar um það á Alþ., hvort féð skuli standa áfram í mótvirðissjóði eða framkvæmdasjóði, því að viðhorf og yfirráð ríkisstj. og Alþ. eru alveg söm, hvort hann heitir mótvirðissjóður eða framkvæmdasjóður. Og alltaf þegar hv. 2. þm. Reykv. lítur í vesturátt, sér hann ekkert nema drauga, og þá svífa alltaf draugar fyrir augunum á honum. Það réttasta, sem hv. þm. gæti gert, er að þegja, þegar talað ér um að ráðstafa þessu fé, sem oss hefur fallið í skaut vegna Marshallaðstoðarinnar, svo óvelkomið sem honum og flokksmönnum hans það er.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um ræðu hv. 2. þm. Reykv. að þessu leyti, þar sem hún var bara útúrsnúningur og að því leyti alveg markleysa.

Viðvíkjandi því, sem hv. 4. þm. Reykv. (HG) sagði, að afgreiðsla á till. þessari væri fölsk færsla og að það væri ósæmandi fyrir Alþ. afgr. þessa þáltill., þar sem von væri á löggjöf um þetta efni, þá vil ég segja þetta: Hv. 4. þm. Reykv. gerir sér ekki grein fyrir því, að í þessari till. er aðeins mörkuð aðalstefnan í þessu máli. En þó að það sé gengið út frá því, eins og ég sagði í framsöguræðu minni hér áðan, að sett yrði löggjöf um þetta efni, þá verður frv. um það ekki komið inn á þessu þingi, sem gert er ráð fyrir að ljúki í næstu viku, en ríkisstj. mun í samráði við þá aðila, er að þessu máli standa, undirbúa um þetta löggjöf, sem lögð verður fram á næsta þingi. Þess vegna er það þýðingarmikið að marka nú þegar stefnuna í þessu máli og búa þannig um, að eigi sé annað eftir en að ákveða um þetta með lögum á næsta þingi.

Hv. 4. þm. Reykv. heldur, að viljayfirlýsing sé markleysa, vegna þess að það geti verið komin allt önnur viðhorf í þessu máli, þegar tímar líða, og spyr, hvað sé þá verið að gera með þessa þáltill. Þessari þáltill. er ætlað að marka þá línu, að fé sjóðsins verði varið til fyrirgreiðslu atvinnuveganna, þannig, að landbúnaðurinn fái helming og svo kauptún og kaupstaðir, þ. e. a. s. sjávarútvegurinn og iðnaðurinn, hinn helminginn, svo að maður nefni aðalatvinnuvegina; það eru þá þessir þrír höfuðatvinnuvegir, sem lánunum verður varið til, þeim til framdráttar og uppbyggingar. Það er þetta, sem í till. felst. Og ef hv. 4. þm. Reykv. heldur, að það sé verið að slá vindhögg með því að gera þessar ráðstafanir gagnvart höfuðatvinnuvegum þjóðarinnar, þá vil ég segja, að það sé meira og stærra vindhögg að gera ráð fyrir því, að viðhorfið hér breytist svo, að stuðningur við þessa höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar nái ekki tilætluðum tilgangi. Ég vil mótmæla því, að í þessu felist fölsk rök, heldur felast í þessari till. þjóðhollar og nauðsynlegar ráðstafanir, sem tryggja, að fé þessu verði varið til stuðnings og uppbyggingar höfuðatvinnuvegum þjóðarinnar.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta, en ég vænti, að þessi till. verði að lokinni þessari umr. hér samþ. fljótt og greiðlega, og vil ég endurtaka það, sem ég sagði í upphafi míns máls, að með henni er markað þýðingarmikið og heillavænlegt spor fyrir framtíð þessarar þjóðar, með því a,ð styðja aðalatvinnuvegi okkar með þessu fé eins og gert er ráð fyrir með þessari þáltill.