23.11.1951
Neðri deild: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (323)

17. mál, varnarsamningur

Frsm. meiri hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Ég get látið mér nægja aðeins stuttan tíma til þess aðeins að minnast á þá löngu ræðu sem hv. 2. þm. Reykv. hefur haldið í þessu máli, bæði í gær og í dag. Ekki sízt er lítil ástæða til andsvara, þar sem þessi sama ræða með nokkuð mismunandi blæbrigðum hefur verið flutt hér á Alþ. jafnt þegar rætt hefur verið um húsnæðismál, viðskiptamál, atvinnumál og yfirleitt öll þau mál, sem þessi hv. þm. hefur látið til sín heyra um. Þá hefur hann í raun og veru alltaf flutt þessa sömu ræðu, sem hann hefur flutt hér útþynnta í gær og í dag og við mörg önnur tækifæri. Og með því að þm. eru orðnir þreyttir á þessu og jafnvel hans eigin flokksmenn eru orðnir þreyttir, er ekki ástæða til að eyða miklum tíma til að svara þessum plötugarmi, sem hann hefur spilað hér dag eftir dag og viku eftir viku.

Hv. þm. sagðist hafa þurft að uppfræða mig í stjórnmálasögu. Ég veit, að hann er góður nemandi hinnar nýju söguskoðunar, sem kennd er í Sovétríkjunum, þar sem aðstæðum og sögulegum staðreyndum er breytt svo, að þær passi í pólitík Sovétríkjanna. Maður veit það, að atburðir í sögu Rússlands eftir byltinguna 1917 hafa verið strikaðir út í sögukennslubókum, svo að núverandi æska Rússlands fengi ekki að vita um þá. Því hefur þurft að fela t.d. myndir af Trotsky með Lenin til þess að geta haft samræmi í hinni nýju sögumenntun æskulýðsins þar í landi. Á sama hátt skýra þessir menn hinnar austrænu söguritunar sögu síðustu ára, og ég sé ekki ástæðu til að minnast á þessa sögukenningu, sem alkunn er þeim, sem nokkuð hafa fylgzt með síðasta áratuginn.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að það ætti ekki að ræða þetta mál á Alþ. meðan herinn væri í landinu. En hann hefur þó eytt í það 3–4 klst. í dag og í gær, auk þess sem hann hefur talað um það við öll önnur tækifæri. Það vita allir, að stríðið brauzt út 1939 vegna þess, að griðasáttmáli var gerður milli Stalíns og Hitlers. Ég man vel, þegar þetta gerðist, því að ég var þá staddur í Noregi, og man, hvílíka skelfingu griðasáttmálinn vakti hjá stjórnmálamönnum í Noregi. Þeir óttuðust afleiðingarnar, enda fór svo, að það leið ekki nema víka þar til þær komu í ljós, er herskarar Hitlers réðust á Pólland. Seinna skiptu Hitler og Stalín því milli sín. Það var upphaf stríðsins. Það voru þessir einræðisherrar, sem voru orsök stríðsins 1939–45, og það eru einræðisherrar yfirleitt, sem eru orsakir styrjalda. Nú er það hinn mikli einvaldi Stalin og Ráðstjórnarríkin, sem ögra heimsfriðnum. Og þegar hv. 2. þm. Reykv. var að tala um innrásina í Noreg, gleymdi hann að minnast á það, að þegar bróðir Hitler tilkynnti samherja Stalin, að hann hefði gert innrásina í Noreg, fékk hann hamingjuóskir fyrir hið djarflega áform að ráðast á hinn varnarlausa Noreg. Þessum atburði verður ekki gleymt í sögu Evrópu.

Annars sé ég ekki ástæðu til að elta ólar við þessa margendurteknu og útþynntu ræðu hv. 2. þm. Reykv. og ekki heldur þá togleðurssúpu, sem hann hafði meðferðis, er hann vildi skýra samninginn. Samningurinn liggur ljóst fyrir, og er ekki ástæða til fyrir okkur að fara inn á það að ræða hann í einstökum greinum. Ég mun því láta máli mínu lokið með því að vísa til þess, sem ég færði skýr rök fyrir í framsöguræðu minni, að samningurinn og allir gerningar í sambandi við hann eru eingöngu gerðir í varnarskyni. Það er áreiðanlegt, að engar af þeim þjóðum, sem að Atlantshafsbandalaginu standa, sízt smáþjóðirnar, óska eftir ófriði. Það, sem er kjarní þessa máls, er það, að þessi sáttmáli er eina von mannkynsins til að losna við stríð. Það er einmitt með þetta í huga, að við, sem stöndum í lýðræðisfl. hér á Íslandi, gerðum þennan samning, vel vitandi það, að það er ekkert, sem er betra fyrir Ísland og allar aðrar þjóðir en að friður haldist í heiminum. Við trúum því, að slík samtök og slíkur varnarmáttur sé það eina, sem geti orðið til þess. Það er þetta, sem er óskir og vonir okkar, sem stöndum að þessum samningi.