16.01.1952
Sameinað þing: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í D-deild Alþingistíðinda. (3230)

51. mál, mótvirðissjóður

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er út af því, sem hv. þm. Borgf. var að segja. Það er hart af einum elzta þm. Alþ. að geta ekki orðað till. sína þannig, að hann komi á pappírinn því, sem hann langar til að segja. Og það er undarlegt af hv. þm. Borgf. að tala hér með þjósti, þó að fundið sé að þessari till., sem hann flutti og er til skammar fyrir þá þm., sem að henni standa. Hann gerir sér ekki ljóst, hvað verið er að fara með till., heldur rýkur upp með þjósti út af mínum aths., sem ég gerði hér áðan. — Og nú skal ég lesa till. yfir honum. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að gera, eftir því sem við verður komið, ráðstafanir til að tryggja það, að ekki minna en helming mótvirðissjóðsins, eins og hann verður, þegar Marshallaðstoðinni lýkur verði varið til lánastarfsemi í þágu landbúnaðarins, þegar féð er tiltækt til slíkrar ráðstöfunar.“

Hvað þýðir svo þessi þjóstur, þegar litið er á, hvernig ástatt var, þegar þessi till. var flutt, sem er til skammar fyrir þá þm., sem fluttu hana? Till. þýðir, að helming mótvirðissjóðsins verði varið til lánastarfsemi. (PO: Þegar búið er að endurgreiða lánin.) Það verður hv. þm. þá að taka fram í till., ef hann ætlast til, að það verði gert, og eins ef hann ætlast til, að það verði ákveðið með l., hvað ríkissjóði er ætlað að greiða út. Hann ætti að bæta þessu inn í till. nú. (PÓ: Þetta stendur i till.) Nei, þetta stendur ekki í till., og skal ég útskýra þetta fyrir hv. þm. (PO: Það þýðir ekkert.)

Mótvirðissjóður var stofnaður samkvæmt þeirri ákvörðun Marshallsamningsins, að jafnvirði þess fjár, er við fengjum að gjöf samkvæmt þessum samningi, skyldi greitt i íslenzkum krónum í sérstakan sjóð, er geymdur væri í Landsbanka Íslands, og má ekki ráðstafa honum nema með leyfi Marshallstofnunarinnar. Í lögum mótvirðissjóðsins segir þetta og ekkert annað. En svo er ætlazt til þess, að hægt sé að breiða yfir þessa skammsýni með einfaldri þáltill. og yfirlýsingu frá hæstv. landbrh., að ef till. yrði samþ., þá mundi hann fara til Washington til að fá yfirlýsingu um leyfi til að ráðstafa sjóðnum á þennan hátt. (PO: Heyrði þm., hvað hann sagði?) Ég heyrði það vel. Hitt er annað mál, að það fé, sem kann að koma inn síðar, sem sé vextir og afborganir af því fé, sem hefur verið lánað úr mótvirðissjóðnum, er það, sem getur komið til ráðstöfunar, því að eins og er nú, þá hefur allt féð verið lánað út. En þetta skilur ekki hv. þm., og er það hart, að þetta skuli koma fyrir einn af okkar elztu þm.

Ég reyndi í ræðu minni hér áðan að taka þessu vinsamlega og benti á, hvað mér fyndist, að betur mætti fara. En hv. þm. rýkur upp í þjósti, og þess vegna svara ég honum eins. Menn ættu að geta gert till. sínar þannig, að nokkurn veginn væri augljóst, hvað þeir meintu. Og það er ástæðulaust fyrir hv. þm. Borgf. að rjúka upp í reiði sinni. Það kemur hvergi fram í till., að greiða eigi til baka í mótvirðissjóðinn. Það er hvergi tekið fram um það atriði í till. Og svo framarlega sem menn vilja, að það nái tilgangi sínum, sem hér er ætlazt til, þá verður að gera breyt. á þessari till. Það er ákaflega hart, að ekki sé hægt að benda hér á það, sem betur mætti fara, og gera það eins og ég gerði hér áðan, án þess að fá ræðu eins og hv. þm. Borgf. hélt hér.

Ég vil, að þessi hv. þm. geri sér ljóst, hvað mótvirðissjóðurinn er. Hann er ekkert annað en 300 millj. kr., sem eru geymdar á sérstökum reikningi í Landsbanka Íslands. Ég get því ekki samþ. þessa till. á þskj. 73 eða brtt., sem meiri hl. n. hefur orðað og er á þskj. 621. Ég skal skýra það fyrir hv. þm., ef hann er ekki klár í þessu máli nú þegar, og ef hann getur bent mér á eitt orð um endurgreiðslu, þá get ég orðið honum sammála. En það stendur hvergi eitt orð um það, að borgað sé til baka i mótvirðissjóðinn, og skal ég lesa brtt. fyrir hann:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að gera ráðstafanir til þess, að mótvirðissjóði verði, þegar fé hans er tiltækt til slíkrar ráðstöfunar, varið til lánastarfsemi að hálfu i þágu landbúnaðarins og að hálfu til eflingar framleiðslu og framkvæmdum fyrir kaupstaði og kauptún.“

Hér stendur ekki eitt orð um endurgreiðslu. Og hvar getur hv. þm. fundið það, að lán, sem veitt er úr mótvirðissjóði, skuli greiðast til baka eftir þessari till.? Það er ekki stafur um það.

Ég held því, að hv. þm. væri nær að taka vinsamlega þeim bendingum, sem ég kom með hér áðan, og taka brtt. aftur, sem fjvn. hefur flutt hér. Ég álít, að þessi till., sem hv. meiri hl. fjvn. hefur borið hér fram, þurfi að athugast betur, áður en hún er borin fram hér á Alþ.

Ég bendi á það í ræðu minni áðan, hvort ekki væri gagnlegra að verja þessu fé á skynsamlegri hátt til uppbyggingar í landinu. En ég hef ekki orðið þess var í umr. þeim, sem hér hafa farið fram, að leitazt sé við að fá það bezta út úr þessu máli, heldur aðeins slegið því fram, að með því að benda á agnúana, þá sé tilgangurinn sá að tefja fyrir málinu. Og það er ekki í fyrsta skipti, að fram hafa komið reglur frá stjórnarflokkunum, er hefur þannig verið frá gengið, að stjórnarandstaðan hefur þurft aftur og aftur að benda á það, sem betur mætti fara, og hefur ríkisstj. í ýmsum tilfellum tekið slíkar ábendingar gildar. Finnst mér því ekki, að hv. meiri hl. fjvn. hafi þurft að setja sig á háan hest út .af mínum ábendingum. Og mér finnst, að hv. fjvn. ætti að ræða sínar till. betur, ef hún á ekki að verða sér til skammar fyrir þær.