17.01.1952
Sameinað þing: 34. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í D-deild Alþingistíðinda. (3239)

150. mál, félagafrelsi verkamanna og vinnuveitenda

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Eitt af aðalverkefnum Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, sem hefur aðsetur í Genf, er að leita eftir að fá þáttökuríkin til að sameinast um vissar yfirlýsingar varðandi mannréttindi og rétt til að stofna félög og samskipti manna á meðal. Þetta er merkilegt atriði, en gengur vitanlega erfiðlega að sameina svo mörg ríki um þetta. — Hér liggja fyrir tvær till. í þessu sambandi. Sú till., sem hér liggur fyrir, er um að fullgilda alþjóðasamþykkt um breytingu á grundvallarreglum um stofnun félaga. Er hún framhald af samþykkt frá 1948 um félagafrelsi, sem er eina samþykktin, sem Íslendingar eru aðilar að í þessu alþjóðasamstarfi. Má segja, að þessi samþykkt sé framhald af hinni fyrri. — Félmrn. lítur svo á, að rétt sé og sjálfsagt, að Íslendingar gerist aðilar að þessari samþykkt eins og hinni fyrri um félagafrelsi, enda hefur þetta áður komið til meðferðar hjá stj. 1947 eða 1948, og féllst stj. þá á, að þetta væri í samræmi við íslenzk lög og venjur, enda álitið, að ekki þurfi neina breytingu á okkar lögum og venjum varðandi þau atriði. — Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta, en vildi a. m. k. koma þessari till. til n., svo að Alþingi gæfist kostur á að fjalla um hana nú þegar, hvort sem hún hlýtur afgreiðslu, sem ég tel þó heppilegast. — Legg ég svo til, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn.