23.11.1951
Neðri deild: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í B-deild Alþingistíðinda. (324)

17. mál, varnarsamningur

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín að tefja hér sérstaklega þessar umræður, og ég hef gert svo greinilega grein fyrir afstöðu minni, að ég þarf þar ekki miklu við að bæta. Það eru aðeins nokkur orð út af ræðu hv. 8. landsk. þm. Hann talaði um ræðu mína, en hann hlustaði bara ekki á hana. Ég held þó, að hann hefði haft gott af að hlusta á hana. Þekkingarleysi hans á þessu efni var svo gífurlegt, að mér datt í hug uppblásinn loftbelgur af vanþekkingu. Ég hef aldrei heyrt nokkurn mann tala af svo gífurlegum hroka og sjálfbyrgingsskap um málefni, sem hann vissi ekki nokkurn skapaðan hlut um.

Það er til hér flokkur, sem kallar sig Alþýðuflokk. Stefán Jóh. Stefánsson er formaður þess flokks. Þessi flokkur á sér stefnuskrá, þar sem minnzt er á utanríkismál. Þar er tekið mjög greinilega fram um afstöðu flokksins gagnvart Sovétríkjunum, og segir þar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Flokkurinn fylgist einnig af mikilli athygli og samúð með tilraun alþýðunnar í Sovétlýðveldasambandinu til þess að skapa þar sósíalistískt þjóðfélag. Þar sem ósigur Sovétríkjanna mundi verða ósigur verkalýðsins um allan heim, berst hann móti hvers konar einangrunartilraunum, árásarherferðum og spellvirkjum gagnvart hinu nýja þjóðfélagi. Flokkurinn vill auka hið viðskiptalega og menningarlega samband við Sovétríkin og veita óhlutdræga fræðslu um baráttu þeirra fyrir sköpun sósíalismans.“

Þetta var sú stefna, er Alþfl. hafði í þessum málum um sama leyti og lýðveldið var stofnað. En hv. 8. landsk. hrökklaðist frá þessari stefnu fyrir áhrif frá Dönum, þegar Stauning kom hingað um árið. Síðar, eftir að Danir hættu að hafa eins sterk áhrif hér, gerast þau tíðindi, að ameríska auðvaldið, sérstaklega Standard Oil, fékk fyrst völd hér á landi, og þá gerist það, að Alþfl. eignast sterka vini í Standard Oil, og þá snýr hann sér til Ameríku. Þetta vil ég minna hv. 8. landsk. þm. á, er hann var að tala um sögufalsanir.

Hv. 8. landsk. lýsti því yfir að lokum, að það væri ekki meining Atlantshafsbandalagsins að hefja árásarstríð og herstöðvar þess hér á landi væru eingöngu í varnarskyni. Á þetta mun nú verða reynt, því að ég mun bera fram brtt., svo hljóðandi: „Nú hefja Bandaríki NorðurAmeríku árásarstríð, og skal þá samningur þessi samstundis úr gildi fallinn. Skulu Bandaríkin þá tafarlaust flytja allan her sinn burt af Íslandi.“ — Það mun því verða á það reynt, hver alvara býr bak við þessar fullyrðingar hv. 8. landsk. þm. og annarra, er djarflegast hafa um þetta talað, og hvort þeir trúa sjálfir þessum fullyrðingum sínum.

Ég mun ekki hafa mál mitt lengra hér við þessa umr. Það mun gefast tækifæri til að ræða það betur við 3. umr., ef það verður samþ. nú. Ef ekki, er ég líka ánægður.