16.01.1952
Sameinað þing: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í D-deild Alþingistíðinda. (3262)

173. mál, ríkisaðstoð vegna atvinnuörðugleika

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. lýsti því hér, að rík nauðsyn hefði knúið sig og hæstv. atvmrh. til þess að bera hér fram á síðustu dögum þingsins till. um að heimila ríkisstj. að verja 1½ millj. kr. úr ríkissjóði til að byggja hraðfrystihús á Siglufirði og ábyrgjast 1½ á millj. til að koma upp þessu mannvirki, ef þörf krefði. — Ég hygg, að ekki verði dregið í efa, að Siglufjörður hafi þörf fyrir slíka aðstoð vegna þess atvinnuástands, sem þar er, og ástæðurnar til þess þekkja allir, þ. e. a. s. aflaleysi á síldveiðum. Hinu held ég svo að varla verði mótmælt, að annað bæjarfélag er í sömu sporum, ef ekki enn verri, og það er Ísafjörður. Hann byggir, hefur byggt og verður að byggja alla sína tilveru á sjávarútvegi, og eins og kunnugt er, hefur í mörg ár brugðizt bæði þorskveiði og síldveiði hjá Ísfirðingum eins og Siglfirðingum, nema hvað Siglfirðingar eru það betur staddir, að þeir hafa tekjur, hvort sem síldveiði bregzt eða ekki, af þeim miklu atvinnutækjum, sem ríkið rekur þar, við að búa þau undir rekstur og einnig af þeim mikla hóp aðkomumanna, sem þangað safnast um hverja vertíð. Slíkt er ekki fyrir hendi á Ísafirði. Má því segja, að vegna allsherjar aflabrests á þorsk- og síldveiðum sé skortur og neyðarástand fyrir margra dyrum þar og rík þörf til að gera sams konar ráðstafanir og ríkisstj. hefur opin augu fyrir að gera á Siglufirði.

Það er eins með Ísafjörð og Siglufjörð, að þar hafa einstaklingar fengið aðstoð til að fá tvo togara í bæinn, en bæjarstjórnin hefur ekki umráð yfir þeim togurum. Bærinn hefur því ekki fengið að ráða því, að togararnir legðu upp fiskinn þar til vinnslu, og það hefur ekki fengizt fram. Nokkur fiskiðjuver eru til á Ísafirði, en ekki fullnægjandi. Á Ísafirði eru ekki þær aðstæður, að hægt sé að nýta þar afla úr togurum, vegna þess að þar skortir hraðfrystihús og þarf því að reisa þau hið fyrsta. Bátafiskurinn er að vísu lagður þar upp, en svo er nú komið vegna ágangs bæði innlendra og erlendra togara, að búið er að eyðileggja þau mið, er þeir geta stundað veiðar á, og lítil sem engin veiði orðið á því svæði, er þeir ná til. Það ber því brýna nauðsyn til að búa svo í haginn á Ísafirði, að hægt sé að nýta þar afla úr togurum, en til þess þarf að koma þar upp nægilegu hraðfrystihúsplássi. Ég hef því leyft mér að leggja fram brtt. við þetta frv., þar sem farið er fram á, að upphæðin sé tvöfölduð og að fénu verði skipt til helminga milli Ísafjarðar og Siglufjarðar. Mér þykir ótrúlegt, að hv. alþm. sjái sér fært að gera upp á milli þessara tveggja bæja, sem eiga við sömu örðugleikana að etja, er stafa af sömu ástæðunni, þ. e. a. s. aflabrestinum. Ég legg því til, að upphæðin verði 3 millj. kr. og verði henni varið að jöfnu til að byggja frystihús á Ísafirði og Siglufirði. Brtt. er enn ekki komin úr prentun, en þar sem hæstv. forseti hefur boðað, að um þetta mál verði tvær umr., vil ég aðeins nota tækifærið nú til þess að boða, að von sé á henni. Ég vonast til þess, að Ísafjörður verði ekki settur hjá, þar sem ástandið er enn verra þar en á Siglufirði.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að sinni að fara fleiri orðum um þetta, en ég hefði helzt kosið, að hæstv. ríkisstj. hefði borið fram sérstaka till. um aðstoð til handa Ísafirði, eins og hún nú hefur gert fyrir Siglufjörð.