16.01.1952
Sameinað þing: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í D-deild Alþingistíðinda. (3263)

173. mál, ríkisaðstoð vegna atvinnuörðugleika

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir þessari till. og tjá hæstv. ríkisstj. þakkir mínar og Siglfirðinga fyrir flutning hennar, og ég tel, að hæstv. ríkisstj. hafi sýnt mikinn skilning í því að leysa vandamál Siglufjarðar og stigið skref til viðbótar við togarakaupin í fyrra í þá átt að hjálpa Siglfirðingum í þeirra miklu örðugleikum.

Mér er kunnugt um, að mál þetta hefur mikið verið rætt, og í haust var hér nefnd frá Siglufirði, sem ræddi þetta mál bæði við hæstv. ríkisstj. í heild svo og einstaka ráðherra, og þetta mál mun vera runnið undan rifjum þessarar nefndar. Þetta mál er ekki enn komið á það stig, að hæstv. ríkisstj. hafi ákveðið, hvernig einstökum framkvæmdum verði hagað. Ég vænti þess fastlega, að till. nái samþykki hv. Alþingis, þar sem hér er um hið mesta nauðsynjamál að ræða.

Ég skal ekki eyða mörgum orðum að því, sem hv. 6. landsk. sagði, en vil benda honum á, að þetta mál hefur verið lengi í athugun. Siglufjarðarkaupstaður hefur gefið hæstv. ríkisstj. allar þær upplýsingar, sem hún hefur óskað eftir, bæði um það, hverra framkvæmda helzt væri þörf, svo og það, hvernig hægt væri að tryggja reksturinn. Ég er ekki eins kunnugur þessum málum á Ísafirði, en mér er ekki kunnugt, að slík athugun hafi farið þar fram.

Ég vil að lokum beina þeim tilmælum til hv. 6. landsk., að hann blandi ekki þessum sérstöku hugðarefnum sinum inn í þetta mál, því að með því er þessu máli stefnt í hættu, og ég get ekki séð, að Ísafjörður sé að neinu bættari, þótt Siglufjörður verði af þessari aðstoð. Ég vil því mælast til þess við hv. þm., að hann láti þessa till. sína ekki koma fram núna, heldur fari Ísafjörður að á sama hátt og Siglufjörður.