16.01.1952
Sameinað þing: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í D-deild Alþingistíðinda. (3267)

173. mál, ríkisaðstoð vegna atvinnuörðugleika

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. var ekki kominn, þegar ég talaði hér áðan, en það hafði komið fram í ræðu hv. þm. Siglf., að hér stæði ólíkt á með Siglufjarðarkaupstað annars vegar og Ísafjarðarkaupstað hins vegar, þar sem sendinefnd hefði túlkað mál Siglufjarðarkaupstaðar fyrir ríkisstj. á s. l. hausti, en sama væri ekki hægt að segja að því er snerti Ísafjarðarkaupstað. Þetta er byggt á misskilningi, og þætti mér vænt um, ef hæstv. forsrh. vildi staðfesta hér, að það er rétt, sem ég sagði áðan, að bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar sendi á s. l. hausti sendinefnd á fund ríkisstj., sem gekk á fund hæstv. forsrh., atvmrh. og fjmrh. og afhenti síðan atvmrh. skriflega grg. um málið í heild. Það er því ekki rétt, að þetta mál Ísafjarðarkaupstaðar skjóti fyrst upp kollinum nú í sambandi við þessa till.

Í einu sambandi fannst mér ekki gæta nægs kunnugleika í orðum hæstv. ráðh. Málið á miklu lengri aðdraganda, því að á dögum nýbyggingarráðs lét bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar færustu sérfræðinga í byggingu hraðfrystihúsa útbúa alla nauðsynlega uppdrætti að fiskiðjuveri á Ísafirði, og fékk bæjarstjórnin vilyrði fyrir því, að stofnlán yrði veitt, en ráðið lauk þannig störfum, að Ísafjarðarkaupstaður hafði ekki fengið þetta stofnlán til hins þá undirbúna fiskiðjuvers. — Í annan stað lét ríkisstj. hreyfa þessu í sambandi við afgreiðslu fjárl. á s. l. hausti, þó að það bæri ekki árangur, og enn er farið á stað með málið í sambandi við annað hliðstætt mál.

Þetta vildi ég segja til upplýsingar því, að mál þetta er ekki óundirbúið og það flutt í fyrsta sinn af hendi Ísafjarðarbæjar.