16.01.1952
Sameinað þing: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í D-deild Alþingistíðinda. (3268)

173. mál, ríkisaðstoð vegna atvinnuörðugleika

Gísli Jónsson:

Mér finnst ekki óeðlilegt, að þetta mál, sem er allstórt mál, sé rætt nokkuð. Það er ekki einasta, að hér er um að ræða að verja 1½ millj. kr. úr ríkissjóði til annars aðila, heldur er hér um að ræða eina tröppuna í þeim stiga, sem nú hefur verið byrjað að ganga eftir til að leysa atvinnuerfiðleika manna umhverfis allt land. Hæstv. ríkisstj. hefur reynt að mæta þessu undanfarin ár og mánuði með mjög miklum skilningi og stórum framlögum úr ríkissjóði. Vildi ég því spyrja hæstv. ráðh., hvort þetta ætti að vera að hans áliti nokkur endir á þessu máli, því að sýnilegt er, að það verða fleiri staðir en Siglufjörður og Ísafjörður, sem koma hér inn í þessu sambandi og gera slíkar kröfur, ekki hvað sízt þegar sá háttur er tekinn upp að veita hjálp til Siglfirðinga, sem fengu aðstoð á s. l. ári. Það verður ekki annað séð en að aðrir staðir geti siðferðislega og lagalega gert sömu kröfur og byggt á, að þeim verði mætt. Og af því að það er ljóst, að slíkar raddir munu koma fram, vildi ég spyrja hæstv. ráðh., hvort það sé ekki ósk stj., að þetta mál verði einangrað og afgr. út af fyrir sig.

Hitt atriðið er ekki síður athyglisvert, að á sama tíma og þessar kröfur eru bornar fram, er á þessum sömu stöðum verið að segja upp hagkvæmustu kjarasamningum á togurunum.

Ríkissjóður hefur hjálpað Ísafirði til að kaupa skip. Að vísu er um hlutafélag að ræða, en bærinn á helminginn af hlutafénu, svo að það er einkennilegt, ef það er ekki gott fyrir Ísafjörð. Það mega vera vesalingar í bæjarstjórninni, ef bærinn hefur ekki hag af þessu, og ef svo er, ætti að flytja skipin burt og gera þau út annars staðar.

Bæði á Siglufirði og Ísafirði hafa togarasjómenn sagt upp samningum, sem eru hagkvæmustu samningar, sem verkamenn hafa, og gefa yfir 50 þús. kr. á ári. Hvað ætlar ríkisstj., m. a. hæstv. forsrh., sem líka er félmrh., og hæstv. atvmrh., sem einnig er flm. till., að gera í þessum efnum? Hvernig ætla þeir að afgr. þetta mál í sambandi við þær kaupkröfur, sem komið hafa fram? Við, sem eigum að afgr. málið, þurfum að vita það. Fáar deilur togaraútgerðarinnar eru leystar án milligöngu ríkisvaldsins og án þess að alþjóð þurfi að taka á sig bagga í því sambandi. Væntanlega fellur það í hlut flm. að leysa vandann. Ef flotinn verður stöðvaður 15. febr., er ekki annað sýnna en að þjóðin verði að færa nýjar fórnir í sambandi við það. Á ríkissjóður að leggja milljónir króna í fyrirtæki, ef sömu menn koma um leið og heimta hærri laun en greidd eru á nokkrum öðrum stað á landinu? Ef atvinnutækin eiga að lúta valdi þeirra manna, sem knýja fram kröfur, sem ekki er hægt að standa undir, þá ætti það að vera skilyrði, að þau mál verði fyrst leyst með fullri skynsemi. Það verður að mæta sanngjörnum kröfum, en ef þessir menn hafa 50 þús. kr. á ári, er ótrúlegt, að stöðva þurfi flotann þeirra vegna og að það sé leið til að bjarga Siglufirði eða Ísafirði. — Þetta þótti mér rétt að láta koma fram.