17.01.1952
Sameinað þing: 34. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í D-deild Alþingistíðinda. (3272)

173. mál, ríkisaðstoð vegna atvinnuörðugleika

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil í sambandi við afgreiðslu þessa máls leyfa mér að undirstrika þau ummæli hv. 6. landsk. þm., að til þess beri brýna nauðsyn, að Ísfirðingar njóti svipaðrar aðstöðu og gert er ráð fyrir í þáltill. þeirri, sem hér liggur fyrir til umr. og er flutt af tveim hæstv. ráðh., um að Alþingi heimili ríkisstj. að verja af ríkisfé allt að 1.5 millj. kr. í því skyni að koma upp hraðfrystihúsi á Siglufirði og ábyrgjast allt að 1.5 millj. kr. til þessara framkvæmda.

Það er alveg rétt, sem hv. 6. landsk. þm. hefur tekið fram, að aðstaða Ísfirðinga til að hagnýta sjávarafla sinn þarf að vera svo góð sem hægt er, og það er brýn nauðsyn, að þeir geti hagnýtt sér það, vegna þess að Ísfirðingar lifa að mestu leyti á sjávarútvegi og sjósókn. Ég vil einnig skýra frá því, að vegna þess, hversu mikið skortir á aðstöðu til að taka á móti fiski til vinnslu á Ísafirði, þá hafa þau atvinnutæki, sem þar eru rekin, ekki getað landað þar eins oft og miklum afla og þau hefðu óskað. Atvinnuaðstaðan á Ísafirði hefur undanfarin ár verið mjög erfið, og stafar það fyrst og fremst af því, að aflabrestur hefur verið á síldveiðum og þorskvertíð. Vegna þess, hversu aflinn hefur verið ótryggur, hefur borið brýna nauðsyn til að hagnýta þennan afla, sem bátar á staðnum fiska, og skapa með því atvinnu. Ég tel þess vegna, að mjög brýna nauðsyn beri til þess, að hlaupið verði undir bagga með Ísfirðingum, annaðhvort bæjarfélaginu í heild eða útgerðarmönnum á staðnum, um að koma þar upp nýju og fullkomnu fiskiðjuveri, sem er gamalt mál og margrætt þar á staðnum.

Um þetta atriði sé ég svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum. En ég get ekki látið fara fram hjá mér ummæli, sem féllu í ræðu hjá tveimur hv. þm., sem töluðu hér í gær. Hv. 6. landsk. þm. vildi draga úr þýðingu þess fyrir bæjarfélagið að hafa á síðastliðnu ári fengið einn hinna nýju togara, sem ríkisstj. hafði forustu um, að smíðaður var í Englandi. Hann lagði áherzlu á, að það hefði ekki verið bærinn eða bæjarsjóður, sem fékk þetta nýja skip. Þetta veit hv. þm., að er rétt. En það útgerðarfélag, sem fékk þetta skip er þannig skipað, að Ísafjarðarkaupstaður á reyndar meiri hlutann af hlutafé þess og kýs meiri hl. í stjórn fyrirtækisins. Ég fæ ekki séð annað en þetta þýði það, að bæjarsjóðurinn og kaupstaðurinn hafi öll tök á að stjórna þessu útgerðarfyrirtæki. Og ég verð að telja það í hæsta máta óviðeigandi, að hv. 4. þm. Reykv. skuli vera með svigurmæli hér, þó að einn af þeim þremur stjórnarmeðlimum, sem bærinn kýs, sé úr hópi sjálfstæðismanna. Hann segir, að þeir stjórnarmeðlimir, sem hluthafarnir hafa kosið, séu eingöngu sjálfstæðismenn, og hann hefur leyft sér að standa hér upp og segja, að þetta fyrirtæki sé ekki rekið með hag bæjarfélagsins fyrir augum. Ég vísa þessu algerlega á bug sem ástæðulausu. Mér skildist, að aðalrök hv. 6. landsk. þm. og hv. 4. þm. Reykv. fyrir þeirra staðhæfingu væru, að þetta fyrirtæki á Ísafirði sé ekki rekið með hag almennings fyrir augum og það hafi algerlega neitað að láta skip leggja upp fisk sinn til vinnslu á staðnum. Þetta var kjarninn í því, sem hv. þm. sögðu. En ég vil, að hv. þm. viti betur sannleikann um þetta mál. Ég vil upplýsa það, að frá 20. nóv. 1950 til sama tíma 1951 landaði togarinn Ísborg 4200 tonnum af fiski á Ísafirði. Til samanburðar má geta þess, að afli ísfirzku vélbátanna, sem gerðir voru út fyrir Ísafjarðarkaupstað á síðastl. vetri, var 1319 tonn, eða aðeins brot af því fiskmagni, sem þessi eini togari bæjarfélags Ísafjarðar landaði þar. Svo koma þessir hv. þm. og eru með svigurmæli, að það sé ekki rekið með hag almennings fyrir augum.

Ég vil einnig bæta því við, að togarinn Sólborg, sem er nýkominn og hefur aðeins farið tvær söluferðir til útlanda, hefur landað um 400 tonnum. Það var ætlunin að láta annan togarann fiska fyrir vinnslu í bænum, en þá skeði það óhapp, að skipið skemmdist í Hvalfirði og tafðist því frá að geta byrjað þessar veiðar strax. En nú hefur það lagt upp afla á Ísafirði.

Ég taldi rétt að leiðrétta þessi ummæli, sem hv. þm. höfðu hér og beinlínis miðuðu að því að afflytja þetta fyrirtæki við Alþingi og ríkisstj., sem hefur sýnt skilning á þörfum Ísfirðinga til að fá stórvirk fyrirtæki í bæinn. Þessir togarar á Ísafirði leggja upp mikinn hluta afla síns í bænum, og fyrirtæki þar hafa atvinnu af því. En svo hafa önnur sjónarmið komið til greina. Fyrirtækin hafa orðið að stefna að því að treysta sinn eigin hag, af því að Ísfirðingar hafa ekki gagn af því að hafa togara, sem er rekinn með halla.

Ég vil leggja áherzlu á það, að togarafélagið Ísfirðingur hefur reynt að haga rekstri skipa sinna þannig, að bæjarfélaginu, sjómönnum og almenningi í bænum yrði sem mest gagn að. Skipin hafa ekki landað eins miklu og ég og fleiri hefðu kosið. En það hefur engu að síður verið lagt upp mjög mikið fiskmagn til vinnslu þar.

Ég skal ekki fara að rifja upp sorgarsögu fiskiðjuversmálsins á Ísafirði. En ég kemst þó ekki hjá því að segja frá því, sem ég hafði afskipti af sem fulltrúi bæjarins á Ísafirði á sínum tíma. Þetta mál, sem hér liggur fyrir, hefur valdið óánægju heima fyrir, því miður. Það hafði verið fengið hjá nýbyggingarráði á sínum tíma nauðsynlegt loforð og lán til þessa fyrirtækis, en frá upphafi hefur verið rætt um, að stofnað yrði félag útgerðarmanna á Ísafirði og þeirra útgerðarfélaga, sem voru fyrir á staðnum. En þegar að því var komið að stofna þetta fyrirtæki og loforð fengið fyrir þessu, þá gerðust þau undur og óhöpp, að heill stjórnmálaflokkur í bænum fékk það hugboð, að ef þetta fyrirtæki ætti að stofna á þessum grundvelli, þá væri hreinn voði fyrir dyrum. Þetta var Alþýðuflokkurinn á Ísafirði. Urðu harðskeyttar deilur um þetta atriði, hvort hlutafélag eða samvinnufélag skyldi stofnað, og það varð til þess, að ekkert hefur orðið úr framkvæmdum, og þau lán, sem fengizt höfðu, eða leyfi fengizt fyrir, þau fengust nú ekki lengur. Og nú er ekkert fiskiðjuver á Ísafirði í dag. En ef þetta hefði ekki komið fyrir 1946 eða 1947, þá mundi fiskiðjuver vera starfandi á Ísafirði í dag. Ef þessi sundrungardraugur hefði ekki risið upp á Ísafirði og hv. 6. landsk. þm., sem nú hefur áhuga fyrir þessu máli, hefði ekki risið upp á móti því, þá væru góð atvinnufyrirtæki á Ísafirði nú og togararnir þyrftu ekki að landa afla sínum hér í Reykjavík.

Þetta er ljót saga en sorgleg, sem ég hef orðið að bera hér fram, vegna þess að hv. 6. landsk. þm. hefur farið með villandi upplýsingar frá heimahögum. En þrátt fyrir þessar villandi upplýsingar hv. þm. vil ég styðja hann til að koma þessu máli fram fyrir Ísfirðinga. Ég vil ekki láta þann loddaraleik, sem hann lék fyrir nokkrum árum, verða til þess að spilla fyrir þessu.

Ég vil svo ljúka máli mínu með því að beina þeim tilmælum til ríkisstj., að hún taki eins vel þessari málaleitan Ísfirðinga í þessu efni og frekast er unnt. Ég veit, að ríkisstj. er kunnugt um, að aðstaða Ísfirðinga hefur verið mjög slæm og að þörf er á þessu bjargráði á fleiri stöðum á Vestfjörðum en á Ísafirði. Leyfi ég mér því að bera þetta fram í sambandi við það mál, sem hér liggur fyrir.