17.01.1952
Sameinað þing: 34. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í D-deild Alþingistíðinda. (3274)

173. mál, ríkisaðstoð vegna atvinnuörðugleika

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég hef það mikil kynni af Siglufirði, þó að nú séu nær 10 ár síðan ég var þm. Siglfirðinga, að ég veit, að þessi till., sem hér er borin fram af tveim hæstv. ráðh., er ekki fram komin að ófyrirsynju, þó að það sé mál út af fyrir sig, hvort hægt sé að fara inn á þá braut, sem þarna er farið út á. Mér er sem sagt kunnugt um, að það ríkir að sumu leyti neyðarástand í þessum kaupstað af þeim ástæðum, er þegar hefur verið tekið fram, er málið var reifað, og ýmsum öðrum. En það var eins og vænta mátti og alltaf er hér á Alþ., að þegar fram kemur till. um að greiða úr fyrir einhverjum landshluta, bæ eða sveit, þá benda menn á aðra staði, þar sem sé jafnmikil þörf eða meiri. Nú er hér fram komin brtt. frá hv. 6. landsk. um, að Ísafjörður verði svipaðra fríðinda aðnjótandi og hér er farið fram á, að Siglufjörður fái. Ég hef minni kunnugleika á Ísafirði en Siglufirði, en ég efa ekki, að hv. flm. hafi skýrt rétt frá því atvinnuástandi, sem þar er, og vandræðum bæjarbúa vegna aflabrests og annarra óviðráðanlegra orsaka. Ég hygg aðeins, að það séu æðimargir staðir á landinu, sem svo má segja um, og í umr. hér í gær kom fram, að ríkisstj. þyrfti að líta eftir atvinnuástandinu hér í Reykjavík. — Mér er það hugstæðast, sem næst mér er, og vil í þessu sambandi benda á, að ég hygg, að atvinnuástandið í næsta kaupstað við Siglufjörð, Ólafsfirði, sé litlu betra en á Siglufirði, og þó játa ég með þökkum, að hæstv. stj. hefur að nokkru litið á þarfirnar þar, en samt virðist mér, að hún muni elska Siglufjörð meira en Ólafsfjörð. Siglufjörður virðist vera orðinn hennar eftirlætisbarn. Ég segi þetta ekki út af því, að ég álíti rétt að tengja alls konar viðauka við þessa till., sem tveir hæstv. ráðh. flytja hér, heldur segi ég þetta til að benda á, að ef farið er að bæta við till. á annað borð, þá eru fleiri staðir en Ísafjörður, sem koma til greina. — Annars er það áreiðanlega rannsóknarefni, hvað mikið ríkið á og getur blandað sér í þessi mál, þegar svo er komið, að ríkið er farið að hjálpa yfirleitt öllum landsmönnum á einn eða annan hátt. Sá hugsunarháttur að kalla stöðugt á ríkið getur ekki leitt til annars en ófarnaðar í þjóðfélaginu. Áður var siður, að fólk reyndi að bjarga sér sjálft í lengstu lög, en nú á ríkið að bjarga öllum, þó að fólk kalli sjálft yfir sig ófarnaðinn, eins og hv. þm. Barð. benti á.

Ég ætla ekki að lengja hér neitt umr. og ekki mæla neitt sérstaklega gegn þessari till., en vil boða það og er viss um, að fleiri taka undir það á sínum tíma, að ef tengja á eitt og annað aftan við þessa till., koma fram víðtækar kröfur, því að víða er slíkt ástand. — Það mætti segja, að þetta væri rökstuðningur fyrir að samþ. ekki till. hæstv. ráðh., en ég vil þó segja í því sambandi, að það er töluverður munur á, þó að hún sé samþ., eða ef nú á að lítið athuguðu máli að samþ. till., sem koma fram. Hæstv. stj. hefur langan tíma haft mál þetta til athugunar, um það hafa verið gerðar áætlanir og hún hefur fengið álit sérfróðra manna. Þessi till. er því öðruvísi undirbúin en till., sem nú kynnu að verða tengdar aftan í. — Orðlengi ég þetta svo ekki frekar, en boða, að ef mér sýnist, t. d. af störfum n., sem fær þetta mál til athugunar, að þetta mál verði gert víðtækara en það er borið fram, vil ég fá að vera með í dansinum, ekki af því, að ég álíti þann dans færan til lengdar, heldur af því, að þá þýðir ekki fyrir einstök byggðarlög að draga sig í hlé.