17.01.1952
Sameinað þing: 34. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í D-deild Alþingistíðinda. (3275)

173. mál, ríkisaðstoð vegna atvinnuörðugleika

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Það er náttúrlega alveg rétt, sem fram hefur komið við þessa umræðu, að æskilegt er, að hver og einn einstaklingur og bæjar- og sveitarfélög væru í hvívetna sjálfum sér bjargandi og frekar veitendur en þiggjendur og þyrftu aldrei að leita til ríkisins til framdráttar sínum atvinnuvegum. Get ég fullkomlega tekið undir þá ósk. Hins vegar, ef við athugum atvinnusögu síðari ára, þá er það, — ég voga ekki að segja því miður, því að ég er ekki viss um, hvort það orð á við, — þá er það svo í mörgum tilfellum, að orðið hefur að leita til ríkisins. Það hefði kannske verið betra, að þess hefði ekki þurft, en það er staðreynd, sem alltaf er erfitt að stangast við. Nú, svo er það þannig, að það er oft mikill vandi að haga svo sínum aðgerðum fyrir valdið, sem ræður í landinu, — í þessu tilfelli Alþingi, — að gera ekki of mikið upp á milli þegnanna. En það vita allir hv. þm., að verður að vera meginregla. Það, sem hér liggur fyrir, er það, að hæstv. ríkisstj. tekur þá ákvörðun, — þó að á pappírnum séu það tveir hæstv. ráðh., mun hæstv. ríkisstj. standa þar á bak við, — að gerð verði hjálparráðstöfun fyrir einn stað á landinu, þ. e. a. s., hún vill stuðla að því með lánum og ábyrgð, að Siglufjarðarbær hafi til umráða gott hraðfrystihús. Þetta mál er flutt hér af tveim hæstv. ráðh., og eiga hv. þm. svo að taka afstöðu til, hvort þeir vilja heimila þessa fjárveitingu. Ég veit ekki um hugarfar einstakra þm. til þessa máls, nema þeirra, sem tekið hafa til máls, en ég verð að segja, að eftir atvikum get ég ekki lagt á móti þessari hjálp.

Við höfum ljós dæmi þess nú, að stefna nýsköpunarstjórnarinnar að koma upp hraðfrystihúsum í sem flestum stærri bæjum hefur reynzt rétt. Það hefur sýnt sig nú á hinum síðari árum, að sú stefna hefur reynzt rétt í meginatriðum, þegar togararnir hafa nú undanfarin ár komið afla sínum í peninga með því að leggja hann þar upp og auk þess skaffað atvinnu á viðkomandi stöðum við vinnslu hans.

Og það er fleira en þetta, sem hefur sýnt, að þessi stefna var rétt, m. a. það, að Ameríkumarkaðinum var haldið opnum, enda þótt það hefði stundum í för með sér útgjöld úr ríkissjóði. Þetta var m. a. gert í tíð stjórnar Stefáns Jóh. Stefánssonar, og nú er svo komið, að við höfum náð þar nokkurri fótfestu, svo að nú seljum við allt að því fimmfalt magn af fiski á Ameríkumarkaði miðað við það, sem áður var, enda þótt nú sé það ekki að öllu leyti sama tegund fisks, sem um er að ræða. T. d. er karfinn nú kominn til sögunnar. En þessum dyrum höfum við góðu heilli haldið opnum, þó að það hafi stundum verið dýrt.

Nú er það rétt, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði áðan, — og að ég held einnig hv. þm. Barð., — að æskilegt væri, að ríkið skipti sér sem minnst af þessum málum. En það er eitt og aðeins eitt höfuðsjónarmið, sem verður að ráða í þessum efnum og það er það, að atvinnuleysið skelli ekki yfir. Þó að aðferðirnar í þessum málum séu ekki alltaf þær, sem við hefðum helzt kosið, þá verður hitt þyngra á metunum, ef ekkert verður að gert til að hjálpa fólkinu á þessum stöðum við að koma upp arðbærri atvinnu, svo að það þurfi ekki að búa í kulda og myrkri.

Það hefur verið minnzt á það við þessar umr., að Ísafjarðarbær, sem hefur svipaðan íbúafjölda og Siglufjörður, hafi átt þess kost á tímum nýsköpunarstjórnarinnar að koma sér upp fiskiðjuveri, en það er ekki það, sem við eigum að líta á hér. Ég býst við því, að Ísfirðingar hefðu getað þetta þá, en það er svo aftur á móti vitað mál, að margt af því, sem við vildum gera á þeim tíma, varð að sitja á hakanum sökum skorts á fé. Hér er því um að ræða tvo bæi með líkum íbúafjölda, kringum 3 þús. manns á hvorum stað. Annars vegar er Siglufjörður, sá gamli og mikli athafnabær, sem áður fyrr veitti fjölda fólks hvaðanæva af landinu mikla atvinnu og er því vissulega verður hjálpar, þótt illa ári í bili, svo að ekki fari þar allt í auðn. Hins vegar er svo Ísafjörður, sem á sér einnig langa og merkilega sögu. Nú hefur hv. 6. landsk. flutt hér brtt. um, að Ísafjörður verði sömu aðstoðar aðnjótandi og Siglufjörður. Hér heyrast raddir um, að ef þessar till. verði samþ., mundu margir á eftir koma. Ég býst ekki við, að hætta sé á, að svo verði. Á þessum tveim stöðum, sem hér er um að ræða, er margt sameiginlegt. Þar er skortur á hraðfrystihúsum, báðir ráða þeir yfir tveim nýsköpunartogurum, og eins og ég áður gat um, er íbúafjöldi þar svipaður. Ég veit, að atvinnuástandið á Ísafirði hlýtur að vera ákaflega slæmt, — engu betra en á Siglufirði, jafnvel verra, — þegar þess er gætt, hvernig gengið hefur með bátaútgerðina. (Forseti: Það er nú komið allmikið yfir venjulegan fundartíma, og vil ég spyrja hv. þm., hvort hann geti ekki lokið ræðu sinni á nokkrum mínútum. Annars verður framhald hennar að bíða þess, að fundur verði settur að nýju.) — Ég get lokið ræðu minni á skömmum tíma.

Það, sem hér er um að ræða, er það, að tveir af hæstv. ráðh. — ef til vil] ríkisstj. öll — hafa farið þess á leit við þingið, að það veiti heimild til að greiða 1.5 millj. kr. af ríkisfé til að koma upp hraðfrystihúsi á Siglufirði og ábyrgjast sömu upphæð til þessara framkvæmda. Þetta er að mínum dómi vel og drengilega gert. Það, sem hv. 6. landsk. fer fram á, er, að þessi upphæð sé tvöfölduð og látin gilda um báða staðina. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég vil glaður greiða fyrir því, að þessir tveir staðir verði þessarar hjálpar aðnjótandi, og ég get fullvissað hv. alþm. um það, að þegar um er að ræða að koma á fót móttökuskilyrðum fyrir afla úr tveim togurum, er þessi upphæð ekki svo hræðilega há í mínum augum, ef með henni er hægt að komast hjá því að láta þessa tvo bæi standa úti í kuldanum. — Ég held því, að þótt þetta verði gert fyrir þessa tvo stærstu bæi á Norður- og Vesturlandi, að Akureyri undanskilinni, þá sé vegna hinna sérstöku atvika á báðum þessum stöðum ekki mikil hætta á því, að aðrir komi á eftir. Mín skoðun er því sú, að þrátt fyrir þetta fordæmi sé ekki svo mikil hætta á því, að aðrir sigli í sama kjölfarið. Ég veit ekki, hvernig á að skilja ummæli hæstv. ráðh., þar sem hann gat þess, að ríkisstj. mundi ekki ætla sér að veita Ísafirði sömu aðstoð og hún hefur nú lagt til, að Siglufirði verði veitt. Ég vonast til, að ég hafi misskilið þessi ummæli, en ef svo er ekki, þá vil ég mælast til þess við hæstv. ríkisstj., að hún endurskoði afstöðu sína og að báðum þessum bæjum verði gert jafnhátt undir höfði. Það skiptir engu máli, þó að Siglufjarðarbær hafi komið með fleiri áætlanir og fleiri sérfræðinga. Við þurfum á engum sérfræðingum að halda til þess að skilja, hvernig atvinnuástandið á Ísafirði er nú. — [Fundarhlé.]