17.01.1952
Sameinað þing: 34. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í D-deild Alþingistíðinda. (3276)

173. mál, ríkisaðstoð vegna atvinnuörðugleika

Haraldur Guðmundsson:

Ég vil byrja mál mitt með því að þakka hæstv. forsrh. fyrir þær undirtektir, sem hann veitti fyrirspurn minni hér í gærkvöld, hvað ríkisstj. hefði í huga viðvíkjandi umbótum gagnvart atvinnuleysi hér í Reykjavík til bráðabirgða. Að vísu gaf hann ekki fyrirheit um annað en það, að nefnd fulltrúaráðs og fulltrúar þess mundu fá viðtal við ríkisstj. á morgun til þess að gera grein fyrir ástandinu og hverjar till. þeir hafi fram að bera til að bæta úr vandræðunum í bili. Ég vil leyfa mér að vænta þess, að þetta leiði til nokkurs árangurs, því að ég hygg, að ríkisstj. geti ekki lokað augunum fyrir því, að hér er um mikið nauðsynjamál að ræða og að það er algerlega ókleift og óverjandi — vil ég segja — að láta undir höfuð leggjast að sinna svo aðkallandi vandamáli. Þingið getur ekki lokið svo störfum að minni hyggju, að það gefi ekki stjórninni heimild til nauðsynlegra ráðstafana, sem óhjákvæmilega verður að gera vegna þessa ástands. Í samræmi við það vildi ég ásamt hv. 3. landsk. (GÞG) mega bera fram brtt. við tillögu þá, sem hér er til umræðu. Vona ég, að hæstv. forseti leyfi að ræða till., þó að hún sé ekki prentuð. Hún fer fram á það, að Alþ. skori á ríkisstj. að hlutast til um, að hraðfrystihúsum og fiskverkunarstöðvum í Reykjavík verði séð fyrir nægu rekstrarfé, til þess að togarar í Reykjavík geti lagt aflann í land til vinnslu, og iðnfyrirtæki þurfi ekki að fella niður starfsemi vegna skorts á rekstrarfé. Jafnframt beiti ríkisstj. sér fyrir því, að hafizt verði handa um byggingarframkvæmdir í Reykjavík, sem fé er veitt til í fjárlögum, svo sem byggingu iðnskóla, heilsuverndarstöðvar og bæjarspítala, og að gefinn verði frjáls innflutningur á nauðsynlegum hráefnum til íslenzks iðnaðar. Ríkisstj. sé enn fremur heimilað að verja úr ríkissjóði allt að 4 millj. kr. til þess að bæta úr atvinnuleysi í kaupstöðum á yfirstandandi ári gegn framlagi frá hlutaðeigandi sveitarstjórnum, eftir því sem ríkisstj. telur fært að ætla þeim að greiða.

Ég drap á meginefni þessarar tillögu í þeim fáu orðum, sem ég mælti hér í gærkvöld í sambandi við þetta sama mál. Þau ráð til bóta, sem ég nefndi þá og geri nokkru nánari grein fyrir í þessari till., eru aðeins miðuð við augnabliksaðgerðir til þess að bæta úr þeim vandræðum, sem nú er við að búa. Eins og ég drap á, er mér kunnugt, að um það hefur verið rætt milli bæjarstj. annars vegar og útgerðarfélaga í bænum hins vegar, að togarar legðu afla sinn hér upp til vinnslu og verkunar. Og það er enginn vafi, að slíkt yrðu stórfelldustu atvinnubæturnar hér í bænum og þær hagkvæmustu á allan hátt, ef framkvæmdar yrðu nú þegar. Því er borið við, að fyrirtækin geti þetta ekki vegna skorts á rekstrarfé, því að svo langt sé að bíða eftir, að verðmæti fáist fyrir aflann, með þeim lánakjörum, sem fyrirtækin njóta hjá bönkunum, sé ekki hægt að bíða svo lengi eftir andvirði fisksins. Þar sem hér er um að ræða hrein rekstrarlán, get ég með engu móti trúað, að hvað sem líður almennri útlánastarfsemi bankanna og ríkisstj., sé neitt því til fyrirstöðu, að unnt sé að kippa þessu í lag. Og ég verð að vænta þess, að ríkisstj. og bæjarstj. hlutist til um það og aðrir aðilar, sem hlut eiga að máli, að þessum hlutum verði kippt í lag hið bráðasta. Það, sem um er að ræða af verkun, er flökun, hraðfrysting, söltun og hirðing fisksins og vinnsla á úrgangi og annað, sem bezt á við. Hér er fjöldi stöðva, sem að þessu geta unnið. Og það ætti að vera auðvelt að koma þessu svo fyrir, að þær geti allar haft nokkurn veginn nóg að starfa.

Þá er einnig gert ráð fyrir því í þessari till., að ríkisstj. hlutist til um það, að iðnaðarfyrirtæki þurfi ekki að fella niður sína starfsemi vegna skorts á rekstrarfé. Að sjálfsögðu er miðað við fyrirtæki, sem eru lífvænleg og geta sett tryggingar fyrir sínum lánum. En nógu erfitt er fyrir íslenzka iðnaðinn nú, eins og margviðurkennt er, að halda uppi starfsemi sinni, þó að ekki bætist við aðra örðugleika, sem af viðskiptapólitík ríkisstj. hefur leitt, að rekstrarfé skorti. Ég verð að telja, að hæstv. ríkisstj. muni álíta sér skylt að sjá um, að fjármálum þjóðarinnar sé ekki stjórnað á þann veg, að til beinna óheilla horfi og til að draga úr atvinnu, heldur til að auka atvinnu og lífsbjörg í landinu.

Um síðari hluta tillgr. ætla ég, að ekki þurfi að fjölyrða. Þar er lagt fyrir ríkisstj. að greiða af hendi nú þegar þær fjárhæðir, sem veittar eru til byggingarframkvæmda hér í Reykjavík, þannig að nota megi þennan erfiðasta tíma ársins til að vinna við þær framkvæmdir, eins og innanhúsvinnu við iðnskólann og að einhverju leyti við heilsuverndarstöðina. Hér er ekki um annað að ræða en það sjálfsagðasta skipulagsatriði, að þessi vinna sé unnin á þeim tíma, sem bezt hentar, þ. e. á þeim tíma, sem erfitt er um útivinnu. Ég verð að vænta, að hæstv. ríkisstj. hlutist til um, að svo verði gert. og hagi útborgunum þannig. Hér er bent á nokkur verkefni, en fleiri eru til, sem ekki hefur verið bent á í þessu sambandi.

Þá er enn fremur í þessum hluta till. gert ráð fyrir, að frjáls verði gefinn innflutningur á nauðsynlegum efnivörum til íslenzks iðnaðar. Eins og ég hef þráfaldlega bent á í umr. um þessi mál að undanförnu, telja iðnfyrirtækin eina meginástæðu fyrir því, hversu erfitt er að halda áfram starfsemi þeirra margra, að samtímis því að fullunna varan er frjáls í innflutningi, eru efnivörurnar bundnar leyfum, sem sumpart er erfiðleikum bundið að fá og — það sem verst er — alls ekki fáanlegar til þessa frá öðrum löndum en „clearing“-löndum og eru bæði dýrari og óhentugri og lakari en völ er á annars staðar. Mér þykir auðsýnt, að það sé með öllu óverjandi að þyngja með þessum hætti hlut iðnaðarins í samkeppni við fullbúnar iðnaðarvörur. Hér getur ekki verið um stórar fjárhæðir að ræða. Og því verður ekki trúað, nema sé sýnt beinlínis með tölum, að ríkisstj. sé ekki þess umkomin og megnug að sjá um, að þessar nauðsynlegustu efnivörur fyrir iðnaðinn verði frjálsar til innflutnings, ekki síður en fullunna varan, sem þær eiga að keppa við.

Loks er svo gerð grein fyrir því í þessari tillögu, að ríkisstj. heimilist að verja allt að 4 millj. kr. til beinna atvinnubóta í kaupstöðum og kauptúnum, gegn því framlagi af hálfu sveitarsjóða, sem ríkisstj. telji þeim fært að greiða á móti. Við afgreiðslu fjárlaganna og einnig fyrr fluttum við Alþýðuflokksmenn till. um, að ríkissjóður verði 5 millj. kr. í þessu skyni. Þessi till. var felld, og tókum við hana því upp hér, þar sem gert er ráð fyrir nokkru lægri upphæð. Enn fremur höfum við ekki talið rétt að binda þetta fjárframlag þeim skilyrðum, að sveitarfélögin legðu jafnhá framlög á móti í sama skyni. Við teljum þó sjálfsagt og eðlilegt, að svo verði alls staðar þar, sem það er hægt, en ef fjárframlag ríkisins væri bundið slíku skilyrði, væri um að ræða sýnda veiði, en ekki gefna. Hins vegar væri rétt, ef þessi till. yrði samþ., að ríkisstjórnin gengi eftir því, að svo miklu leyti sem fært væri talið, að bæjarfélögin legðu sinn skerf á móti. Gæti framkvæmdin þ á verið þannig, að þessu fé yrði varið til þeirra framkvæmda, sem bæjarfélögin þyrftu nauðsynlega að koma á. Hvert bæjarfélag hefur gnægð slíkra verkefna, og með þessu móti væri hægt að koma þeim áleiðis, um leið og bætt væri úr atvinnuleysinu.

Ég hef nú skrifað þessa brtt., svo að hún geti fengið að fara með hinum till. til hv. fjvn., sem ég vona að gefi henni fullan gaum og taki hana til athugunar, en við hæstv. forseta vildi ég segja það, að ég er því ekki mótfallinn, að till. verði borin undir atkv. í tvennu lagi, ef þess skyldi verða óskað. Fyrri hluti till. er aðeins framkvæmdaratriði og krefst ekki neinna fjárútláta úr ríkissjóði, og má þá bera hann upp sér, en síðari hlutinn, sem er um fjárveitingu úr ríkissjóði, gæti þá verið borinn upp í öðru lagi. — Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þessa brtt. okkar hv. 3. landsk., þar sem hún er ljós í öllum atriðum. Ég þykist vita, að sú nefnd, sem hyggst ræða við ríkisstj. á morgun um hið slæma atvinnuástand hér, muni hafa svipaðar ráðagerðir í huga og þessi till. okkar stefnir að, þ. e. aðeins bráðabirgðaráðstafanir vegna atvinnuleysisins. Hvað hún hefur í huga viðvíkjandi framtíðarhorfum í þessu máli, skal ég ekkert segja um, en þessi brtt. okkar miðast sem sagt eingöngu við bráðabirgðaráðstafanir:

Hv. þm. N-Ísf. vék í ræðu sinni í dag nokkrum orðum að mér og hv. 6. 1andsk. og veitti mér ákúrur fyrir óþinglega framkomu. Hann sagði m. a., að ég hefði viðhaft í umr. óviðurkvæmileg svigurmæli um hluta af bæjarstjórn Ísafjarðar, og gerði mér upp þau orð í því sambandi, að ég hefði sagt, að stjórn togarafélagsins á Ísafirði hugsaði ekki um hagsmuni bæjarfélagsins í heild í sambandi við rekstur félagsins. Þetta er ekki rétt, en hitt sagði ég, að eins og stjórn togarafélagsins væri nú, þá virtist hún hugsa meira um hag félagsins, að honum væri sem bezt borgið, heldur en að auka atvinnu í bænum. Ég skal nú sýna fram á, að hér var ekki um svigurmæli að ræða, heldur rétt skýrt frá staðreyndum. Það er rétt, að bæjarsjóður er hluthafi í þessu útgerðarfélagi og á meiri hl. af hlutafénu, eða 480 .þús. kr. af 800 þúsundum. Stjórnina skipa þrír menn tilnefndir af bæjarstjórninni og tveir menn, sem eru fulltrúar hinna hluthafanna. Nú hefur það hins vegar sýnt sig, að í stjórninni hafa haft samstöðu um þetta mál tveir fulltrúar hluthafanna og fulltrúi Sjálfstfl. í bæjarstjórn. Hv. þm. upplýsti, að annar togari félagsins hefði á tímabilinu frá nóv. 1950 þar til í nóv. í haust lagt upp á Ísafirði rúm 4000 tonn af fiski. Ég skal ekki draga í efa, að hér er rétt með farið, en hitt er einkennilegt, að hv. þm. sér ekki ástæðu til að skýra frá því, hvað togarafélagið hafi gert í þessu efni frá því í nóv. í haust. Hvað hefur félagið látið leggja mikinn afla á land frá þeim tíma og þar til nú? Að gefnu tilefni gerði bæjarstjórn Ísafjarðar samþykkt um það í haust, að lagt yrði fyrir alla fulltrúa hennar í stjórn togarafélagsins, að þeir ynnu að því, að togararnir legðu upp afla sinn til vinnslu í bænum. Þegar þetta mál kom svo fyrir stjórn togarafélagsins, fór svo, að einn fulltrúi bæjarfélagsins greiddi ekki atkv. eins og bæjarstjórnin hafði fyrir lagt. Þetta eru aðeins blákaldar staðreyndir, en engin svigurmæli. — Ég gat þess í ræðu minni í gær, að aðstaða til að leggja afla á land á Ísafirði er óhentug, vegna þess að frystihús staðarins eru þess ekki umkomin að taka við öllum afla skipanna, og þarf því að keyra aflann til annarra staða í kring til vinnslu, til Hnífsdals eða Bolungavíkur. Það er að sjálfsögðu framkvæmanlegt, en er bara æðimiklu dýrara. En síðan í haust, að þessi samþykkt var gerð í bæjarstjórn Ísfirðinga, er mér sagt, að togararnir hafi tvisvar sinnum lagt svolítinn afla upp á Ísafirði. Annar var sendur til Grænlands og hinn til Danmerkur, annar til Patreksfjarðar, en hinn til Englands og svo framvegis. Þannig hefur þetta verið frá því í nóvember í haust. Ég er ekki að tala um það, hvað hyggilegast hefði verið að gera í þessu efni frá sjónarmiði togarafélagsins, hvað bezt var hagsmunum þess, heldur hvað hyggilegast var með atvinnuástandið á Ísafirði fyrir augum. Það var þetta, sem ég vildi benda á. Og brtt. hv. 6. landsk. byggist á því, að hraðfrystihúsi verði komið upp á Ísafirði, svo að ekkert verði því til fyrirstöðu, að togararnir geti lagt upp afla sinn á Ísafirði. Annars sé ég ekki ástæðu til þess að fara að ræða hér um bæjarstjórnarmál á Ísafirði, um undirbúning að byggingu fiskiðjuvers á Ísafirði sem hv. þm. sagði um, að það væri nú áreiðanlega komið á bezta veg, ef sundrungardraugurinn, hv. 6. landsk., hefði ekki risið upp og komið í veg fyrir það. Mér þykir rétt að upplýsa það, að það, sem um var deilt í sambandi við stofnun þessa fiskiðjuvers, var það, hvort fyrirtækið skyldi rekið á samvinnugrundvelli með samvinnu bæjarfélagsins og sjómanna á staðnum eða hvort það skyldi rekið af hlutafélagi. Það var þetta, sem um var deilt. Flokksmenn hv. þm. N-Ísf. töldu rétt að hafa það í hlutafélagsformi, en Alþýðuflokksmenn vildu reka það á samvinnugrundvelli, þannig að sjómenn ætu greiðan aðgang að þátttöku í félaginu. Það var svo vilji hv. þm. N-Ísf. og flokksmanna hans, sem varð ofan á, og útkoman hefur svo orðið sú, að ekki hefur orðið meira úr framkvæmdunum en það, að ekki hefur verið gert handtak, enda upplýsir hv. 6. landsk. að byggt hafi verið á útgerð báta, sem seldir hafi verið til annarrar heimsálfu. — Ég skal svo ekki lengja frekar umr. um þetta atriði, en vil aðeins benda á í sambandi við till. hv. 6. landsk., að nú, ef endurbyggt verður fiskiðjuver á Ísafirði, þá er sá þáttur þessa máls kominn á sæmilegan grundvöll, en annar þáttur málsins verður þó enn óleystur, sem sé að byggja niðursuðuverksmiðju á staðnum. Í sambandi við brtt. hv. 6. landsk. væri æskilegt, að báðar þessar aðgerðir væru hafðar í huga. Ég vil svo mega vænta þess, að sú hv. nefnd, sem fær þessar brtt. til athugunar, sjái sér fært að fallast á þessar till. okkar Alþýðuflokksmanna, því að ég vil ekki trúa, að það sé rétt, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði, að svo liti út sem Siglufjörður væri sérstakt eftirlætisbarn hæstv. ríkisstj. Ég vil í lengstu lög trúa því, að öll börnin séu henni jafnkær og að hún sé jafnglöggskyggn á ástand annarra staða sem Siglufjarðar.