23.01.1952
Sameinað þing: 35. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í D-deild Alþingistíðinda. (3285)

173. mál, ríkisaðstoð vegna atvinnuörðugleika

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að vekja athygli á mjög ánægjulegri þróun, sem fram hefur farið í þessu máli frá því fyrir jól. Fyrir jólin voru felldar till. frá Sósfl., brtt. við fjárl. um 9 millj. kr. framlag til atvinnu- og framleiðsluaukningar, og virtist þá ekki verulegur skilningur á því, hve hættulegt ástand væri fram undan. Hins vegar í janúar, þegar þingið kemur saman aftur, þá bera hæstv. forsrh. og hæstv. atvmrh., form. Sjálfstfl., fram þáltill., sem hér var til umr., sérstaklega viðvíkjandi atvinnulífinu á Siglufirði, um að verja til þess 1½ millj., og nú þegar hv. fjvn. fær þetta til athugunar, þá bætir hún úr þessu, þar sem hún leggur til, að þessi heimild verði 4 millj., með þeirri till., sem hér liggur fyrir.

Það er þannig auðséð, að það er vaxandi skilningur á því, hver vá er fyrir dyrum og hver þörf er á því, að Alþ. reyni að bæta úr, og ég verð að segja, að svo framarlega sem þingið ekki fari heim, þá efast ég ekki um, að það yrði bætt við þessa upphæð. Ég vil hins vegar lýsa yfir ánægju minni yfir þeirri breyt. til bóta, sem þegar er orðin í sambandi við till. hæstv. forsrh. og hæstv. atvmrh., og í öðru lagi þeirri endurbót, sem hv. fjvn. hefur gert á henni. Ég vildi hins vegar um leið mega treysta því, að hæstv. ríkisstj., — og það er hægt fyrir hana án þess, að það kosti hana eða ríkið einn eyri, geri þarna á allmikla endurbót til viðbótar eins og lagt er til í því þingmáli, sem næst er á undan þessari þáltill. og er síðasta mál á dagskrá, till., sem er flutt um ráðstafanir til að draga úr atvinnuleysinu. Ég vil vekja athygli hæstv. ríkisstj. á því, sem þar er farið fram á, þ. e. að gefa frjálsan innflutning til iðnaðarins og á byggingarefni til að byggja íbúðarhús. Þetta eru ráðstafanir, sem ekki kosta ríkisstj. einn eyri, en mundu gefa henni nokkurt fé í ríkissjóð og hjálpa til þess að auka atvinnulífið.

Ég tók eftir því við umr. um þetta mál síðast, að hv. 1. þm. Eyf. sagði, að það væri alltaf kallað á ríkið, og var að átelja þá afstöðu manna. En ég vil vekja athygli á því, að það er máske ekki óeðlilegt að kalla á ríkið, þegar ekkert er hægt að fá gert án ríkisins. Þarna er farið fram á í okkar brtt. og okkar þáltill., að ríkið leyfi fólkinu að bjarga sér sjálft, leyfi að flytja inn byggingarefni, ef það framleiðir gjaldeyri til þess að kaupa það, leyfi því að flytja inn hráefni til iðnaðarins og stuðla að eðlilegri lánastarfsemi. Það er ekki farið fram á mikið, en það mundi auka atvinnulífið, ef við því væri orðið. En meðan ríkið heldur þessari harðvítugu einokun á innflutningi og útflutningi og bannar þannig fólkinu að bjarga sér sjálft, þá er ekki óeðlilegt að kalla á ríkið. Ég held, enda þótt við sjáum fram á, að sú till., sem ýmsir þm. Framsfl. hafa flutt um einokunina á saltfiskinum, muni eiga að fá að deyja drottni sínum, að það væri ákaflega æskilegt, að ríkisstj., um leið og hún nú sýnir nokkurn vilja til þess að leggja fram peninga til þess að bæta úr atvinnuleysinu, gæfi fólkinu frelsi til þess að bæta úr sínu atvinnuleysi sjálft, í hvaða formi sem fólkið kýs að gera það. Ég vildi aðeins, um leið og þessi þáltill. var til umr., m. a. vegna þess, að komið er að síðustu dögum þingsins og það er máske ekki víst, að till., sem hér liggur fyrir og er á dagskrá, komi til umr., eindregið skjóta því til hæstv. ríkisstj. að taka þessi mál til athugunar, vegna þess að það, sem t. d. felst í okkar þáltill., það er allt á hennar valdi að gera án þál., þar sem þarna er farið fram á frelsi, sem hún getur gefið sjálf samkvæmt heimildum, sem hún hefur í 1. Það væri dálítið slæmt tákn um ástandið í landinu, ef það væri komið þannig, að það væri orðið hægara að toga peninga út úr ríkisstj. en að fá frelsi handa landsmönnum til að mega vinna. Það væru þá orðnir undarlega sterkir hagsmunir, sem stæðu að einokuninni í landinu, ef svo væri komið, því að mönnum hefur verið sárt um peninga og hefur þurft mikið til að fá þá fram.

Að öðru leyti vil ég lýsa ánægju minni yfir þeirri breyt., sem orðin er á þáltill., þó að ég þykist vita, að það þýði ekki að fara fram á meira nú, þótt það aftur á móti, ef þingið sæti lengur, mundi ef til vill fást fram.