23.01.1952
Sameinað þing: 35. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í D-deild Alþingistíðinda. (3294)

175. mál, tollendurgreiðsla vegna skipasmíða

Frsm. (Pétur Ottesen):

Ég get um þessa till. látið nægja að skírskota til þess, sem fyrsti flm. hennar sagði við fyrri umr. hennar. Hún er flutt að tilhlutun ríkisstj., en við afgreiðslu fjárlaganna hafði komið fram till. um að bæta skipasmíðastöðvum að nokkru það tjón, sem þær urðu fyrir vegna smíða á skipum fyrir ríkisstj. á árunum 1945–49, og varð þá að samkomulagi að taka till. aftur til nýrrar athugunar. Sú athugun leiddi svo til þess, að ríkisstj. komst að þeirri niðurstöðu, að sanngjarnt væri, að skipasmíðastöðvunum, sem þarna eiga í hlut, væri endurgreiddur tollur af efni og tækjum, sem inn var flutt til smíðanna á þeim skipum, sem þessar skipasmíðastöðvar byggðu fyrir ríkisstj., og væri þeim þannig bætt upp að einhverju leyti það tjón, sem þær urðu fyrir vegna þessara smíða. — Fjvn. leggur einróma til, að till. verði samþ.