10.10.1951
Neðri deild: 8. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (33)

40. mál, lántaka vegna áburðarverksmiðjunnar

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það var síður en svo vegna þess, að ég vildi tefja fyrir samþykkt þessarar lántökuheimildar, að ég óskaði eftir við ráðh., að þetta mál yrði látið fara til fjhn., þó að fyrsta málið á dagskránni færi nefndarlaust í gegn. En ég álít, að það séu vissir hlutir óklárir viðvíkjandi l. um áburðarverksmiðju. Ég hef áður vakið máls á því, að mér finnst þau l. ekki nógu öruggur fjárhagslegur grundvöllur, t.d. í hvers eign þessi verksmiðja sé og hvernig hún muni rekin.

Í þessu frv. segir svo í 1. gr.: „Ríkisstj. er heimilt að taka að láni allt að 16 millj. króna eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendum gjaldeyri og endurlána Áburðarverksmiðjunni h/f með sömu kjörum og lánið er tekið.“ — Í l. um áburðarverksmiðju er slíkt fyrirtæki hvergi nefnt á nafn, nema sem eins konar aukamöguleiki í 13. gr. Og ég býst við, að þeir þm., sem voru á þingi þegar það frv. var samþ., muni, að 13. gr. var sett inn við 3. umr. í Ed. og kom til einnar umr. í Nd. Frv. var gerbreytt í þessari meðferð. Í 13. gr. er ekki neitt nafn á því fyrirtæki, sem skuli reka verksmiðjuna, og eftir því, sem hæstv. landbrh. lýsti yfir, ekki vitað, hver skuli eiga hana.

Í 13. gr. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Ef slík framlög nema minnst 4 milljónum króna, leggur ríkissjóður fram hlutafé, sem þá vantar til, að hlutaféð verði alls 10 milljónir kr., og skal verksmiðjan þá rekin sem hlutafélag.“ M.ö.o., einu lagaafskiptin af þessu eru, að verksmiðjan skuli rekin sem hlutafélag, en engin fyrirmæli um, hverra eign þetta hlutafélag skuli vera, en hins vegar í 3. gr. tekið fram, að verksmiðjan sé sjálfeignarstofnun.

Ég álít, að l., eins og þau mæla fyrir nú. heimili aðeins, að þetta hlutafélag hafi með rekstur verksmiðjunnar að gera, en bæði bókstafur og andi l. sé þess efnis, að verksmiðjan sé eign ríkisins. Og ég vil í því sambandi vekja athygli á því, að það væri í raun og veru allundarleg meðferð á fé og lánstrausti og lánveitingum ríkisins, ef þetta ætti að vera öðruvísi. Hlutafélagið, sem hér um ræðir, á að hafa 10 milljóna kapítal. Þar af leggur ríkið fram 6 milljónir, en félög og einstakir aðilar 4 milljónir. Hvað kemur áburðarverksmiðjan til með að kosta? Ef til vill 70–80 milljónir. En í frv., sem fyrir liggur, er byrjað með því að ákvarða, að lagðar skuli fram 16 millj. af hálfu ríkisins, sem það tekur að láni og ábyrgist. Síðan er gengið út frá að lána þetta til hlutafélags, sem hefur kapítal upp á 10 milljónir. Ef haldið er áfram á sama hátt og þeir einstöku hluthafar útvega ekki meira en þeir nú hafa gert, og geri ég ráð fyrir, að það sé fullerfitt, þá heldur ríkið áfram með óafturkræft framlag samkv. 2. gr., þar til upphæðin verður milli 70 og 80 milljónir kr.. með ýmsum lánum og ríkissjóðsframlagi. Þeir aðilar, sem lagt hafa þá fram 4 milljónir, munu hafa allmikla aðstöðu til áhrifa, og það er ekki víst, að þeir hagsmunir, sem bornir verða fyrir brjósti, verði fyrst og fremst hagsmunir ríkísins. Hitt er gefið, að gangi þetta fyrirtæki vel, hlýtur það að skapa þeim yfirráðandi aðilum óeðlilega mikil völd og fjárhagslega aðstöðu miðað við hlutaféð, sem þeir hafa lagt fram. Kann þetta að verða deilumál fyrir dómstólum, þar sem kæmi til að meta hlutabréf þessara hluthafa og fjárhagslega aðstöðu í samræmi við þau. Ég álit þess vegna, að það væri heppilegast í sambandi við þetta mál, án þess að ég ætli mér nokkuð að tefja fyrir þessu frv., að fjhn. athugaði svolítið um þetta og fengi tækifæri til að ræða við ríkisstj. um frágang þessa máls og reynt verði þannig að athuga, hvernig þessu verði bezt fyrir komið.

Ég vil henda á eitt atriði. Segjum, að við ættum eftir að byggja við þessa verksmiðju, sem nú er fyrirhuguð, — segjum, að það ætti t.d. að gera hana helmingi stærri og e.t.v. þannig, að það yrði þá ríkið eitt, sem legði fram féð. Væri þá eðlilegt, að þessu sama hlutafélagi væri falin slík stjórn, þar sem ríkið ætti fyrirtækið að mestu leyti? Ég álít, að slíkt kæmi ekki til nokkurra mála og að úr því gæti aldrei orðið annað en tóm vitleysa, ef það væri ekki lagað strax í upphafi. Þegar fyrsta stórlánið er veitt til þessarar verksmiðju, finnst mér að væri rétt, að menn reyndu að koma sér niður á, hvernig þessu yrði kippt í lag. — Þetta vildi ég aðeins minnast á um leið og málið færi til nefndar.