23.01.1952
Sameinað þing: 36. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í D-deild Alþingistíðinda. (3305)

165. mál, hótelhúsnæði

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég vildi aðeins í sambandi við það, sem kom fram hjá hv. þm. Hafnf., er hann gat þess, að ekkert fé væri til að reisa umtalað hótel, láta það koma skýrt fram, að með þessari þáltill., sem hér er um að ræða, er að sjálfsögðu aðeins um bráðabirgðalausn að ræða, en hitt bíður svo, að reisa vandað framtíðarhótel. Það er nauðsynlegt að gera sér ljóst, að hér er aðeins um smávægilega bráðabirgðalausn að ræða á máli, sem er stórt og aðkallandi. Það verður einhvern veginn að finna fé til framtíðarlausnar á þessu máli eða búa þá þannig að þessum atvinnurekstri, að einkafjármagnið leiti til þess að koma upp gistihúsum. Það er sá galli, sem við búum við í þessum efnum, að með veitingaskatti og öðrum gjöldum er drepinn allur áhugi manna til þess að leggja fé sitt í þennan atvinnurekstur, og það er ekki fyrr en úrlausn fæst á þessu, að gistihúsamálum okkar er borgið. Þetta vildi ég aðeins láta koma hér fram.