17.01.1952
Sameinað þing: 34. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í D-deild Alþingistíðinda. (3309)

126. mál, ódýrir sumargististaðir

Flm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Þessari till. var útbýtt í nóvembermánuði, en af einhverjum ástæðum, sem mér eru ekki kunnar, hefur hún ekki komið til umr. fyrr. Er ég þakklát hæstv. forseta fyrir að taka hana á dagskrá nú.

Ég mun ekki hafa langt mál um þessa till. Aðalósk mín er, að hún komist til nefndar til athugunar, ef vinnast mætti tími til að fá hana afgr. En aðalefni hennar er það að skora á ríkisstj. að fela Ferðaskrifstofu ríkisins að athuga möguleika til að setja á stofn og starfrækja ódýra sumargististaði, en nánar segir í till. og einkum í grg. hennar, hvernig fyrirkomulagið er hugsað, nefnilega að notaðir séu staðir, sem til eru og hafa að bjóða svefndýnur og eldunartæki. Sé fólki leyft að hafa þar sína eigin matseld, koma með sinn eigin útbúnað. Þarf þá ekkert að gjalda til starfsfólks á staðnum. Getur fólk haft sitt fæði miklu ódýrara með þessu móti. Sannleikurinn er sá, að það er ekki fyrir fátækt fólk hér á landi að búa á gististöðum. Það vita allir, og þarf ekki að rökstyðja þá staðhæfingu. Fólk hefur mikið notað sér fram að þessu að búa hjá vinum og ættingjum í sveit í sumarleyfum sínum. En það er æ að verða erfiðara og erfiðara með aukinni fólksfæð á heimilum, svo að menn eru að hliðra sér hjá því að bæta sér á slík heimili sem gestir. Einasta ráðið virðist því vera að gera tilraun til þess á einhvern hátt sem ég ætlast ekki til, að kosti ríkið neitt fjárhagslega, heldur aðeins skipulagningu og athugun, að koma málum svo fyrir, að það fólk, sem hefur ekki ráð á eða óskar ekki að búa á venjulegum gististöðum fyrir það verð, sem þar skal greiða, eigi þess kost að búa við nokkru ódýrari kjör.

Nú er mér það ljóst, að þetta mál er miklu stærra en hér er markað. En ég hef þó kosið að takmarka það við það, sem segir í till. og nánar er tiltekið í grg., vegna þess að ég þekki slíkt fyrirkomulag af eigin reynd, sem stungið er upp á, og veit, að það getur gefizt vel.

Ég leyfi mér svo að óska þess, að till. fari til hv. allshn. Vildi ég mega vænta þess, að allshn. sjái sér fært að láta till. fylgjast með tillögu, sem afgr. var til hennar í gær um ekki óskylt efni, þ. e. a. s. um hótelrekstur, því að ég álít, að þessar tvær till. séu að nokkru leyti hliðstæðar, þó að efni þeirra sé ekki að öðru leyti það sama.