19.10.1951
Neðri deild: 15. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í D-deild Alþingistíðinda. (3319)

13. mál, lánveitingamál bankanna

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja, hversu erfitt það hefur verið að undanförnu að afla lánsfjár. Nú hefur viljað svo til síðustu vikurnar, að till. hafa komið fram hér á Alþ. um ýmsar aðferðir til þess að leitast við að ráða nokkra bót á lánsvandræðunum, sem verða æ ískyggilegri með hverjum degi, sem líður. Til þess að sýna, í hvert óefni er nú komið, þarf ekki aðra sönnun en hina geigvænlegu lánsfjárkreppu. Í umr., sem fram hafa farið hér á Alþ., hafa allir orðið sammála um það, að ekki væri hægt að fá lánaða peninga í lánsstofnunum út á hús. Slíkt mun vera mjög erfitt eða alls ekki hægt. Í öðru lagi hefur verið mikil tregða um lán til verzlunar og viðskipta almennt. Bankar munu heimta 50% tryggingar af vörum. Slíkt er nú orðið ástandið á öllum sviðum verzlunar og viðskipta. Lánsfjártregða bankanna er nú orðin svo geigvænleg, að hætta er á því, að sjálf blóðrás þjóðfélagsins stöðvist, — atvinnurekstur, verzlun og viðskipti. Þetta ástand, sem nú hefur skapazt, er staðreynd og er almennt viðurkennt. Ef litið er í Hagtíðindin, þá má bera þar saman nokkrar tölur og að nokkru sjá, hvernig þetta ástand hefur smám saman skapazt. Tölur Hagtíðindanna eru að vísu undanþegnar vissum sveiflum. Útlán bankanna í desembermánuði 1948 eru 904 millj. kr., í desember 1950 1068 millj. kr., í ágúst 1949 1015 millj, kr., í ágúst 1950 1066 millj. kr. og í ágústmánuði 1951 1278 millj. kr. M. ö. o., miðað við ágústmánuð fyrir gengislækkunina og ágúst árið 1951 hefur heildarupphæð útlánanna hækkað um aðeins 30%. Ég skal ekki segja eða fullyrða neitt um, hvernig sveiflurnar verka, en vegna gengislækkunarinnar hefðu útlánin átt að hækka um 72%, en í stað þess er dregið úr útlánunum og þau aðeins aukin um 30%. — Hverjar verða svo afleiðingarnar, er svo er farið að? Í fyrsta lagi hafa byggingar stöðvazt, og nú er ábyrgðinni hrundið yfir á Alþ. að hjálpa til. Nú verða hv. þm. að gera sér það ljóst, að ekki er nóg að koma með frv., en þeim ber að tryggja framkvæmd þeirra l., sem fyrir hendi eru, og eru t. d. til ágæt lög um verkamannabústaði. Í öðru lagi vofir yfir hrun á meðal fjölda bjargálna manna. Þeir eiga á hættu að missa báta sína eða verkstæði, íbúðarhús o. s. frv. Nú er verkalýðurinn, miðstéttirnar og atvinnurekendastéttin í bráðri hættu. Þannig virðist miðað að því að sverfa sem mest að stéttum bjargálna manna í landinu. Þetta miðar að því að féflétta fjöldann. Nú er ekki verið að fara út í það, hverjir og af hvaða stétt þeir eru, sem missa eignir sínar. Nú vofir yfir stöðvun jafnt hjá stóratvinnurekendum, millistéttunum og þeim, sem stunda verzlun og viðskipti. Til þess að sannfærast um ástandið og hversu ískyggilegt það er nú orðið, þurfa hv. þdm. ekki annað en að ná tali af einhverjum atvinnurekandanum. Það er bersýnilegt, að ef svona verður haldið áfram niður á við, þá mun ástandið enn versna, og afleiðingin verður hrun, heimatilbúið hrun og skapað hér innanlands, sem bitnar ekki siður á bændum og verkamönnum en öllum þorra atvinnurekenda. Nú er erfitt að sjá, hverjum það sé til góðs og hvað sé að vinna með því að láta reka slíka lánapólitík. Það er fyrirbæri, sem er á valdi bankavaldsins, hvers konar bankapólitík er rekin í landinu. Sú pólitík, sem nú hefur verið tekin upp í fjármálum, er óeðlileg og skaðleg. Íslenzkt þjóðfélag er enn ungt, og ákaflega mikið hefur verið unnið hér á landi síðustu áratugi, miðað við það, sem er og verið hefur annars staðar hjá eldri og stærri þjóðum. Sú kynslóð, sem nú byggir land okkar, kom að því og tók við því sem féflettri nýlendu. Það er ákaflega nauðsynlegt fyrir okkar kynslóð að byggja landið upp og leggja mikið fé í varanleg verðmæti og festa mikið fé í arðbærum atvinnurekstri.

Harðvítug fjárfesting í þjóðfélagi okkar er eðlileg og óhjákvæmileg. Þjóðfélag okkar er nú á því skeiði, að viðhorfið er algerlega andstætt við gömul þjóðfélög, t. d. brezkt eða amerískt. Í þeim löndum hefur verið unnið í aldir að verkefnum, sem við höfum rétt hafizt handa með á síðustu áratugum. Allir, sem þekkja þarfir Íslendinga, ættu að geta séð, að við verðum að reka aðra fjármálapólitík en löndin, sem eru í kringum okkur. Þau hafa sína hægfara fjármálapólitík, sem þeim hentar að reka.

Nú er okkur Íslendingum skyndilega boðuð ný stefna í þessum málum. Hún er borin fram og studd af lærdómi og utanaðkomandi, erlendu peningavaldi. Nú er boðað: Fjárfesting er hættuleg. — Það er jafnvel hættulegt talið, að menn byggi yfir sig hús og eignist þak yfir höfuðið. Það er hrópað: Þjóðfélagið vantar jafnvægisástand. — Það getur verið gott og blessað, að reynt sé að halda sem mestu jafnvægi, en slík hægfara fjármálapólitík hentar ríkari þjóðfélögum en okkar, t. d. Bretum og Bandaríkjamönnum. Það mun sérstaklega vera einn maður, sem verið hefur trúnaðarmaður alþjóðabankans, sem boðað hefur þessa nýju stefnu í fjármálapólitík Íslendinga, dr. Benjamín Eiríksson, núverandi ráðunautur hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum. Hann kemur hingað til lands að beiðni ríkisstj. og undirbýr gengislækkunarl. og boðar hina nýju, hægfara fjármálastefnu. Í grg. fyrir gengislækkunarfrv. ber hann hana fram í vísindalegum útreikningum, og dr. Benjamín krefst þess, að þessi hættulega stefna verði upp tekin. Nú er reynslan af þessari svo mjög lofuðu jafnvægisstefnu að koma í ljós. Þótt afleiðingarnar séu ekki enn nema að nokkru leyti komnar í ljós, þá sýnir það sig, að hún hentar ekki okkur, kennsla þessara hálærðu manna. Þeir hafa lært þessi vísindi í þjóðfélagi, þar sem þetta kann að passa, en þegar þeir koma með þetta hingað til okkar, þá eru það fræði, sem ekki passa. Það er ekki þessara manna að segja um það, hvort sú fjármálastefna, sem verið hefur á Íslandi á undanförnum árum, sé rétt eða röng. Ég álít, að sú lánsfjárkreppa, sem nú er, sé afleiðing af rangri stefnu, sem tekin hefur verið upp og Benjamín Eiríksson hefur beitt sér fyrir. Nú skal ég viðurkenna það, að þessi stefna hefur verið skipulögð og framkvæmd af háttv. fjárhagsráði samkvæmt fyrirmælum alþjóðabankans, sem greinilega kom fram í bréfi fjárhagsráðs, er ég gat hér í d. fyrir skömmu. Nú vil ég segja það, að þótt skjallega liggi fyrir slík skilyrði, sett af hálfu annarrar stofnunar, er það í mínum augum ekki fullgild sönnun fyrir heimild þeirrar stofnunar til þess að hafa afskipti af þessum málum. Þessi stofnun (alþjóðabankinn) hefur haft Benjamín Eiríksson fyrir sinn trúnaðarmann, og síðan hefur núv. ríkisstj. einnig haft þennan sama Benjamín Eiríksson fyrir sinn trúnaðarmann í fjárhags- og viðskiptamálum. Við þekkjum það frá dögum konungsvaldsins; þá valt mikið á því, hvernig embættismennirnir túlkuðu okkar mál við konung. Og mér er nær að halda, að þess gæti fullmikið hjá Benjamín Eiríkssyni, að hann skapi sér sínar eigin stofulærdómshugmyndir, án þess að málið sé rætt á Alþingi. Ég held þess vegna, að það sé ákaflega tæpt að byggja núverandi stefnu í lánsfjármálum á áliti eins hagfræðings, hversu vitur sem hann kann að vera, og láta allt þjóðfélagið líða undir tilraunum með þessa jafnvægisstefnu. Mér finnst, að verið sé að fara með okkur líkt og hvítar mýs á tilraunastofu. Það er ekki verið að þjóna heill þjóðfélagsins með því að fá einum manni svo mikil völd í hendur, enda liggur nú við stöðvun á öllum atvinnuvegum í okkar þjóðfélagi.

Þótt sýnt hafi verið fram á rangan útreikning í sambandi við gengislækkunarl. í fjhn. Nd., þá hefur ekkert tillit verið tekið til þess, heldur bara þjösnazt áfram. Nú er svo komið, að allt þjóðfélagið stynur undan þessum álögum. Allir kvarta, allir flokkar leggja fram till. á Alþ. til úrbóta, en samt er þetta allt látið halda áfram.

Það, sem veldur því, að ég hef borið þessa till. fram, er það, að mér hefur borizt til eyrna, að Benjamín Eiríksson hafi verið með afskipti af því, hve mikið er lánað til íbúðarhúsabygginga. Hvaðan kemur honum vald til slíks? Í umboði hvers er Benjamín Eiríksson að skipta sér af slíku? Gerir hann það með valdi ríkisstj., eða er hann kannske sem embættismaður ríkisstj. með eitthvert annað vald á bak við sig? Ég veit ekki, hvort þetta, sem ég er að segja hér, er rétt, en ég vil, að það gefist tækifæri til að rannsaka, hvort svo sé. Komi það í ljós, að þetta hafi ekki við neitt að styðjast, þá er það ágætt og á svo að vera. Komi það hins vegar í ljós, að Benjamín Eiríksson sé að reyna að hafa áhrif á lánastarfsemina, án þess að hafa til þess leyfi ríkisstj., þá er hér vissulega tilefni til rannsóknar. Mér datt nú í hug, er ég heyrði um ráðningu Benjamíns Eiríkssonar, frásögnin um gríska spekinginn, er hann var seldur mansali og sagði: „Hver vill kaupa sér herra?“ Mér datt í hug, hvort Benjamín Eiríksson héldi, að hann ætti að ráða þessum málum, án þess að væri um það spurt. Hinn 1. maí var Benjamín Eiríksson settur í nefnd til að rannsaka bankalöggjöfina, en daginn áður, eða 30. apríl, eru sett ný ákvæði í landsbankalögin. Það var eins og hér væri komin ný hönd, sem stjórnaði. Þegar það var einnig opinbert leyndarmál um sama leyti, að það ætti að gera Benjamín Eiríksson að aðalbankastjóra seðlabankans, fannst mér tilefni fyrir þessa d. að taka þetta mál til rannsóknar. Ef þetta er rangt, skal ég verða manna fúsastur til þess að taka það til baka, en komi hins vegar í ljós, sem ég held nú að verði, að ég fari hér með rétt mál, þá er hér full þörf á því, að rannsókn fari fram. Þess vegna legg ég til, að hv. Nd. noti sér heimild þá, sem er í 39. gr. stjskr., og skipi innanþingsrannsóknarnefnd, sem kalli á sinn fund þá embættismenn, sem henni þykir við þurfa, og þeir veiti henni þær upplýsingar, sem þeim er heimilt. Ég álít, að það beri brýna nauðsyn til að gera þetta. — Með þessari till. er alls ekki meiningin að ófrægja Benjamín Eiríksson, heldur að gefa Alþ. tækifæri til þess að rannsaka embættisferil helztu embættismanna sinna.

Hér á Alþ.virðist nú vera mikill vilji fyrir því að bæta það ástand, sem nú ríkir í lánsfjármálum okkar, og þar af leiðandi verður að rannsaka til hlítar, hver sé orsökin fyrir þeirri kreppu, sem nú ríkir á því sviði. Það er hlægilegt að gera hér á Alþ. samþykktir um lánsfé, en láta svo embættismenn ríkisins eyðileggja þetta allt í framkvæmd á móti vilja alls þorra manna í landinu, bara fyrir áhrif frá bankavaldinu. Ég held þess vegna, að það sé óhjákvæmileg nauðsyn fyrir Alþ. að kalla Benjamín Eiríksson og aðra embættismenn á sinn fund og spyrja þá spjörunum úr, að svo miklu leyti sem slík n. getur lögum samkvæmt. Þar sem svo langt er síðan slík n. hefur starfað og aðeins er ákveðin ein umr. um málið, þykir mér rétt að leggja til, að málið verði sent í nefnd. Ég tel æskilegt, að forseti fresti umr., þegar honum finnst hæfilegt, og málinu verði vísað til fjhn. Ég vil einnig gera það að till. minni, að þessi rannsóknarn. verði skipuð fimm mönnum. Ég vona, að hv. fjhn. muni athuga málið sem fyrst og hraði afgreiðslu þess eins og unnt er.