19.10.1951
Neðri deild: 15. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í D-deild Alþingistíðinda. (3321)

13. mál, lánveitingamál bankanna

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Mér heyrðist á hæstv. viðskmrh., að honum væri eitthvað kærara og nær huga, þegar hann talaði um till., en íslenzka stjórnarskráin. Það er eins og þessi hæstv. ráðh. hafi ekki gert sér grein fyrir, að hér sé stjskr., heldur aðeins í Bandaríkjunum, og að það sé hvergi nema í Bandaríkjunum, sem þm. hafi yfirleitt þau réttindi að geta spurt embættismenn og yfirheyrt þá og annað slíkt. En þessi réttindi í 39. gr. stjskr. eru búin að vera lengi á Íslandi. Þetta er réttur, sem íslenzkum þm. hefur alltaf staðið til boða að nota, og þegar ég flyt þetta nú, er það með tilvísun í íslenzku stjórnarskrána. En þegar hæstv. viðskmrh. afsakar sig með því, að hér séu ráðh. til taks til andsvara, þá vil ég minna hæstv. ráðh. á, að við Íslendingar eigum við slíka stjórn að búa, að þegar þm. nota það vald, sem þeir eiga lögum samkvæmt til að gera fyrirspurnir, þá dirfast hæstv. ráðh. að brjóta lög þingsins og neita að svara. Þessi hæstv. ráðh. hefur áður gerzt sekur um þetta, þegar á löglegan hátt hafa verið lagðar spurningar fyrir hann um meðferð viðskiptamála, meðferð tollamála og um meðferð á fé ríkissjóðs og hvernig háttað er viðskiptamálum, tollum og öðru slíku. Þá hefur hann neitað að svara og þverbrotið lög. Þannig er það til lítils að segja: Hér eru alltaf ráðh. til andsvara til að svara fyrirspurnum, sem þm. koma með. — Í framkvæmdinni er það þannig, að hæstv. ráðh. vilja gleyma því, að þeir eru þjónar Alþ. og þjóðarinnar og embættismenn, sem eiga að svara til saka og svara fyrirspurnum. Það er því nauðsynlegt, að alþm. noti það vald, sem þingið hefur til þess að krefja embættismenn ríkisins um svör í þýðingarmiklum málefnum þjóðarinnar, jafnt ráðh. sem aðra.

Það er í sjálfu sér ekkert undarlegt, eftir því sem maður getur átt von á úr þeirri átt, þó að þessi hæstv. ráðh. segi, að allt, sem ég sagði, væri kommúnistaáróður af verstu tegund. En man þessi hæstv. ráðh. þann tíma, þegar hann fékk tækifæri til þess að sýna sjálfur, hvort hann þekkti stafróf hagfræðinnar, hvernig hann stóðst prófið, — t. d., þegar Jónas Jónsson lagði fram fsp. 22. sept. 1944? Man þessi hæstv. ráðh. eftir þeirri fsp., sem Jónas Jónsson lagði þá fyrir hann um það, hvort Alþ. gæti á nokkurn hátt ráðstafað þeim 500 millj. í erlendum gjaldeyri, sem þá voru til í okkar eigu, — að hann svaraði því á þann hátt, — eða ég held, að ég muni það rétt, — að það væri á engan hátt á valdi Alþ. að hafa áhrif á, hvernig þeim yrði ráðstafað, nema með því, að gerð yrði hér bylting? Man þessi hæstv. ráðh. eftir þeim skrípaleik, þegar hann lýsti jafnvel yfir, að þetta væri ekki hægt, nema með því að stela því öllu saman? Man hæstv. ráðh., þegar hann sagði í þessu sambandi, að það væru notuð launráð til þess að eyðileggja þjóðfélagið? — Þessi hæstv. ráðh. hefur haft tækifæri til þess að ganga undir próf í hagfræði og segja til um það, hvort heppilegt væri fyrir þjóðfélagið að gera vissar ráðstafanir út frá skynsamlegri hagfræði í því efni, sem ég gat um, og hann hefur sagt, að allar slíkar ráðstafanir væru bábilja og næstum glæpur. Og man svo þessi hæstv. ráðh., þegar hann átti sem forretningsmaður og fésýslumaður að taka afstöðu til þessa máls, sem ég gat um? Jú, þegar hann var búinn að segja á Alþ., að það væri vitleysa, að gerandi væru slíkar ráðstafanir, og þegar hann sem togaraeigandi átti að dæma um þetta, þá sagði hann: Jú, jú, það er ákaflega skynsamlegt að gera þetta. — En þegar um það var að ræða, hvað heppilegast væri að gera í málinu frá þjóðfélagslegu sjónarmiði, þá sá hann ekkert nema svart. — Ég vil því, að þessi hæstv. ráðh. tali með gætni, þegar hann talar um stafróf hagfræðinnar. Það hefur verið reynt að láta hann stafa, og hann gat það ekki. Hann er búinn að standa á gati í öllu þessu máli hér á Alþ., enda þótt hægt væri að sannfæra hann á eftir um, að rétt væri að gera það, sem hann áður taldi kommúnistaáróður.

Þá sagði hæstv. viðskmrh., að það væri þvættingur, sem stæði í grg. till., m. a. um skilyrðið viðkomandi ráðningu Benjamíns Eiríkssonar, sem sett hafi verið af hinum ameríska banka. Aldrei hefur ríkisstj. treyst sér til að gefa yfirlýsingu um, að það væri ekki rétt. sem einn af þm. Alþfl., hv. 6. landsk. þm., hélt fram og upplýsti, að skilyrði hefðu verið sett fyrir því, að við fengjum 100 millj. kr. á síðasta ári til þess að reyna að koma af stað frjálsri verzlun, og þessi skilyrði hefðu verið viðkomandi kaupgjaldi í landinu. Ríkisstj. hefur aldrei treyst sér til að afneita því. Ég held, að það hafi ekki falizt afneitun á því í því, sem hæstv. ráðh. sagði áðan, því að hæstv. viðskmrh. var hér að tala um, að Benjamín Eiríksson væri orðinn nokkuð voldugur, og það held ég, að sé rétt. Hæstv. ráðh. sagði, að ríkisstj. hefði gefið út fyrirmæli um varfærni í sambandi við lánsfjárstrauminn, og hæstv. ráðh. var að fara í kringum það, að e. t. v. hefði það verið ríkisstj. sjálf, sem mælt hefði fyrir um það, að ekki skyldi lána til íbúðarhúsabygginga eða í sambandi við íbúðarhúsabyggingar. Ætli það veiti nokkuð af því, að hæstv. viðskmrh. og Benjamín Eiríksson komi fyrir þingn. til að veita upplýsingar um þetta? Ætli það væri nokkuð á móti því, að við fengjum að sjá afrit af þeim bréfum, sem farið hafa á milli ríkisstj. og bankanna um þetta? Þegar við flytjum till. um að hlutast til um, að aukið verði lánsfé bankanna í landinu, hygg ég, að það ætti að rannsaka, hvort ríkisstj. væri að hafa áhrif á bankana um að hindra það, að fé sé veitt af þeim að láni. E. t. v. hefur það skotizt upp, að ríkisstj. ætti einhverja sök á lánsfjárkreppunni.

Hæstv. ráðh. leit grunnfærnislega á það, sem hann kallar heilbrigða fjármálastefnu. Hann taldi upp útlán bankanna og það, sem bankarnir hefðu af fé til meðferðar til útlána. Og svo varð niðurstaða hans sú, að þar sem búið væri að lána allt það fé út, sem bankarnir ættu til þeirra hluta, þá væru fjármunir raunverulega ekki til meiri og ekki hægt að lána út fé frá bönkunum. Ég hef heyrt þessa skoðun setta fram áður í öðru sambandi. Það var sagt hér árið 1944, að það væru ekki peningar til í Landsbankanum til þess að lána bæði þessum hæstv. ráðh. og öðrum til að kaupa togara fyrir, þó að til væru peningar í eigu landsmanna erlendis. Út frá hverju var þetta sagt? Ég efast ekki um, að það hafi verið sagt í góðri meiningu. Það var sagt út frá þeim hugmyndum, sem ganga út frá því, að peningar og seðlar séu einu fjármunirnir í landinu. En það, sem er að hjá þeim mönnum, sem hugsa þannig, er, að þeir vita ekki, hvað er afl þeirra hluta, sem gera skal, sem er vinnuaflið, tækin og það efni, sem við þurfum til þess að vinna úr. Og höfum við þetta til? Það er fyrsta spursmálið í þessu efni. Höfum við sem þjóðfélag þessa hluti til eða ekki? Hæstv. ráðh. man vel eftir því ástandi, sem var hér árin 1945 og 1946, að þá var yfirdrifið af sparifé og peningum hjá þjóðinni, sem ekki var hægt að nota. Af hverju? Af því að vinnuaflið og tækin og það, sem við gátum fengið af efni, var þá að fullu hagnýtt. Og af því að þetta þrennt er afl þeirra hluta, sem gera skal, þá eru peningar einskis virði, þegar ekki er hægt að setja í gang með þeim vinnuafl, tæki og efni. Peningar hafa ekkert gildi í sjálfu sér, einir út af fyrir sig, heldur eru þeir ávísun á verðmæti og nauðsynjar. Þegar við áttum 500 millj. kr. erlendis, þá sá ekki hæstv. viðskmrh., að neitt væri hægt að gera, af því að það skorti íslenzka peninga hér í umferð. Og þessi hæstv. ráðh. og Benjamín Eiríksson virðast ekki vera í vafa um, hvað við hefðum átt að gera árið 1944, nefnilega bíða eftir peningum í umferð með framkvæmdir. M. ö. o., ef þeir menn, sem nú ráða lánsfjárstefnunni í þjóðfélaginu, hefðu ráðið þá, þá hefðu öll tækifæri gengið þeim úr greipum, sem við höfðum þá til að búa þjóðina undir framtíðina. Ísland er miklu ríkara nú en það var árið 1944 eða 1945, vegna þess að nú á það miklu meiri tæki en þá, sem nemur miklu meiru en öllum þeim peningum, sem þá voru til. Ísland hefur nú mikið af tækjum til að framleiða og mikla möguleika til þess að vinna úr sinni framleiðslu, til þess að geta gert hana verðmætari sem útflutningsvöru. Það er ekkert annað, sem stendur í veginum fyrir því, að framleiðslan verði margfölduð hjá okkur og öll okkar skip og frystihús geti starfað til að auka stórkostlega framleiðsluna, heldur en einokunin á lánsfénu og verzluninni. Athafnamönnum og bæjarfélögum er bannað að framleiða meira en nú er gert. Það er hindrað, að hægt sé að leggja upp í hraðfrystihúsin og þann veg framleiða meira en nú er gert. Það er ekkert nema bull hjá þessum hæstv. ráðh., að ekki sé hægt að framleiða meira nú en gert er. Ég skal segja hæstv. viðskmrh. það, að þó að hér væri gefið út meira af seðlum og settur meiri gangur á framleiðsluna, mundi það ekki þýða aukna verðbólgu, heldur mundi það þýða, ef vitur stjórn væri í landinu, að framleiðslan margfaldaðist, atvinnan mundi blómgast í landinu og útflutningurinn stóraukast, vegna þess að við höfum tæki og vinnuafl, sem er óhagnýtt og getur skapað miklu meiri verðmæti en gert er nú. Það er ekki til neins að tala um pappírspeninga sem einhvern höfuðgrundvöll fjárhagskerfisins, meðan til eru í landinu hendur, sem geta unnið miklu meira að framleiðslunni en gert er, og til eru togarar og bátar til veiða og hraðfrystihús, sem geta unnið úr aflanum og gert hann verðmætari til útflutnings en gert er nú. Það er hægt að framleiða miklu meira hér en gert er nú. Hæstv. viðskmrh. veit, að hér ganga nú verkamenn atvinnulausir og frystihúsin og fínustu önnur tæki standa að meira og minna leyti aðgerðalaus, og að það er hægt að flytja inn tvöfalt meira af sementi og timbri í íbúðarhúsabyggingar, svo framarlega sem ríkisstj. hefði ekki fyrirskipað að kaupa allt mögulegt annað, plastik og annað miður þarft dót, fyrir peningana, sem við höfum. Ef þeim peningum hefði verið ráðstafað af viti, hefði verið hægt að framleiða miklu meira til útflutnings og kaupa inn meira af nauðsynjum, byggingarefni og öðru. En þetta er ekki gert vegna hinnar hringlandi vitlausu fjármálapólitíkur, sem rekin er í landinu. Og það er ekki í því sambandi til neins að reyna að afsaka sig með því, að það sé skortur á peningum hjá bönkunum. Þetta ólag er af því, að hæstv. ráðh. skilja ekki, hvað peningar eru. Peningarnir eru útgáfa þeirra lánsfjárstrauma í þjóðfélaginu, sem nauðsynlegir eru til þess að leysa spursmálið um að hagnýta til fulls vinnuaflið og tækin í landinu, þar sem það er nóg til. Ef hæstv. ráðh. ætlar að halda áfram að miða lánsfjárstraumana í þjóðfélaginu við þá hugmynd, sem hann hefur gert, þá verður afleiðingin sú, að hægt verður að vísu að pína fé í ríkissjóðinn og reyta það af fólkinu, en atvinnuvegirnir verða bara drepnir undir þessu fargi. Og þegar ríkisstjórnin tekur á sig ábyrgð á þeirri fjármálapólitík, sem nú er rekin í þessum efnum, þá er það eins og sagt væri við sterkan verkamann: Jú, þá mátt vinna — en bundið um leið utan um úlnlið hans svo fast, að blóðstraumurinn stöðvaðist í líkama hans. Þannig er nú verið að stöðva blóðstrauminn í fjármálalífi þjóðarinnar og reyna að telja fólkinu trú um, að þetta sé það æskilegasta. — Ég skal segja hæstv. viðskmrh., af hverju hann og örfáir aðrir menn með honum vilja fara inn á svona pólitík. Hann sér mjög vel, hverjar afleiðingar verða af svona pólitík, nefnilega meiri eða minni stöðvun á atvinnurekstrinum. Ef ríkisstj. er það yfirleitt ljóst, að þetta verða afleiðingarnar, þá hlýtur hún að vilja fá fram þessar afleiðingar, og ef hún vill það, þá hlýtur það að vera til þess, að atvinnurekendur geti haldið kaupinu niðri. Og afleiðingin af þessari fjármálapólitík yrði líka hrun hjá einhverjum atvinnurekendum, og ef hæstv. ráðh. vilja hrun hjá smáatvinnurekendum og hjá sumum hinna stærri líka, þá getur ekki verið annað en að þeir, sem standa betur að vígi erlendis og gagnvart íslenzkum bönkum líka, ætli sér að láta bjóða upp atvinnutæki þessara manna og fyrirtækja, sem mundu gefast upp við atvinnureksturinn, og kaupa það upp á hagkvæmu verði fyrir þá, sem kaupa. Hæstv. ríkisstj. verður að horfast í augu við afleiðingar þessarar fjármálastefnu, sem hún hefur valið sér. Það er svo fjarri því, að það sé eðlileg og heilbrigð fjármálapólitík, að hún er bókstaflega að kyrkja þjóðfélagið.

Það er ekki undarlegt, að okkur lendi saman um þetta efni, mér og hæstv. viðskmrh. Það er nákvæmlega það sama og átti sér stað árlð 1944. Okkur lenti saman um þetta þá. Hæstv. viðskmrh. fór í kringum það, að það væri ekki núv. ríkisstj. að kenna, hvernig komið væri í þessum málum; það væri búið að festa allt of mikið fé. Hann var svona að gefa í skyn, þó að ekki segði hann það berlega, að það væri nú búið að festa allt of mikið fé í togurum og húsum. Og það eru þessir hlutir, sem við verðum að gera upp í þessu efni. Það er verið að læða inn stefnu í fjármálalíf Íslendinga, sem, ef hún hefði verið framkvæmd 1944, hefði leitt til allsherjar fátæktar og eymdar í þjóðfélaginu. Og það, að þetta ástand hefur ekki skapazt, heldur er þjóðfélagið betur sett í dag en þá með atvinnumöguleika og fjöldi fólks hefur vinnu, er af því, að þá voru keypt tæki til framleiðslunnar. Svo getur hæstv. viðskmrh. bölsótazt út af of mikilli fjárfestingu, eins og honum sýnist. En það er af þeirri fjárfestingu, sem framkvæmd var þá, sem Ísland lifir nú. — Hitt er það, að það þarf nauðsynlega að gera þessa stefnu ríkisstj. í fjármálalífi þjóðarinnar upp. Það á ekki að eiga sér stað, að lætt sé yfir okkur með embættismannavaldi þeirri idjótísku stefnu, sem átti að leiða yfir okkur árið 1944 og hefði verið gert, ef menn eins og hæstv. núv. viðskmrh. hefðu fengið að ráða. Hæstv. núv. viðskmrh. tókst ekki þá að hindra, að stórvirk framleiðslutæki væru keypt til landsins árið 1944, þó að hann virðist nú ætla að reyna að tryggja það, að þau að verulegu leyti stöðvist. Honum og hans líkum tókst ekki þá að hindra það, að togararnir færu út um landið, þó að hann og hans skoðanabræður berðust á móti stofnlánadeildinni eins og þeir gátu. En þeir virðast ætla að hindra það nú, með þeirri fjármálastefnu, sem þeir reka, að tækin geti gengið. Þeir virðast ætla nú að knýja fram lánsfjárkreppu, svo að eignarréttur viðkomandi aðila á framleiðslutækjunum verði þurrkaður út og þessi tæki fari yfir til nokkurra ráðamanna hér í Reykjavík. Hver verður afleiðingin af lánsfjárkreppunni? Hún er sú, að það eru haldin nauðungaruppboð á hverjum degi. (Forseti: Ég verð að biðja hv. þm. að gera hlé á ræðu sinni, ef svo stendur á máli hans, að það sé auðvelt.) — Ég skal verða við þeirri ósk. — [Frh.]