29.10.1951
Neðri deild: 19. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í D-deild Alþingistíðinda. (3331)

13. mál, lánveitingamál bankanna

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Þegar þessi þáltill. var hér síðast til umræðu, ræddi hæstv. viðskmrh. um útlán bankanna og lánsfjárkreppuna. Ég vil því beina nokkrum orðum til þessa hæstv. ráðh.

Hann gat þess, að sér væri ljóst, að við vaxandi erfiðleika væri að etja í lánsfjármálum okkar. Hann gat þess enn fremur, að þessi skortur á lánsfé næði ekki aðeins til íbúðarhúsabygginga, heldur herjaði hann nú á alla atvinnuvegi þjóðarinnar. Þetta er vissulega rétt hjá hæstv. ráðh. En þrátt fyrir það að lánsfjárskorturinn sé farinn að leika atvinnuvegina svona grátt, þá taldi hæstv. viðskmrh., að hér væri ríkjandi eðlilegur lánsfjármarkaður. Hann taldi, að ógerningur væri að auka útlán bankanna, og því ekki völ á meira lánsfé. Hann hélt því fram, að lagt hefði verið út í meiri fjárfestingu en efni hefðu leyft. Hæstv. ráðh. gat þess, að útlán bankanna næmu nú 1288 millj. kr. og hefðu aukizt frá því, að gengið var fellt, um 370–380 millj. kr. Með þessu vildi hæstv. ráðh. sýna fram á, að útlán bankanna hefðu aukizt eðlilega. Hann lét í það skína, að innstæður hefðu ekki vaxið. En sannleikurinn er sá, að á sama tíma höfðu innstæðurnar hækkað um 450 millj. kr., svo að þær eru nú hærri en útlánin.

Hæstv. ráðh. hélt því fram, að notkun mótvirðissjóðs kæmi ekki útlánum bankanna við. En mótvirðissjóður er í raun og veru hrein peningaeign íslenzka ríkisins og hefur því sama gildi og annað fé, sem í þankanum er, og hann getur því miðað útlán sín við hann. Þegar hæstv. viðskmrh. er að benda á það, að útlán bankanna hafi hækkað um 370 millj. kr., þá er það ekki nóg, því að þau hefðu getað verið hærri. Og svo er hins að gæta, að þessi hækkun á útlánum svarar á engan hátt til gengislækkunarinnar. Þegar borið er saman innstæður og útlán bankanna, kemur í ljós, að það hefur raunverulega verið dregið fé til bankanna og þannig aukið við lánsfjárkreppuna. Þetta kemur í ljós, þegar athugað er, hvernig bankarnir lána út á hin einstöku verðmæti. Það er staðreynd, að það sé skortur á rekstrarfé í þeim atvinnugreinum, sem eru undirstaðan undir þjóðfélagsbúskapnum, enda þótt lánveitingar hafi aukizt um þessar 570 millj., eins og hæstv. viðskmrh. sagði hér áðan. Það er fjarri lagi, að það hafi nægt. Ég skal nefna eitt dæmi, sem ég hef rekizt á. Það er það fyrirbæri, að togararnir hafa siglt hér fram hjá landsteinunum og alla leið til Danmerkur með alla áhöfn og skipað fiskinum upp þar. Af þessu hefur leitt minnkandi vinnu hér á landi við verkun fisksins, og togararnir hafa verið miklu lengur í hverri veiðiferð en annars hefði þurft, og kemur það fram í minna aflamagni. Nú er það líka vitað, að þessi afli er tekinn þar, pakkaður, metinn og fluttur til Ítalíu og Grikklands og væntanlega seldur fyrir sama verð. Hver er skýringin á þessu? Hún er sú, að dregið er svo úr lánveitingum út á framleiðsluvörur, að eigendurnir geta ekki legið með framleiðsluna. Útlánin eru svo lítil, að það er ekki hægt. Fyrir gengislækkunina var það regla bankanna að lána kr. 1,60 út á hvert kg af saltfiski. Nú eftir gengislækkunina, þegar verðlag hefur ekki einungis hækkað um þau 74,5%, sem gengisbreytingunni nemur, heldur hefur einnig orðið talsverð verðhækkun að auki, hver eru þá útlán bankanna? Í dag lána bankarnir kr. 1.90 út á hvert kg. Það er augljóst af þessu, að útlánin hafa minnkað stórkostlega.

Þó er þetta enn þá meira áberandi, ef tekin er önnur grein fiskframleiðslunnar. Fyrir gengisbreytinguna lánuðu bankarnir 40 aura á kg til að fullverka saltfisk og breyta honum í útflutningshæfa vöru. Þetta var lágt, en í dag, eftir gengisbreytinguna, lána þeir nákvæmlega jafnmikið. Útkoman hefur orðið sú, að framleiðendur segja: Við höfum ekki svo mikið fé, að við getum lagt upp aflann hér, og neyðumst því til að fara með hann beina leið á erlendan markað. — Þetta er aðeins eitt dæmi. Mörg fleiri mætti nefna, sem öll ganga í sömu átt, og sum eru verri.

Það hefur verið stefna hæstv. ríkisstj. að draga úr útlánunum frá því, sem áður var, og því er haldið fram, að þetta sé mikilvæg stefna og til hagsbóta fyrir atvinnulífið í landinu. Reynslan hefur þó orðið sú, að kreppt hefur meira og meira að, og nú er svo komið, að þessi lánsfjárstefna dregur úr eðlilegri framleiðslu í landinu. Það eru ekki bara þeir, sem þurfa lán til íbúðabygginga, sem ekki fá lán; þessi stefna hefur orðið til þess að draga úr framleiðslunni og spilla möguleikunum á því að halda uppi fullri atvinnu í landinu.

Í sambandi við það, sem hæstv. viðskmrh. sagði um lánsfjárstefnuna, má nefna fleiri tölur, sem sýna, hvaða stefna er ríkjandi í þessum málum. Þannig er t. d. seðlaveltan fyrir og eftir gengisbreytinguna nálega hin sama. Fyrir gengisbreytinguna var seðlaveltan almennt 180–190 millj, kr. Um áramótin næst á undan var hún 184 millj. kr. Nú, þann 1. okt. s. l., var hún 200 millj. kr. Þegar einstakir mánuðir eru bornir saman, kemur hið sama í ljós. Það er því augljóst mál, að seðlaveltan er ekki í neinu samræmi við það, sem hún var fyrir gengisbreyt., enda hefur þetta skapað greiðsluþröng, sem allir virðast nú vera í. Það er óeðlilegt, að sama upphæð skuli vera í umferð nú og fyrir gengisbreytinguna. Fyrirtæki, sem fór í bankann fyrir gengisbreyt. og þurfti 50 þús. kr. til launagreiðslna og annarra útgjalda, þarf nú 100 þús. kr. fyrir hliðstæðan rekstur. Þetta er staðreynd, og allir viðurkenna það og kvarta undan greiðsluþröng og vöntun á rekstrarfé. En höfðinu hefur verið barið við steininn þrátt fyrir þetta og neitað um lán út á verðmæti. sem eru margföld að virði við lánin, sem farið er fram á.

Það er ljóst, þegar svo er komið, að óhjákvæmilegt er, að hæstv. ríkisstj. hugleiði það í fullri alvöru, hvort ekki sé eitthvað bogið við þessa stefnu. Er eðlilegt að lána jafnháa upphæð nú til að fullverka fisk til útflutnings og gert var fyrir gengisbreytinguna? Leggst ekki starfsemin niður eða dregst saman? Og er þetta heppilegt fyrir þjóðarbúskapinn? Þessum málum hefur verið stefnt í það mikil vandræði, að nú virðist svo, að almenningur hafi þrýst svo að hv. alþm., að þeir ætli nú að fara að krefjast aukinna útlána til íbúðabygginga. En þó að þetta sé nauðsynlegt vegna húsnæðisvandræðanna, er þó enn nauðsynlegra að veita lán til framleiðslunnar. Ef útlán til hennar eru of knöpp, dregur það úr eðlilegri framleiðslu og atvinnu í landinu. Það er því meiri ástæða til að auka útlán til framleiðslunnar en til beinnar fjárfestingar. Hér þarf að breyta um stefnu og auka útlánin, og það má auka þau talsvert mikið, svo að þau verði jafnmikil og fyrir gengisbreytinguna. Og það er ekki bara sjálfsagt, að þetta verði gert, heldur er líka réttmætt, að útlán verði aukin til beinna fjárfestinga og nauðsynlegra íbúðabygginga.

Ég sé, að hæstv. ríkisstj. þykist svo viss í sinni sök, að hún telur ekki nauðsynlegt að hlýða hér á umr., þó að þetta sé höfuðmál. Hún telur sína stefnu svo rétta, að hún hefur kosið að vera ekki við, og sá hæstv. ráðh., sem talaði um lánsfjárstefnuna, óskar ekki að ræða málið. Það má loka augunum um tíma, en útkoman verður hin sama. Þessi mál verður að leysa, og hæstv. ríkisstj. mun sjá áður en langt um liður, að hennar stefna var röng.