02.11.1951
Sameinað þing: 11. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í D-deild Alþingistíðinda. (3354)

49. mál, bifreiðavarahlutir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Rang. lýsti hér yfir í þeirri ádeiluræðu, sem hann hélt um, hvernig bátagjaldeyrislistinn væri samsettur, að sér væri óskiljanlegt, hvernig hlutir eins og bifreiðavarahlutar væru komnir inn á hann. Talaði hann um, að það hlyti að vera fyrir misgáning og af því að þm. hefðu ekki gert sér ljósa þýðingu þeirra og hina brýnu nauðsyn á innflutningi þeirra. Mig undrar, að hv. þm. skuli beina þessari aðdróttun til þm. Ég veit ekki til þess, að nokkur hv. alþm. hafi komið nærri því að setja þennan lista saman. Hafi einhver hv. þm. tekið þátt í því, væri æskilegt, að hann gæfi sig fram hér í þinginu. Bátalistinn var settur saman af hæstv. ríkisstj. og gefinn út af fjárhagsráði daginn sem Alþ. var slitið, án þess að Alþ. fengi nokkuð um hann að heyra. Hafi eitthvað verið um hann fjallað af hv. þm., hefur það þá verið í flokksherbergjunum og þá helzt í herbergi Sjálfstfl.

Það er ráðh. þess flokks, sem ber ábyrgð á útgáfu listans, sem var gefinn út án þess, að til þess væri heimild í lögum, og án þess, að þeirrar heimildar væri aflað hjá Alþ. Hv. 2. þm. Rang. hefur rétt að mæla, þegar hann talar um misgáning og þekkingarleysi í sambandi við þennan lista, en hann á ekki að beina því til þingsins, heldur ríkisstj. og þá fyrst og fremst ráðh. Sjálfstfl., sem ábyrgir eru fyrir að gefa út þennan lista. Það eru hæg heimatökin fyrir hv. þm. að segja sínum flokksbræðrum til syndanna, sem gefa út þennan lista, sem þverbrýtur öll lög, og standa svo eins og þvörur hér á Alþ., þegar þeir eiga að verja gerðir sínar. Hv. þm. ætti að beina þessari aðdróttun til sinna ráðh. og láta okkur þm. frjálsa við ádeilu um slík efni.

Það er satt að segja orðið varhugavert með okkar stjórnarfar, þegar þm. eru farnir að deila á Alþ. og þm. fyrir það, sem einungis er verk ríkisstj., og fyrir glappaskot og afbrot hennar. Og svo aum er hæstv. ríkisstj., að sá ráðh. Sjálfstfl., sem á að verja gerðir hennar, viðskmrh., flýr út úr d., af því að honum er þar ekki stætt.

Þessi till. er orðuð svo, að Alþ. feli „ríkisstj. að hlutast til um . . .“. Alþ. hefur allan rétt, en ríkisstj. engan til að hlutast til um þessi mál. Hv. þm. veit, að þessi 60% skattur er lagður á án nokkurs réttar. Hér er um hreinan þjófnað að ræða, því að ríkisstj. er ekki leyfilegt að leggja slíkan skatt á án lagaheimildar, ekki einu sinni til að afla ríkinu tekna, hvað þá heldur einstaklingum. Sökinni á því, að bifreiðavarahlutarnir villtust inn á þennan lista, vísa ég algerlega frá þm. Þessi réttmæta ádeila hv. þm. á heima hjá ríkisstj. Alþ. hefur vald til að ráðstafa þessum hlutum, ef þm. vilja nota það vald, og þarf ekki annað en minna hæstv. ríkisstj. á stjskr. því til sönnunar, að ríkisstj. hefur ekkert vald án lagaheimildar frá Alþ. til að gefa einokun á þessum tækjum. Svo leggur hv. þm. til, að innflutningur á þessari vöru verði gefinn frjáls. Hefur ekki hv. þm. hlustað á ræður ráðh. Sjálfstfl., þegar þeir tala um, að innflutningurinn sé frjáls, og kalla meira að segja bátalistann frílista, þó að ekki sé um annað en hreina einokun að ræða? Og hver setti bifreiðavarahlutana inn á þennan lista? Það var ríkisstj., sem gerði það án þess að ráðfæra sig við Alþ. og rétt eftir að Alþ. var slitið. Listinn var birtur í Lögbirtingablaðinu 8. marz, eftir að Alþ. var slitið þann 7., og þannig forðazt að hafa nokkurt samráð við Alþ. Það er því langeðlilegast, ef eitthvað á að samþ. í þessu máli, að tilkynna ríkisstj., að henni sé algerlega óheimilt að leggja sérstakan skatt á þessa vöru né nokkuð annað án heimildar frá Alþ. Það þarf að koma eitthvað frá þessu þingi um þetta mál. Ég kann illa við, ef Alþ. á að fara að skipa þann sess að vera aðeins ráðgjafarþing ríkisstj. og spyrja hana, hvort hún vilji gera svo vel að reyna þessa leið. Það er ekki að ófyrirsynju, þegar samtök þeirra, sem orðið hafa fyrir barðinu á lögbrotum hæstv. ríkisstj., krefjast þess, að lagafyrirmælin yrðu þannig, að þessi ólöglegi skattur og einokun hyrfu af bifreiðavarahlutunum. En samt hefðu öll þessi samtök fyrir löngu átt að fara í mál við ríkisstj. vegna þessa. Hvað bifreiðavarahlutana snertir, er henni nú heimilt að innheimta 2% til fjárhagsráðs, en 60% skatturinn er með öllu ólöglegur og á sér hvergi stoð í l.

Það er því rétt að fagna því, að komin er fram till. um þetta mál hér. Það þarf að taka þetta mál fyrir í heild, og sérstaklega þurfa ráðh. Sjálfstfl. að gera grein fyrir, á hvaða lagaheimild þeir byggja vald sitt til þessa.

Ég stóð hér upp vegna þess, að ég vil ekki, að við þm. séum gerðir ábyrgir fyrir hlutum, sem við eigum enga sök á. Nógu er samt skellt á Alþ., þó að það þurfi ekki líka að bera ábyrgð á misgáningi, þekkingarleysi, skeytingarleysi og lögbrotum ríkisstj., þegar ríkisstj. drýgir þau án þess að ræða hið minnsta um það við Alþ.