02.11.1951
Sameinað þing: 11. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í D-deild Alþingistíðinda. (3355)

49. mál, bifreiðavarahlutir

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Síðasti ræðumaður tók mikið fram af því, sem ég ætlaði mér að segja. — Ég vildi benda flm. á það, að þm. áttu ekki þarna hlut að og að það var ekki fyrir ókunnugleik þm., að þetta var sett inn á listann. Þegar verið var að ræða um innflutning á varahlutum til bifreiða, var gert ráð fyrir, að töluvert meira en helmingur allra bíla á landinu, eða um 60%, væru svo kallaðir lúxusbílar. Á þeirri forsendu voru varahlutarnir teknir með í fyrra. Hitt er svo annað mál, hvort sú forsenda er rétt, en 2. þm. Rang. mótmælti henni ekki í fyrra. — En það, sem ég vildi taka fram, er það, að þessi bátagjaldeyrir hefur a. m. k. að nokkru leyti misst marks, því að ekki nema lítill hluti af verðhækkun varanna, sem eru fluttar inn fyrir hann, hefur lent hjá útgerðarmönnum og sjómönnum, eins og upphaflega var ætlað, heldur hefur mestur hlutinn lent hjá innflytjendunum, þ. e. a. s. heildsölunum. Þeir hafa fengið þennan gjaldeyri á hærra gengi og álagningin þar af leiðandi verið hærri. – Ég vil biðja n. þá, sem fær mál þetta til athugunar, að gæta þess, hvort ekki sé hægt að koma því svo fyrir, að hagnaðurinn af bátagjaldeyrinum lendi hjá þeim, sem eiga að fá hann, þ. e. a. s. sjómönnum og útgerðarmönnum, því að það er engin ástæða að láta þá, sem flytja vörurnar inn, fá mestan hagnaðinn. Jafnframt vil ég biðja n. að athuga, hvort ekki séu fleiri vörur en þessar, sem hægt væri að taka út af frílistanum. Þar ætti sem minnst að vera.