08.11.1951
Sameinað þing: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í D-deild Alþingistíðinda. (3369)

55. mál, æskulýðshöll í Reykjavík

Flm. (Jónas Árnason):

Herra forseti. Þann 15. okt. s. l. var haldinn almennur borgarafundur að tilhlutan Barnaverndarfélags Reykjavíkur, þar sem rætt var um unga fólkið í landinu og þann aðbúnað, sem það hlýtur af hálfu samfélagsins, sérstaklega með tilliti til þess ástands, sem skapaðist í landinu við komu hins ameríska herliðs. Frummælendur á þessum fundi voru tveir ungir menntamenn, þeir Emil Björnsson og Friðgeir Sveinsson. Drógu þeir upp mynd af þessu ástandi og þeim illu afleiðingum, sem það mundi valda menningu okkar og tungu, ef ekki yrði spornað við í tíma. Umræður á fundinum gengu mjög í þessa sömu stefnu, og í lok hans voru samþ. nokkrar ályktanir, sem hv. þm. hafa haft tækifæri til að kynna sér, og þ. á m. var sú, sem ég leyfi mér að lesa nú upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Almennur borgarafundur haldinn í Iðnó að tilhlutan Barnaverndarfélags Reykjavíkur 15. okt. 1951 skorar á Alþ. það, sem nú situr, að samþ. till. til þál., er fram er komin um æskulýðshöll í Reykjavík. Fundurinn treystir alþm. til þess að líta á hina félagslegu nauðsyn málsins og minnast þess, að Reykjavíkurbær hefur heitið að greiða 50% af byggingarkostnaði æskulýðshallar og Bandalag æskulýðsfélaga Reykjavíkur 10% gegn því, að ríkið leggi fram 40%. Telur fundurinn, að æskulýðshöll eða heimili muni lyfta tómstundaiðkunum og skemmtanalífi æskufólksins á hærra stig og leysa úr sameiginlegum þörfum æskufólks í þeim einum. Að auki álítur fundurinn, að halda eigi áfram á þeirri braut að koma upp smærri félagsheimilum í hinum ýmsu bæjarhverfum, er leysi hinar sérstöku þarfir hvers hverfis í félagslegu tilliti.“

Fundur þessi var ánægjulegur vottur um þá vakningu, sem nú hefur orðið vart meðal almennings í landinu um að skápa hjá æsku landsins heilbrigða þjóðarkennd og heilbrigt viðhorf til erlendu hermannanna. Þessi vakning snýst til verndar tungu okkar og allri þjóðlegri menningu, siðferði og þjóðerni. Rætur hennar standa þvert í gegnum alla stjórnmálaflokka. Hún spyr ekki, hvort þú sért með eða á móti þeirri hernaðarsamvinnu, sem liggur til grundvallar þessu ástandi. Hún spyr aðeins, hvort þú viljir styðja íslenzka menningu og íslenzkt þjóðerni. Þetta er hreyfing íslenzks fólks til verndar menningu sinni og þjóðerni, og það mætti kallast furðulegt öfugstreymi, ef Alþ. slægist ekki í för með fólkinu í landinu og léði þessari hreyfingu stuðning sinn. — Í grg. með till. hef ég reynt að gera Alþ. að nokkru grein fyrir því, hvar hættan er mest í máli þessu. Sökum skorts á hollum skemmtunum og þroskandi tómstundalífi stendur æskan óvarin gegn miður hollum áhrifum sjoppulífs og lauslætislifnaðar, einkum í sambandi við hermennina, sem dveljast hér í landinu, en hverjar afleiðingar slíkt getur haft fyrir þjóðina, sjá allir, ekki sízt þegar þess er gætt, að í Reykjavík og Hafnarfirði dvelst um helmingur alls unga fólksins í landinu, a. m. k. mikinn hluta úr árinu.

Hugmyndin um æskulýðshöll er orðin gömul, og mun ég ekki rekja sögu hennar hér. Barátta hefur verið háð lengi fyrir þessu máli, en hún efldist mjög 1947, er Bandalag æskulýðsfélaganna í Reykjavík var stofnað. Stofnun þess var fyrir forgöngu Bræðralags, kristilegs félags stúdenta, og biskups. Síðan hefur málið verið í höndum þessa félagsskapar, og nú hefur verið sett n. til að samræma sjónarmið varðandi skipulag og starfsemi æskulýðshallarinnar. Það er svo gert ráð fyrir, að framkvæmd málsins verði í höndum bandalagsins.

Varðandi byggingarkostnað hallarinnar er gengið út frá því, að Reykjavíkurbær leggi til 50% hans, ríkið 40% og Bandalag æskulýðsfélaganna í Reykjavík 10%. Reykjavíkurbær hefur þegar tjáð sig fúsan til að leggja sinn skerf fram. Um skerf ríkisins hefur enn engu verið lofað, en ýmsir þm. hafa þó tekið líklega í þetta mál, og fyrir fáum árum fluttu tveir hv. þm. frv. til l. um æskulýðshöll í Reykjavík og var það frv. samþ. í annarri d. Er gott til þess að vita, hversu menn hafa getað sameinazt um þessa fögru hugsjón. Eftir fengna reynslu er því ekki ástæða til að óttast um afdrif þessa máls hér á Alþ. og þá framkvæmd þess í heild.

Skal ég svo ekki orðlengja þetta frekar. Ég vil aðeins undirstrika það, að fólkið í landinu á heimtingu á, að Alþ. standi við hlið þess í baráttunni fyrir eflingu þjóðarkenndar og menningarþroska æskulýðsins í landinu, en um gildi þessa fyrir þjóðina í heild munu ekki skiptar skoðanir. — Ég legg svo til, að till. verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og allshn.