02.11.1951
Sameinað þing: 11. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í D-deild Alþingistíðinda. (3376)

58. mál, fræðslulöggjöfin

Flm., (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Sá er tilgangur okkar, sem flytjum þessa þáltill., að fá undirbúnar breytingar á fræðslulöggjöfinni, sem geri hana frjálslegri en hún nú er. — Samkvæmt lögum eru börn og unglingar nú skólaskyld frá því þau eru 7 ára gömul og til 15 ára aldurs. Skólatíminn er í l. ákveðinn 7–9 mánuðir ár hvert. Við teljum, að námsskyldu í unglingaskólum eigi að nema úr l. og einnig að stytta skyldunámstímann í barnaskólum, en þó verði ekki dregið úr kröfum þeim, sem gerðar eru um þekkingu nemendanna við barnapróf. — Við bendum einnig á það í till., að setja þarf í lög ákvæði, sem gera mönnum mögulegt að ljúka prófum í bóklegum og verklegum greinum, ef þeir hafa þá þekkingu eða kunnáttu, sem til þess þarf, þótt þeir hafi ekki numið í skólum.

Það er álit margra, að skyldunámstíminn sé nú allt of langur og þvingandi fyrir margt ungt fólk. Einn gamall og reyndur skólastjóri hefur látið svo um mælt í bréfi til mín, að margt ungmenni komi ofþjakað á líkama og sál frá námi eftir þessa löngu skólavist. Ég geri ráð fyrir, að allir séu sammála um það, að allir, sem hafa áhuga fyrir skólanámi og námshæfileika, eigi að geta notið slíkar fræðslu. En ég álít mjög varhugavert að þvinga ungt fólk til skólasetu og hindra það árum saman frá öðrum viðfangsefnum, sem það hefur meiri löngun og hæfileika til.

Til þess að fá fram þær breyt. á fræðslul., sem við flm. teljum þörf á, þarf að breyta nokkrum l., því að ákvæðin um þau efni eru í fleiri lagabálkum. Við tókum því þann kostinn að bera fram þessa þáltill., þar sem hæstv. ríkisstj. væri falið að undirbúa breyt. á fræðslul. Við vildum ekki leggja vinnu í það að búa til nokkur frv. um breyt. á fræðslulöggjöfinni að svo stöddu. Töldum heppilegra að fá úr því skorið með flutningi slíkrar till., hvort þingvilji væri fyrir því að gera fræðslul. frjálslegri en nú er. Ef sá þingvilji væri fyrir hendi, þá töldum við heppilegast, að hæstv. ríkisstj. væri falið að undirbúa þær breytingar fyrir næsta þing.

Sé ég ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð nú í upphafi. Legg ég til, að umr. um till. verði frestað og henni vísað til hv. allshn. Vænti ég góðrar afgreiðslu málsins í þessari nefnd.