02.11.1951
Sameinað þing: 11. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í D-deild Alþingistíðinda. (3377)

58. mál, fræðslulöggjöfin

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil ekki láta þessa till. fara til n. án þess að segja nokkur orð, því að mér finnst hún að ýmsu leyti ærið furðuleg. Ég held, að næstum allir skólamenn og þeir, sem nokkuð hafa fylgzt með fræðslumálum, séu sammála um það, að fræðslul. frá 1946 hafi verið mikil endurbót, og reynslan hefur einnig staðfest það, að svo miklu leyti sem reynsla af þeim l. er enn þá fengin.

Það er mjög fjarri því, að lög þessi hafi komið til fullra framkvæmda enn, og þess vegna er langt frá því, að af þeim sé fengin full reynsla. Það er t. d. fyrst á þessu skólaári, að kennsla í verknámsdeild kemur til framkvæmda, svo að nokkru nemi. En þær staðbundnu tilraunir, sem hafa verið gerðar í þessum efnum, t. d. á. Akureyri, hafa gefið mjög góða raun, þó að enn sé við vanefni að búa.

Þessi till., sem hér er til umr., er í raun og veru till. um að afnema skólakerfið frá 1946, áður en það er komið til framkvæmda. Fyrsti tölul. er ekki aðeins till. um að stytta skólaskylduna frá því, sem hún er, heldur er það till. um styttingu á skólaskyldunni frá því, sem hún var fyrir 1946, því að nú skal skólaskylda í unglingaskólum numin úr l. og þar með stytt um eitt ár frá því, sem hún var fyrir 1946. Þar að auki skal stytta skólatíma í barnaskólum verulega. Það virðist því tilgangur flm. að stytta skólaskylduna frá því, sem hún var fyrir 1946. Flestir skólamenn litu svo á 1946, að það bæri þjóðfélagslega nauðsyn til þess að lengja skólaskylduna.

Hv. flm. talaði um það, að börn kæmu þjökuð frá námi eftir hina löngu skólavist, og ber þar fyrir sig ummæli skólamanns. Ég vil segja flm., að ef svo er, og þess eru sjálfsagt dæmi, þá er það ekki skólaskyldunni að kenna, heldur skólunum, sjálfri fræðslunni, okkur hefur þá mistekizt um sjálfa fræðsluna. — En furðulegt er að tala um, að skólarnir dragi unglingana frá framleiðslustörfum, þegar hundruð og jafnvel þúsundir unglinga ganga atvinnulausir, þegar þeir koma úr skólunum. Þetta er ekki af því, að skólarnir hafi veitt þeim fræðslu, sem hafi orðið til þess, að þeir vilji ekki vinna, heldur af því, að þeir fá ekki vinnu. Sannleikurinn er sá, að megintilgangur núverandi fræðslulöggjafar er að gera íslenzka æsku hæfa til þess að stunda ýmiss konar framleiðslustörf og hin margvíslegu störf, sem menn þurfa að rækja í okkar þjóðfélagi og krefjast nú öll miklu meiri undirstöðuþekkingar en nokkru sinni fyrr. Það var einmitt eitt af meginsjónarmiðum þeirra manna, sem stóðu að núverandi fræðslulöggjöf, að sníða skólakerfið eftir núverandi þjóðfélagsháttum og skapa grundvöll undir það, að verklegum störfum yrði margfalt meiri sómi sýndur en áður. En þetta er allt á byrjunarstigi, og allir vita, að til þess að árangur náist, þarf langa þróun. Það er fásinna að láta sér detta í hug að kasta skólakerfinu fyrir borð, áður en reynsla er fengin og meðan allt bendir til, að stefnt sé í rétta átt, þ. e. a. s., að svo miklu leyti sem stefnt er í þá átt, sem fyrir mönnum vakti, þegar þessi lög voru sett 1946. Hitt er annað mál, að breyta þarf skólalöggjöfinni jafnskjótt og reynslan leiðir í ljós, að breyting sé nauðsynleg. Það er vissulega margt, sem nú þegar stendur til bóta, þó að þeir miklu vankantar, sem nú eru á öllum okkar skólamálum, séu ekki fyrst og fremst lagaatriði, heldur framkvæmdaratriði.

Ég hef nú aðallega minnzt á 1. tölul. till. öðru máli gegnir um 2. tölul., enda þótt hann standi að hálfu í sambandi við 1. lið till. Tel ég alveg sjálfsagt að athuga þá till. vandlega, og út frá því sjónarmiði hef ég ekkert á móti því, að till. fari til n. og verði athuguð þar.

Í grg. þessa frv. kemur fram gagnrýni á iðnfræðsluna, og tel ég þetta í aðalatriðum alveg rétt, en það kemur löggjöfinni frá 1946 ekkert við, heldur er það í andstöðu við allan anda hennar. Hefði það verið þarft verk, ef hv. flm. hefðu borið fram raunhæfar till. til breytinga og umbóta á iðnfræðslunni heldur en á fræðslulöggjöfinni frá 1946, en það er einmitt mun auðveldara að koma skynsamlegri skipun en nú er á þau mál.