02.11.1951
Sameinað þing: 11. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í D-deild Alþingistíðinda. (3380)

58. mál, fræðslulöggjöfin

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég þarf nú ekki að bæta neinu verulegu við það, sem ég hef þegar sagt. Ef hv. flm. athugar sína till. nokkru nánar en hann hefur gert, mun hann komast að raun um, að hún raskar öllu kerfinu frá 1946. Ef skólaskylda í unglingaskólum er numin úr l., raskast kerfið, sem einmitt er byggt á þessari skyldu.

Hv. flm. sagði, að hann vildi, að skólakerfið væri frjálst fyrir þá, sem nema vilja og í skóla vilja ganga, en hann sagðist vera andvígur skólaskyldunni. Ég veit ekki, hvort hann vill nema úr l. skólaskyldu barna og unglinga. Hér um ræðir skólaskyldu til 15 ára aldurs. Nú er spurningin sú, hvort börnin og foreldrar þeirra séu fær um að ákveða, hvort börn innan 15 ára aldurs skuli njóta fræðslu og hvort það sé nauðsynlegt fyrir þjóðfélagið, að þau njóti fræðslu til 15 ára aldurs. Ef hv. flm. á við, að hann sé andvígur skólaskyldu barna og unglinga yfirleitt, þá er hann furðulegt fyrirbrigði aftan úr fortíðinni. Virðist það vera stefna hv. þm. að afnema skólaskylduna nokkurn tíma af þessu tímabili til 15 ára aldurs. Ég fæ ekki séð annað en að rökrétt framhald af því væri, að afnema skuli alla skólaskyldu, því að ef ekki er skólaskylda til 15 ára aldurs, þá eru það auðvitað foreldrar unglinganna, sem ákveða, hvort þeir gangi í skóla eða ekki, og mundu þar að vísu einnig koma til greina óskir unglinganna sjálfra. En ég hygg, að fáir skólamenn líti svo á, að börn innan 15 ára aldurs séu fær um að ákveða um það, hvort þau þurfi á fræðslu að halda eða ekki.