02.11.1951
Sameinað þing: 11. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í D-deild Alþingistíðinda. (3385)

58. mál, fræðslulöggjöfin

Páll Þorsteinsson:

Það hafa nú þegar orðið nokkrar umræður um þessa till., og er það ekki óeðlilegt, því að málefni það, sem hún fjallar um, er vissulega mikils virði. Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í þessum umr., og mun ekki lengja þær að miklum mun, en tel þó eðlilegt, út af því sem fram hefur komið í umr., að segja örfá orð.

Hv. þm. V-Húnv., 1. flm. till., hefur skýrt svo skilmerkilega, hvað í henni felst, að ég tel ekki ástæðu til að bæta þar neinu við. — Hér hafa komið fram raddir um það, að með þessari till. væri stefnt að því að stíga stórt skref aftur á bak um fræðslu barna, jafnvel skref aftur fyrir það, sem stigið var 1907, en ekki 1908, eins og haldið hefur verið hér fram. En í till. segir: „en þó sé skylt að veita börnum þá lágmarksfræðslu, sem nú er krafizt við barnapróf . . .“ Mér skilst, að þetta sýni ótvírætt, að það vaki fyrir flm., að öllum sé leyft það nám, sem nú er kennt í barnaskólum.

Þá segir í till.: „Námsskylda í unglingaskólum sé numin úr lögum og árlegur skyldunámstími í barnaskólum styttur verulega . . .“ Já, mér finnst ástæða til að staldra við þetta og gera sér grein fyrir því, hver námstíminn er nú samkv. l. Ég viðurkenni það, sem fram kom hjá hv. 1. landsk. (BrB), að l. eru að ýmsu leyti frjálsleg, í rúmum ramma utan um framkvæmdina, og að því leyti sem skyldunámi ýmsu viðvíkur, þá eru rúm ákvæði í l. Barnaskólarnir eiga að starfa 7 til 9 mánuði á ári, en þó er gert ráð fyrir því í l. og framkvæmdin er mjög víða sú úti um sveitirnar að skipta þessum 7 mánaða námstíma í heimavistarskólunum í tvennt, þannig að skólarnir taka tvær deildir og hvor deild situr aðeins í skólunum í 3½ mánuð yfir veturinn. Samt eiga þessi börn að ganga undir sömu kröfur til barnaskólaprófs og hin, sem eiga að sitja í skólanum í 9 mánuði hvern vetur. Mér er ekki kunnugt um annað en að framkvæmd l. hafi verið á þennan veg, og þegar þetta er athugað, hlýtur að vakna þessi spurning: Hvað veldur því, að hægt er að ná sama eða mjög svipuðum árangri með deild skólanemenda, sem situr í skólanum í 3½ mánuð, og aðrar deildir, sem sitja í skólanum í 9 mánuði? Mér finnst, að þetta sé athyglisvert og ekki að ófyrirsynju, að hv. þm. athugi það mál vandlega. Þess vegna tel ég það ekki illa farið í sjálfu sér, að svona till. komi fram og henni verði vísað til nefndar og málið athugað vandlega.

Hv. 6. landsk. (HV) hefur bent á, að það séu þjóðfélagslegar aðstæður, sem þessu valdi. Ég er honum sammála um það, en það er athyglisvert mál, hvort ekki er hægt að jafna þær þjóðfélagslegu aðstæður á annan hátt en krefjast 9 mánaða skólasetu á hverjum vetri. Og mér skildist hv. 6. landsk., sem hefur allmikla reynslu í þessum efnum, vera þeirrar skoðunar, að það sé fulllangt gengið að heimta 9 mánaða árlega skólasetu. (HV: Það er óvíða nema 8 mánuðir og svo smábarnaskóli.)

Þá hefur komið fram í umr., að með þessari till. væri verið að raska mjög því skólakerfi, sem nú ríkir, og hefur verið fært fram því til stuðnings, að gert væri ráð fyrir, að unglingaprófi væri lokið áður en nemendur kæmu í framhaldsskóla ýmsa, t. d. sjómannaskólann o. s. frv. Mér finnst, að fullmikið hafi verið úr þessu gert í umr., með tilliti til þess, að skólakerfið er þannig byggt upp, að það er landsprófið, sem fyrst og fremst veitir réttindi inn í skólana, en til þess að ná miðskólaprófi er ekki nægilegt að ljúka skyldunámi við unglingaskóla, heldur þarf þar til viðbótar að koma frjálst nám á gagnfræðastigi, og þó að námið yrði frjálst svolítið lengri tíma en nú er til þess að ná miðskólaprófi, fæ ég ekki séð, að af því þyrfti að leiða stórfellda röskun á kerfinu út af fyrir sig.

Hv. 6. landsk. hefur lýst þeirri reynslu, sem hann hefur fengið sem skólamaður af verknámi í gagnfræðaskólunum. Ég rengi á engan hátt, að hann hafi skýrt rétt frá þeirri reynslu, og það er vissulega mikilsvert, að unglingar, sem eru á þessum aldri, geti átt þess kost að iðka verknám. En mér finnst rétt að láta koma fram í þessum umr., sem bæði mér og öðrum var ljóst, sem sæti áttu hér á þingi 1946, þegar nýja skólalöggjöfin var sett, að það þarf geysimikið átak til þess að búa skólana þannig úr garði, að þeim sé almennt gert mögulegt að veita kennslu í verknámi eins og l. gera ráð fyrir. Það þarf miklu meira húsrými til verknáms en bóknáms, og auk þess er verknámi samfara miklu meiri kostnaður við kennslutæki og ekki hægt að hafa bekkina jafnstóra við verknáms- eins og við bóknámsdeildir. Það er þess vegna auðséð, að enn um skeið hljóta ástæðurnar að verða þær, að allvíða skorti aðstöðu til þess að kenna þetta verknám að því marki, sem l. í sjálfu sér ætlast til. Meðan svo er, væri því rétt að taka til athugunar, hvort ekki væri heppilegt að leggja þetta um skylduna meira á vald fræðsluráðanna í héruðunum en nú er gert. Það eru n., sem samkv. fræðslulöggjöfinni eru kosnar heima í héruðunum, sem eiga að hafa yfirumsjón með öllum skólastörfum í hverju héraði um sig, og hafa því allra bezta aðstöðu til að meta, hvernig aðstaðan er á hverjum stað og hvað eðlilegt er að ganga langt í kröfum um skylduna, á meðan þjóðfélagið hefur ekki aðstöðu til að búa skólana svo út sem þarf að vera, til þess að þetta verknám geti tekizt vel.

Þessum aths. vildi ég hreyfa, en sé, að tíminn er á þrotum; ég hef ekki ætlað mér að tefja umr., og mun því ekki tala lengra mál að sinni.