09.01.1952
Sameinað þing: 30. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í D-deild Alþingistíðinda. (3432)

103. mál, ræðuritun á Alþingi

Jón Pálmason:

Herra forseti. Svo sem alþm. er kunnugt, þá hefur nokkrum sinnum komið til mála hér á þingi undanfarin ár að breyta um aðferð varðandi upptöku á þingræðum á þann hátt að taka þær allar upp á stálþráð. Forsetar þingsins hafa látið nokkuð athuga það mál undanfarið, og þær athuganir hafa leitt í ljós, að þetta væri mjög dýrt og til mikilla muna dýrara en að hafa það fyrirkomulag, sem nú er. Þess vegna hefur ekki verið að þessu ráði horfið, en að sjálfsögðu er það skylt og sjálfsagt, að þeir haldi áfram að fylgjast með þeirri tækni, sem á þessu sviði er um að ræða, — hversu miklu það kann að muna, miðað við það ástand, sem nú er.

Varðandi þessa till. er það að segja, að hún fer fram á það, að hér í þinginu séu ekki teknir sem skrifarar aðrir en æfðir hraðritarar. Nú er það kunnugt mál, að við höfum á mjög mörgum undanförnum árum haft hér töluvert marga æfða hraðritara, sem taka ræðurnar mjög prýðilega upp, og þarf áreiðanlega ekki neitt út á það atriði að setja. Hins vegar hefur það verið svo og það lengi, að ekki hafa fengizt nægilega margir æfðir hraðritarar til þess að það dygði alveg til að fullnægja því verki, sem hér er um að ræða, og þess vegna höfum við valið úr öðrum mönnum, sem kostur hefur verið á, því að jafnan undanfarið hafa sótt um þetta starf miklu fleiri en þurft hefur að taka til innanþingsskrifta. Nú hygg ég að megi fullyrða, að það sé a. m. k. engin afturför á þessu sviði frá því, sem verið hefur á Alþ. frá öndverðu. Ég held, að það sé miklu fremur um framför að ræða frá því, sem áður var, nema vera kynni að því leyti, að þm. gerðu minna að því að lesa yfir handrit þingskrifara. En þrátt fyrir það hefur nú komið í ljós, að margir gallar hafa verið á upptöku á þingræðum, og því var það, að forsetar þingsins tóku þá ákvörðun á síðasta þingi að láta hafa nákvæmara eftirlit með þessu starfi en gert hafði verið áður, og var yfirskrifaranum, Ólafi Tryggvasyni, falið það verk. Nú, það kann að vera, að hv. flm. þessarar till. telji þetta vera ófullnægjandi, og má að sjálfsögðu um það deila, en ég vil taka fram, til upplýsingar fyrir hv. þm., að þessa till., eins og hún er lögð hér fyrir, er ekki hægt að framkvæma á annan hátt en þann að ráða fasta menn og setja þá á föst, ákveðin laun, því að ég hef ekki trú á því, að hægt sé að fá að jafnaði nægilega marga æfða hraðritara til þess að hafa þetta starf á hendi, án þess að þeir hafi til muna hærra kaup en þingskrifarar hafa haft hingað til. Menn verða því að gera sér grein fyrir því í sambandi við þessa till. að ef þeir óska þess, að hér sé farið inn á þá braut, að eingöngu séu notaðir æfðir hraðritarar til innanþingsskrifta, mundi það hafa í för með sér mjög verulega aukinn kostnað við þinghaldið.

Annars er það náttúrlega talsvert álitamál og skiptar skoðanir um það, hve veigamikla þýðingu það hefur í sjálfu sér að skrifa upp og gefa út allar ræður, sem haldnar eru hér á Alþ. En á meðan ekki er nein viðleitni höfð í þá átt að spara á öðrum sviðum, þá hefur ekki þótt koma til mála að taka upp þann sparnað, sem vel er hugsanlegur, að prenta aðeins þingskjöl og atkvæðagreiðslur o. s. frv., sem vel mætti gera, og láta ræðurnar í aðalatriðum eiga sig. Þetta mundi hafa í för með sér, að skrifuð yrðu lengri nál. en nú er gert, og einnig, að allar aðalræðurnar, sem fluttar eru hér í þinginu, yrðu birtar í blöðunum, sem gæti líka haft í för með sér mjög verulegan sparnað við þinghaldið.

Ég skal ekki fara út í þetta nánar, en að svo miklu leyti sem allshn., sem vafalaust fær þessa till. til athugunar, vill fá um það upplýsingar eða viðtöl við okkur forsetana, teljum við okkur að sjálfsögðu skylt að veita allar þær upplýsingar, sem við getum í té látið varðandi þetta mál.