09.01.1952
Sameinað þing: 30. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í D-deild Alþingistíðinda. (3434)

103. mál, ræðuritun á Alþingi

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það var ekki vonum fyrr, að hæstv. forsetar vöknuðu til meðvitundar um það, að rétt væri að hafa eitthvert eftirlit með ræðuskriftunum, og gerðu ráðstafanir til þess, að haft yrði eftirlit með því, að ræður týndust ekki, eins og einatt hefur komið fyrir á undanförnum þingum, — að það þyrftu ekki að vera eyður í ræður og ræðuparta, og hafi þeir þökk fyrir það. Hins vegar get ég ekki þakkað þeim fyrir það, að þeir hafi tekið þetta mál til þeirrar afgreiðslu, sem gagn væri að. Þótt hæstv. forseti Sþ. hafi gefið þær upplýsingar hér áðan, að þeir hefðu rannsakað þetta mál nokkuð og komizt að þeirri niðurstöðu, að vélræn upptaka væri ýmsum örðugleikum háð, hún mundi verða dýr o. s. frv., þá legg ég ekki mikið upp úr því, þegar ekki liggja fyrir nánari upplýsingar um þessa rannsókn. Hefur verið rannsakað ýtarlega, hvað hinar ýmsu leiðir vélrænnar upptöku mundu kosta, hvernig hægt yrði að koma slíkum tækjum fyrir í þingsölunum og hvort heppilegast yrði að nota diktafón, stálþráð eða plastþráð? Eftir þessu hef ég spurt oftar en einu sinni, en alltaf fengið sama svarið, þetta væri allt of dýrt og það þyrfti að spara, — svar, sem íhaldssemin hefur alltaf á takteinunum, — og því stendur allt í sama stað. Því legg ég ekki mikið upp úr upplýsingum hæstv. forseta. Og það væri mjög æskilegt, að alþm. ættu kost á að sjá þennan samanburð á kostnaðinum, sem hæstv. forsetar segjast hafa gert. Því má ekki vélrita þennan samanburð upp og lofa okkur að sjá, á hverju hann er byggður og hvernig hann litur út? Það er mála sannast, að á þessu máli hefur verið dæmalaust sleifarlag. Og ef menn eru hræddir við nýbreytnina eða kostnaðinn, að hann mundi verða of mikill, því þá ekki að reyna að rannsaka þetta raunhæft með því að hafa hér upptökutæki í 2–3 vikur, tæki, sem þingið á, og athuga þannig, hvað það kostar, og yrði þá séð, hvort rannsókn hæstv. forseta stæðist prófraunina?

Ég held, að það sé mjög vafasamt að samþ. þessa till., sem hér liggur fyrir, í fyrsta lagi vegna þess, að ræður eftir hraðritarana eru engu betri en eftir aðra skrifara. Mín reynsla er sú, að hraðritararnir séu engu betri. Hæfni þingskrifara fer ekki fyrst og fremst eftir því, hvort hann er hraðritari eða ekki, heldur fer hún eftir því, hve fær hann er að rita, fljótur að hugsa og vel að sér í því máli, sem hann á að skrifa um. Það getur eins komið fyrir hraðritara og aðra ritara að skella jörð á Vestfjörðum austur í Skagafjörð. Það hefur oft komið fyrir, að hraðritarar hafi farið skakkt með tölur og staðsetningu, eins og hinir. Þar að auki eru hraðritarar svo fáir hér á landi, að þeir geta haft eins konar diktatur í þessu máli og sett upp það kaup, sem þeir vilja. Ef maður les gömul þingtíðindi, finnur maður beztu ræðurnar einmitt eftir þá menn, sem ekki kunnu hraðritun, og það langbeztu, svo að þessi till. getur aldrei orðið til bóta í þessu máli, enda sofnaði allshn. frá slíkri till. í fyrra og gerir það sennilegast nú líka.

Ég veit ekki, hvað það er, en það er eins og menn séu hræddir við að gera nokkuð í þessu máli, hræddir við að taka upp nýjung, eða hvað? Ekki getur verið, að menn séu hræddir við að styggja kannske einhverja skrifara með breytingunni. Ég veit ekki, hvað það er. En það er enginn vafi á því, að með því að taka upp vélræna upptöku á þingræðunum væri stórt spor stigið fram á við. Ég mistala mig allra manna oftast, — ég veit það, — en við því er ekkert að segja. Það mundi þá koma fram í mínum ræðum á plötunum og væri þar sem sýnishorn af því, hvernig ég hef mistalað mig. En hinu vil ég mótmæla, að ekki skuli vera gert eitthvað til að koma í veg fyrir, að ræðupartar týnist eða brenglist allir í meðförum skrifara.