09.01.1952
Sameinað þing: 30. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í D-deild Alþingistíðinda. (3435)

103. mál, ræðuritun á Alþingi

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Mér virðist það ekki að ófyrirsynju, að því sé hreyft hér á þingi, að rétt sé að gera tilraun til að betrumbæta þingskriftirnar og opna betur fyrir þjóðinni dyr Alþingis og gefa henni betri kost á skjótum og öruggum fregnum af meðferð mála hér, eins og oft áður hefur komið fram. Það eru aðallega tvær hliðar á þessu máli. Annars vegar það, hvað hægt er að gera til þess að ná sem bezt og gleggst niður þingræðum, og hins vegar það, hvað gera má til að betrumbæta útgáfu þingtíðinda. Nú hefur komið fram till. um það, hvernig hagkvæmast sé að taka upp ræður þingmanna sem réttastar. Ég get engan dóm á það lagt, hvort hagkvæmara yrði að hafa vélrænan hátt á því starfi — og þá hvort stálþráður eða diktafónn yrði heppilegri — eða þá að við þingskriftir yrðu eingöngu hafðir góðir hraðritarar. Ég get ekkert fullyrt um, hvor aðferðin mundi reynast betur. Þó get ég ályktað nokkuð í þessu efni út frá þeirri reynslu, sem ég hef í þessu máli í sambandi við alþjóðaþing og þjóðþing annarra ríkja, en þar er aðallega horfið að því ráði að nota hraðritara eingöngu, a. m. k. þar, sem ég þekki til. Ég hygg, að á þjóðþingum nágrannalandanna séu eingöngu notaðir hraðritarar við þessi störf, og sömuleiðis hygg ég, að hraðritarar séu notaðir á flestum alþjóðaráðstefnum, og er þá aukaatriði, hvort notaðir eru blýantar við hraðritunina eða þar til gerðar vélar, sem víða hafa verið reyndar, m. a. hér á Alþ. Og ég hygg, að þessi starfsháttur hafi gefizt sæmilega. Það er að sjálfsögðu með hraðritun eins og önnur störf, að þau eru undir því komin, hversu samvizkusamir og leiknir í sínu starfi þeir menn eru, sem hafa þau með höndum, og hygg ég, að góðir, leiknir og samvizkusamir hraðritarar séu æskilegasti hátturinn til að taka niður ræður manna. Ég hef kynnzt hraðritun lítillega í mínu starfi, og ég hef kynnzt svo ágætum hraðriturum, að ég er alveg óhræddur við að láta þá taka niður mínar ræður. Þeir hafa skilað þeim í mjög góðu lagi, hvergi sleppt úr efni, en sniðið af þeim vankantana, sem oft koma fyrir í ræðum manna, sem tala blaðalaust. Og ég hygg, að hér á Íslandi mundi vera hægt að fá nægilega marga góða hraðritara.

Ég sagði áðan, að ég gæti ekki af persónulegri reynslu dæmt um það, hvort heppilegra yrði að taka upp hraðritun á ræðunum eingöngu eða vélræna upptöku. En það ætti að vera hægt að komast að niðurstöðu um það atriði með ýtarlegri rannsókn og umsögnum dómbærra manna. Ég hef líka þá trú á hæfni ungra Íslendinga, að það ætti að vera auðvelt að fá nóga góða hraðritara til þess að starfa við Alþ. Ef starfið yrði sæmilega vel launað, þætti mér ekki ósennilegt, að hægt yrði að velja úr allstórum hóp góðra hraðritara. Mig undrar oft mjög, — og segi ég þetta hér svona innan sviga, — hve hraðritun er lítið notuð við skrifstofustörf hér á landi, t. d. á opinberum skrifstofum. Þetta tíðkast mjög erlendis og gefst vel. En það er allt of lítið um slíkt hér. Ef hnigið yrði nú hins vegar að því að auka hraðritunarnotkun á þessu sviði, mundu án efa miklu fleiri leggja í að læra hraðritun. Ég veit ekki, hvort hraðritun er skyldunám við verzlunarskólann, en menn geta a. m. k. fengið tilsögn í henni þar, en að sjálfsögðu væri eðlilegast að koma á fastri kennslu í þessari grein. Það er með hraðritara eins og alla aðra starfsmenn, að þeir eru góðir, þegar þeir eru góðir, og ég efast ekki um, að það yrði hægt að fá nóga góða hraðritara til þess að starfa við Alþ., ef þeim yrðu veitt sæmilega góð starfsskilyrði. En þetta er aðeins önnur hlið þessa máls, sem ég vildi minnast á.

Hin hliðin, sem ég hef oft minnzt á í sambandi við þetta mál, snýr að því, hvað hægt er að gera til að koma út alþingistíðindum fljótar, svo að umræður á þingi gætu náð til alþjóðar; hvort ekki sé hægt að koma á þeim hætti, að ræður þingmanna kæmu út einu dægri eða svo eftir að þær voru haldnar. Það er alveg nauðsynlegt að gera tilraun til að bæta úr þessu atriði málsins hér á Alþ. Það er nauðsynlegt fyrir alþm. sjálfa, ef við viljum t. d. vita, hvað ákveðinn alþm. hefur sagt í umr. um ákveðið mál fyrir örfáum dögum, en eins og nú er, er það alveg undir hælinn lagt, ef við förum inn í lestrarsal til að fletta upp á slíku, hvort viðkomandi ræða er komin inn. Ef hins vegar þessi háttur yrði hafður á, þyrftum við ekki annað en fletta upp í umr. þessa dags og sjá, hvað viðkomandi þm. hefur sagt, og gætum svo vitnað til þeirra orða, ef við viljum mótmæla hans málflutningi eða finna stuðning í orðum hans. Svo er þessi háttur nauðsynlegur vegna alls almennings í landinu, sem á að eiga þess kost að vita fljótt og rétt, hvað sagt er í umræðum hér á Alþ.

Ég hef áður látið þá skoðun mína í ljós, að frásagnir blaðanna um ræður á Alþ., — og undanskil ég þar ekkert blað, — eru forsmán ein. Þar er aldrei gerð tilraun til að segja samvizkusamlega og satt frá umræðum á Alþ. Það er sagt, að þessi og þessi þm. hafi sagt þetta og hitt, og síðan er hiklaust lagður dómur á þau ummæli, án þess að nokkur tilraun sé gerð til að skýra satt og rétt frá öllum hliðum málsins. Þetta er vægast sagt fráleitur fréttaburður, og er ekkert blaðanna undanskilið. En einmitt vegna þess, hve íslenzku blöðin standa þarna á lægra stigi en blöð allra annarra landa, þar sem ég þekki til, þar sem blöðin reyna að kappkosta að fara rétt með í þessu efni og draga ekki undan viðhorf andstæðinganna, þá er enn þá ríkari ástæða til að gefa út þingtíðindi svo fljótt sem kostur er, helzt eftir einn til tvo daga frá því, er ræðurnar voru haldnar, eða a. m. k. ekki sjaldnar en vikulega. Og það er ekki búið að sannfæra mig um, að þetta sé ekki hægt. Það er hægt með góðum vilja og skilningi að gefa út ræður alþingismanna vikulega þann tíma, sem Alþingi stendur yfir. Ég er viss um, að það væri hægt að selja mikið af því riti, og fjöldi manns mundi gerast áskrifendur að þessu riti. Áhugamenn um stjórnmál ættu þess þá kost að fá rit þetta með ræðum þingmanna sent út um allt land, þegar búið er að prenta það hér í Reykjavík.

Við þá till., sem hér liggur fyrir, flyt ég viðaukatill., en ég sé ekki ástæðu til þess að breyta sjálfri till., þótt ég vilji láta taka vélræna upptöku á þingræðum til athugunar. En viðaukatill. mín er um það að hraða útkomu þingtíðinda, þannig að þau gætu komið út einu sinni í viku, meðan Alþ. stendur. Ég vil skjóta þessu til n. þeirrar, sem fjallar um málið, að hún athugi þessa hlið málsins einnig. En til þess að hægt sé að framkvæma þetta, þarf að gera miklar umbætur á þingskriftunum yfirleitt. En við, sem höfum trú á þingræði, þar sem öll þjóðin á kost á að vita, hvað fer fram á opnum fundum Alþingis, og viljum, að það sé meira en nafnið eitt, vitum, að það þarf að gefa út þingtíðindin — eða a. m. k. umræðupart þeirra rétt eftir að ræðurnar eru haldnar. Og hví skyldu Íslendingar ekki geta framkvæmt þetta eins og aðrar þjóðir, og hvers vegna skyldi það verða miklu dýrara en nú er? Það er enginn búinn að sannfæra mig um, að það sé ekki hægt að leggja í þetta eða að það sé svo dýrt, að ekki sé hægt að gera það þess vegna. Ég vil þess vegna skjóta því til þeirrar n., sem um þetta mál á að fjalla, og beina því til hæstv. forseta, að þeir athugi þetta gaumgæfilega. Það er mikið undir því komið, að okkur hér á Alþ. takist að gera einhverjar umbætur í þessu efni.

Ég hef lesið það einhvers staðar eftir kunnugum manni, að þingmenn okkar Íslendinga haldi eins góðar ræður og almennt tíðkast á erlendum þingum og að við þyrftum ekki að skammast okkar fyrir það, að þjóðin kynnist ræðum þeim, sem fulltrúar hennar halda þar. Þetta styrkir okkur og verður okkur alþingismönnum aðhald til þess að vanda ræður okkar, ef þær eru teknar upp fljótt og vel og gefnar út minnst einu sinni í viku. Vona ég, að hv. alþm. skilji nauðsyn þessa máls.