09.01.1952
Sameinað þing: 30. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í D-deild Alþingistíðinda. (3472)

124. mál, landtökuviti á Norðausturlandi

Emil Jónsson:

Herra forseti. Þar sem nú er komið að fundarlokum, skal ég ekki vera margmáli um þessa till., en mig langar þó að láta í ljós ánægju mína yfir því, að áhugi hv. þm. er vakandi til þess að bæta vitakerfi landsins, því að í því eru víða eyður.

Ég vildi ekki láta hjá líða við þessa umr. að gefa nokkrar upplýsingar í þessu sambandi, sem gætu verið til athugunar fyrir þá n., sem fær málið til meðferðar milli umræðna.

Meginefni þessarar þáltill. er það, að nú verði reistur á Norðausturlandi radioviti til þess að leiðbeina skipum, sem koma erlendis frá upp að strönd Norðausturlandsins. Nú á síðastliðnu ári, 1951, var ákveðið að reisa slíkan vita, sem gæti innt það hlutverk af hendi, sem virðist vaka fyrir hv. flm. till.—Eins og kunnugt er, þá er gangur málsins sá, að Alþ. veitir fé til þeirra staða, þar sem byggja á, en vitamálanefnd gerir till. um, hvar vitar skuli byggðir. Nefnd þessi er skipuð forseta Fiskifélags Íslands, fiskimálastjóra, skólastjóra stýrimannaskólans og vitamálastjóra. Á síðasta ári, í janúarmánuði, gerði n. till. til ríkisstj., að á árinu 1951 yrði reistur viti á Dalatanga. Hann komst þó ekki upp, en efni var pantað til hans, sem þurfti. Það mun hafa komið til landsins í desember síðastl., og er því vitinn tilbúinn til uppsetningar á þessu ári.

Að öðru leyti vildi ég aðeins leyfa mér að leiðrétta það, sem hv. þm. (StgrA) sagði, að aðeins séu radiovitar á Suðurlandi, eins og kemur fram í grg., sem fylgir þáltill, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Aðeins á Suðvesturlandi er vel séð fyrir þessum hlutum, svo að jafnvel mætti kalla ofrausn, því að þar eru þrír öflugir radiovitar hlið við hlið, einn á Reykjanesi, annar á Álftanesi og hinn þriðji á Seltjarnarnesi.“ Þetta er nú ekki að öllu leyti rétt. Radiovitar eru á Reykjanesi og Seltjarnarnesi, en Álftanesvitinn var lagður niður, er Seltjarnarnesvitinn tók til starfa. En það eru fleiri vitar starfræktir úti um landið. Það eru radiostefnuvitar starfræktir í Vestmannaeyjum, á Patreksfirði, Vestra-Horni, Kálfshamarsvík, Horni og Sauðanesi við Siglufjörð. Það er því einkum á Austurlandi, sem úrbóta er þörf. Nú er efni komið til landsins í vita á Dalatanga, en þar hefur verið gert ráð fyrir, að reistur verði viti, eins og ég gat um. Um þetta allt hefði hv. flm. getað fengið upplýsingar hjá vitamálastjórninni. Það er mjög æskilegt, sem hv. þm. talar um, en bygging stefnuvita er undirbúin á Dalatanga og annars á Sléttu við Raufarhöfn.

Ég vildi láta þetta koma hér fram í umr. um þetta mál. Að öðru leyti mun að sjálfsögðu fjalla um þetta nefnd sérfróðra manna.