16.01.1952
Sameinað þing: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í D-deild Alþingistíðinda. (3482)

137. mál, landhelgisgæsla á Breiðafirði og sunnan við Snæfellsnes

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Ég sakna þess, að till. til þál. á þskj. 302, sem ég hef flutt hér í Sþ., hefur ekki verið tekin hér á dagskrá. Henni var fyrir nokkru vísað til hv. fjvn., og hafði ég búizt við, að álit hv. fjvn. lægi nú fyrir og að till. yrði hér til meðferðar í dag. — Hér er um mjög aðkallandi mál að ræða, og mér berast daglega kvartanir að vestan yfir óvenjulegum ágangi togara á línuveiðibáta. Hafa bátar frá Stykkishólmi og Ólafsvík orðið fyrir miklu veiðarfæratjóni vegna yfirgangs togaranna. Þeir eru á sömu slóðum og fiskibátarnir leggja línur sínar, og hefur þetta haft mikil og slæm eftirköst nú þegar, og má búast við enn verri afkomu hjá bátunum, eftir því sem fleiri togarar koma á þessi mið til þess að toga þar.

Ég væri þakklátur hæstv. forseta, ef hann vildi greina ástæðuna fyrir því, að ekki hefur þegar fengizt álit hv. fjvn. í þessu efni.