16.01.1952
Sameinað þing: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í D-deild Alþingistíðinda. (3486)

137. mál, landhelgisgæsla á Breiðafirði og sunnan við Snæfellsnes

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Út af þeim umr., sem hér hafa farið fram, þykir mér rétt að láta það koma fram, að fjvn. ætlast ekki til, að til þessa starfs verði veitt meira fé en þegar hefur verið ákveðið í fjárlögum. Hins vegar vil ég benda hæstv. ráðh. á, að þótt eigi verði orðið við óskum sjútvmrh. að öllu leyti, þá hefur nú verið bætt við nýju gæzluskipi í varðskipaflotann, og er búizt við, að það muni einkum annast gæzlu á Faxaflóa, svo að það mun að sjálfsögðu bæta eitthvað úr í þessu efni. En það getur hins vegar ekki verið í verkahring fjvn. að ákveða í fjárlögum hverju sinni, hvernig eigi að haga landhelgisgæzlunni almennt, og því kaus nefndin að afgreiða málið á þennan veg, en fara ekki út í að úthluta fé eftir einstökum till. Það er á valdi ríkisstj. hverju sinni að kveða á um það, hvernig haga skuli landhelgisgæzlunni í framkvæmdinni.