16.01.1952
Sameinað þing: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í D-deild Alþingistíðinda. (3490)

137. mál, landhelgisgæsla á Breiðafirði og sunnan við Snæfellsnes

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. mikið um þetta mál, en vil láta í ljós undrun mína yfir því, hvernig hæstv. ráðh. ætla að snúast í þessu máli. Hingað til hefur það verið siður, ef bornar hafa verið fram till. á Alþ. um fjárveitingu, eftir að fjárlög hafa verið samþ., að þá hefur meiri hl. alþm. ráðið því, hvort þær hafa verið samþ. eða ekki, og hefur þá ríkisstj. orðið að taka við þeim á hverjum tíma eða þá tilkynna, að hún treysti sér ekki til að framkvæma þær, og leggja þá fyrir lausnarbeiðni sína. Það er gert ráð fyrir því í 24. gr. fjárlaganna, að fjárlögin geti tekið breyt., ef ákvörðun er tekin um það með lögum og samþykkt Alþ. er fyrir því. Ef meiri hl. alþm. óskar þess nú, að orðið verði við óskum um aukna landhelgisgæzlu fyrir Norðurlandi og við Snæfellsnes og á Breiðafirði, sé ég ekki annað en ríkisstj. verði að framkvæma þann vilja Alþ. eða þá leggja fyrir afsögn að öðrum kosti. Ég álít ómögulegt að segja við þingmenn, að þeir megi ekki koma fram með till. um auknar fjárveitingar, eftir að fjárlög hafa verið samþ. Það má benda á fjölmörg dæmi þess, að slíkar till. hafa komið fram, auk þess sem má benda á það, eins og hv. þm. Snæf. gerði, að nú hafa þeir Steingrímur Steinþórsson og Ólafur Thors, sem eru forsætisráðherra og atvinnumálaráðherra í núverandi stjórn, lagt fram till. á þskj. 623, þar sem lagt er til, að varið verði úr ríkissjóði á þessu ári 1.5 millj. kr. til ákveðinna framkvæmda, og þessi till. kom fram eftir að fjárlög voru samþ. Ég álit því, að alþm. hafi fulla heimild til að bera fram slíkar till. eins og hv. þm. Snæf. hefur gert og að Alþ. verði að kveða á um það, hvort rétt sé að verða við þessum óskum um aukna landhelgisgæzlu fyrir Norðurlandi og við Snæfellsnes og á Breiðafirði, og ríkisstj. verði að taka á móti slíkum till. og framkvæma þær eða þá að segja af sér að öðrum kosti.