08.11.1951
Sameinað þing: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í D-deild Alþingistíðinda. (3517)

46. mál, mæðiveikivarnir

Landbrh. (Hermann Jónason):

Herra forseti. Það verður aldrei of djúpt tekið í árinni með það, að sú veiki, sem hefur átt sér stað í sauðfé landsmanna, er eitt af alvarlegustu viðfangsefnum landbúnaðarins, og þessi veiki er einn ægilegasti vágesturinn, sem sótt hefur okkur heim. Það hafa komið til mála ýmsar aðgerðir til úrbóta í þessu máli, m. a. að fá hingað erlenda sérfræðinga, sem hefur þó ekki orðið úr, enda hefur þetta mál verið á byrjunarstigi hjá okkur og við reynt að vinna sjálfir bug á veikinni.

Viðkomandi því atriði, sem hv. þm. N-Ísf. drap á, að mistök hefðu átt sér stað við mæðiveikivarnirnar, er það að segja, að í máli sem þessu er ekki óeðlilegt, að slík mistök komi fyrir. Eins og Alþ. er kunnugt, var valin sú leið í þessu máli að láta menn úr bændastéttinni fara með þessi mál, og mátti búast við, að þeir væru einna bezt kunnugir í þessum efnum og hefðu mestan áhuga á að gera allt, sem unnt væri í þessari baráttu. Sér við hlið höfðu þeir svo færustu sérfræðinga á þessu sviði, sem þjóðin hefur átt völ á.

Viðkomandi fyrirspurninni sjálfri er það að segja, að eins og ég sagði áðan, hefur ekki verið leitað til erlendra sérfræðinga í þessu efni. Fjvn. Alþ. hefur sýnt mikinn áhuga í þessu máli og hefur fyrir alllöngu síðan ritað bréf til þeirrar stofnunar, sem mest hefur með þessi mál að gera, tilraunastöðvarinnar á Keldum, þar sem n. beiðist umsagnar um þá fram komna till. til þál. um sérfræðilega aðstoð vegna sauðfjársjúkdómanna. Svarbréfið er dags. 6. maí 1950, og hefur n. ekki þótt ástæða til að gera meira í málinu. — Ég sé ekki ástæðu til að lesa þetta bréf upp hér, en get þess, að það kemur fram í því það sjónarmið, að ólíklegt sé, að vænlegt sé til árangurs að fá erlendan sérfræðing í þessum málum.

Ég sný mér þá að spurningunni. — Að sjálfsögðu er hv. Alþ. ljóst, að ríkisstj. hefur ekki sérfræðiþekkingu í þessum málum, og hef ég því snúið mér til sauðfjársjúkdóman. og óskað eftir umsögn hennar um málið. Ég hef móttekið svar, sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta (ég sleppi hér almennum inngangsorðum):

„Með tilliti til þess, að nú hefur mæðiveiki komið upp á fjárskiptasvæði, telur n. fyllstu ástæðu til, að leitað verði allra úrræða, sem líkleg þykja til að bæta úr þeim vandræðum, sem af því leiðir, ef ekki tekst að útrýma mæðiveikinni með fjárskiptum. Mesta þýðingu hefði að fá varnar- eða lækningalyf við veikinni, en þó að svo væri ekki, gæti verið mikils virði að fá meiri vitneskju en nú er fyrir hendi um smitunar- og útbreiðslumöguleika veikinnar. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) mun láta búfjársjúkdóma til sín taka og hafa í þjónustu sinni sérfræðinga á því sviði. Þótt n. sé ókunnugt um, á hvern hátt eða í hvaða formi helzt væri að vænta aðstoðar Sameinuðu þjóðanna í þessu efni, er hún því eindregið meðmælt, að leitað verði eftir, hvort stofnunin vildi á einn eða annan hátt sinna þessu verkefni.“

Jafnframt hef ég ritað bréf til tilraunastöðvar háskólans og móttekið svo hljóðandi bréf, með leyfi hæstv. forseta (það eru fyrst almenn inngangsorð, sem ég sleppi):

„Heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna mun einungis fást við sjúkdóma í mannfólki. Það er því naumast ástæða til að fara frekar út í þá uppástungu. Til mála kæmi hins vegar að leita upplýsinga hjá landbúnaðarstofnuninni, ef það þætti líklegt til árangurs. Út af þessu leyfi ég mér að taka fram: Á Alþ. 1949–1950 var borin fram till. til þál. um svipað efni (nr. 562 í Sþ.). Samkvæmt beiðni fjvn. Alþ. lét tilraunastöðin þá í ljós álit sitt á því máli í bréfi frá 6. maí 1950. Ég leyfi mér hér með að senda yður afrit af því bréfi, þar eð í því koma fram grundvallarsjónarmið okkar um þetta efni. Til áréttingar því, sem þar er sagt, og til fyllri skýringar á sjónarmiði okkar leyfi ég mér að taka nú fram eftirfarandi: Meðan eðli og útbreiðsluhættir mæðiveikinnar eru ekki þekktir betur en enn er, er erfitt að gefa öruggar „epidemiologiskar“ leiðbeiningar um sóttvarnaráðstafanir. Þurramæði er ekki þekkt erlendis, a. m. k. ekki í neitt líku formi og hér. Erlendur sérfræðingur, sem ekki hefði neina þekkingu á staðháttum hér á landi og ekki heldur af eigin raun þekkingu á mæðiveiki, mundi naumast verða sérlega gagnlegur við að leggja á ráðin um varnarráðstafanir. Verkefni hans hlyti að verða að tina saman upplýsingar um sjúkdóm þennan hjá þeim, sem eru kunnugastir honum hér á landi, og skrifa svo skýrslu á grundvelli þeirra. Ekki er líklegt, að sú skýrsla innihéldi mikið af gagnlegum nýmælum. Guðmundur Gíslason læknir, sem nú er ráðunautur sauðfjársjúkdómanefndar, er öllum mönnum kunnugri útbreiðsluháttum og hegðun mæðiveikinnar frá upphafi, auk þess sem hann hefur nákvæma þekkingu á öllum .aðstæðum við íslenzkan fjárbúskap. Ættu að vera hæg heimatökin með að leita ráðuneytis hans um þær sóttvarnaráðstafanir, sem gerðar eru á hverjum tíma. Þótt líkurnar fyrir útrýmingu mæðiveiki með niðurskurði, eins og nú er tíðkað, virðist ekki vera miklar, ætti þó að mega auka þær eitthvað með því að fylgja svo sem kostur er ráðuneyti þess mannsins, sem langkunnugastur er útbreiðslu pestarinnar. Væntanlega hefur einhver slík „epídemiologisk“ ráðleggingarstarfsemi vakað fyrir flm. till. Ef til vill hefur þó einnig vakað fyrir þeim að fá til starfa hér á landi erlenda sérfræðinga til að vinna að meinafræðilegum rannsóknum á mæðiveikinni. Það væri að sjálfsögðu mjög æskilegt að geta aukið starfsemi við rannsókn á eðli mæðiveikinnar. Væntanlega væri hentugast að undirbúa til þess starfs íslenzkan mann eða menn, en hitt kæmi þó einnig til mála, að fá til slíks útlendinga, sem hefðu góðan undirbúning og æfingu, og er ég að sjálfsögðu reiðubúinn til samstarfs um slíkt. Slíka menn yrði væntanlega að ráða til nokkurra ára dvalar. Vandinn yrði þá að fá til slíks starfs mann eða menn, sem hefðu sýnt getu sína við þvílíka vinnu, en slíkir menn munu því miður ekki liggja á lausu. Við höfum nokkuð athugað möguleikana á þvílíkri heimsókn með bréfaskiptum við erlenda starfsbræður, en niðurstaðan af því hefur ekki orðið sú, að við getum lagt fram till. til framkvæmda. Okkur sýnist þess vegna, að naumast sé tiltækilegt að svo stöddu að fá viðbótarstarfskrafta erlendis frá til slíkra rannsókna og alls ekki nema fyrir fram væri undirbúið óformlega, að úrvalsmaður fengist til. Þar við bætist, að vafasamt er, hvort hægt verður að halda áfram tilraunum með mæðiveiki hér á landi fyrst um sinn vegna sóttvarnaráðstafana.

Af ofangreindum ástæðum er það álit okkar, að naumast sé sigurvænlegt að leita hjálpar hjá landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna í umræddu skyni.“

Það verður vitanlega farið að verulegu leyti að ráðum þessara sérfræðinga í þessu efni. Þó er að sjálfsögðu hvorki ríkisstj.Alþ. bundið við að fara eftir þessum till., og á þessu stigi málsins tel ég rétt, eftir að veikin hefur komið upp á svæði, sem henni átti að hafa verið útrýmt á, að teknar verði upp umr. við þá aðila, sem hér eiga hlut að máli, en það er bæði tilraunastöðin á Keldum og sauðfjársjúkdómanefnd, um það, hvort líkur séu til, að útvegun erlendra sérfræðinga verði líkleg til að bera árangur.