08.11.1951
Sameinað þing: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í D-deild Alþingistíðinda. (3520)

46. mál, mæðiveikivarnir

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil undirstrika það, sem hv. þm. N-Ísf. minntist á nú í sinni seinni ræðu. En ég vildi mega leyfa mér að gera fyrirspurn til hæstv. landbrh., sem ég vænti, að hann svari hér í sambandi við þetta mikla vandamál: Hvaða ráðstafanir hefur ríkisstj. gert til þess að tryggja, að mæðiveikin berist ekki til Vestfjarða frá hinu sýkta svæði, svo að tryggt sé, að Vestfirðir verði hér eftir sem hingað til sauðfjáruppeldisstöð fyrir landið, meðan fjárskiptin hafa ekki farið fram um land allt? — Þetta er nákvæmlega það sama, sem hv. þm. N-Ísf. kom inn á í sinni ræðu. Og þetta er það, sem fólk spyr fyrst um, fremur en hvort unnt sé að lækna veikina. Hefur ríkisstj. látið fara fram réttarrannsókn á því, hverjir eigi sök á útbreiðslu sauðfjársjúkdómsins í Strandasýslu, og ef svo er ekki, er þess að vænta, að svo verði gert og aðilar verði látnir sæta ábyrgð eftir þeirri rannsókn? Og í þriðja lagi:

Þykir ríkisstj. ekki ástæða til að skipta um forstöðu fyrir þessum málum? — Þetta er kjarni málsins. Hvað hefur ríkisstj. gert til þess að forða því, að veikin berist í héruðin, sem aldrei hafa sýkzt? Hafa þeir, sem brotið hafa reglur í þessum málum, verið látnir sæta ábyrgð gerða sinna, og er ekki ástæða til að skipta um forráðamenn þessara mála? Þetta fé, sem veikin hefur komið upp í á Hólmavík, hefur verið rekið á fjöll með öðru fé, svo að það er ekki ástæðulaust, þó að menn spyrji um þetta, sem ég gerði.

Ég vænti, að hæstv. ráðh. svari þessu hér, annars verð ég að bera fram fsp. um þetta síðar.