31.10.1951
Sameinað þing: 9. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í D-deild Alþingistíðinda. (3535)

180. mál, olíu- og bensínverð

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Flutningi á venjulegum verzlunarvarningi verður ekki jafnað saman við flutning á benzíni og olíum til dreifingar út um landið. Ég vil benda hv. þm. á, að þótt slíkri verðjöfnun verði komið á, hindrar það engan í að kaupa olíu beint frá útlöndum. Hér er frjáls verzlun, og það má hver panta það, sem hann vill. Mönnum hefur ekki þótt borga sig að flytja olíu í smáslöttum til landsins og fá hana ekki keypta við sama verði og þessi félög fá með því að kaupa hana í stórum förmum. Þetta vandamál, sem hér er rætt, sprettur af því, að allt benzín er flutt til landsins í svo stórum förmum, að það er hvergi hægt að losa þá utan Reykjavíkur. Svo verður að taka það úr tönkum hér og flytja það til smástaða utan Reykjavíkur. — Ég skal ekki deila um þessa hlið málsins, en bendi á, að ég hef ekki skoðað þessa þáltill. þannig, að þetta væru fyrirmæli til ríkisstj. um að koma þessu á, heldur farið fram á ýtarlega athugun. Ég tel, að fyrst og fremst þurfi að fá upplýsingar frá þeim, sem bezt þekkja, hvort þetta sé framkvæmanlegt. Hitt er annað mál, að þetta mundi eflaust vekja óánægju hjá þeim, sem þurfa að kaupa benzín og olíur á hlutfallslega hærra verði en verið hefur.